Glæsigripurinn Hylur
Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Tinnusvartur fjögurra vetra stóðhestur, Hylur frá Flagbjarnarholti, hlaut á dögunum 8,96 fyrir sköpulag á kynbótasýningu á Sörlastöðum. Mun það vera hæsta einkunn sem fjögurra vetra stóðhestur hefur hlotið í sögunni, og er jafnframt fjórði hæsti dómur sem kveðinn hefur verið upp fyrir sköpulag á íslenskum hesti.
Hylur hlaut einkunnina 9,5 fyrir samræmi og prúðleika, 9,0 fyrir hófa, fótagerð, háls, herðar og bóga, bak og lend, 8,5 fyrir höfuð og 7,5 fyrir réttileika. Í athugasemdum dómara stendur að Hylur sé léttbyggður, fótahár, sívalvaxinn með vöðvafyllt bak og góða baklínu, jafna lend, reistan, langan og mjúkan háls og háar herðar.
Þægur og meðfærilegur
Faðir Hyls er Herkúles frá Ragnheiðarstöðum sem sjálfur hlaut 8,66 fyrir sköpulag á Landsmóti hestamanna í fyrra. Móðir hans er Rás frá Ragnheiðarstöðum en sú hlaut aðeins 7,93 fyrir sköpulag þegar hún var sýnd árið 1998. Hún hefur hins vegar gefið vel sköpuð afkvæmi samkvæmt Worldfeng, upprunaættbók íslenska hestsins.
Hylur er í eigu Arnars Guðmundssonar og Sindrastaða ehf. en eigendur þess eru Ísólfur Líndal Þórisson og Vigdís Gunnarsdóttir.
„Hreyfieðli Hyls er að okkar mati einstaklega skemmtilegt. Hann er mjög léttstígur og á auðvelt með að bera sig, með fallegum hreyfingum og höfuðburði. Hann hefur mikið fas og útgeislun, algjör sjarmör. Geðslagið er líka gott, hann er þægur og meðfærilegur,“ segir Vigdís.
Hylur mun taka á móti hryssum í Lækjarmóti í sumar. Mynd/Vigdís Gunnarsd.
Byrjað var að temja Hyl á liðnu hausti en Vigdís segir að þau stefni á að sýna hann í reið næsta sumar.
„Hann er orðinn ágætlega taminn en það hefur farið mikil orka hjá honum í að stækka og með svo miklar hreyfingar að við tókum ákvörðun um að gefa honum lengri tíma til að ná upp styrk og jafnvægi fyrir sýningu í reið. Hann er mjög gengur og sýnir allan gang undir sjálfum sér.“
Hyli var sleppt í hryssur eftir dóminn, og mun þjóna hryssum í hólfi á Lækjamóti í sumar.