Gjaldskrá fyrir söfnun og eyðingu dýraleifa
Sveitarstjórn Dalabyggðar samþykkti á fundi sínum í desember að innheimta gjald af dýraeigendum fyrir söfnun og eyðingu dýrahræja.
Frá þessu var greint á vef stjórnartíðinda í síðasta mánuði. „Förgunargjaldið byggir á fjölda búfjár á lögbýlum í sveitarfélaginu miðað við búfjárskýrslur Matvælastofnunar og verður innheimt með fasteignagjöldum.
Miðað er við að dýrahræ séu sótt til bænda og annarra búfjáreigenda með skráðan bústofn og komið í viðeigandi meðhöndlun. Farin verður ein ferð í viku að jafnaði,“ segir í bókun sveitarstjórnar.
Verðskráin gefur til kynna árlegt gjald sem reiknað er út frá stærð stofns. Sveitarstjórnin reiknar gjaldið í fjórum mismunandi þrepum og byrjar við 28.600 krónur fyrir aðila sem eiga færri en tuttugu ær.
Hæst er gjaldið 87.230 fyrir aðila sem eiga fleiri en áttatíu ær. Eitt hross reiknast sem þrjár ær og einn nautgripur sem fimm ær.