Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Grásleppukarlar í vanda
Fréttir 27. febrúar 2018

Grásleppukarlar í vanda

Höfundur: Guðjón Einarsson

Grásleppuvertíðin hefst eftir nokkrar vikur. Að þessu sinni standa grásleppukarlar frammi fyrir nýjum og áður óþekktum vanda. Þeir hafa verið sviptir vottun um sjálfbærar veiðar á þeirri forsendu að of mikið af sel og teistu komi í grásleppunetin sem meðafli. Þar með getur orðið erfitt að selja grásleppuhrognin á mikilvægustu mörkuðunum fyrir þessa vöru.

Grásleppuveiðar við Ísland eru áhættusöm atvinnugrein. Í fyrsta lagi eru veiðarnar mjög háðar veðri. Stundum tekst mönnum ekki að draga netin í bátana vegna óveðurs eða færa þau nægilega djúpt svo veðrið nái ekki að skemma þau. Missa kannski allt úthaldið í einum veðurofsa. Þótt ekki fari svo illa, veiðist ekkert meðan bræla er en leyfilegir veiðidagar halda hins vegar áfram að líða óbættir. Á síðasta ári voru dagarnir 46 talsins og þá þarf að nýta samfleytt frá því að hver og einn leggur sín net og þar til hann dregur þau upp í síðasta sinn.

Í öðru lagi hefur markaðsástand fyrir grásleppuhrogn ekki verið upp á það besta á síðustu árum sem endurspeglast í því að dregið hefur úr þátttöku í veiðunum. Ef öll grásleppuveiðileyfi væru nýtt gætu yfir 400 bátar stundað veiðarnar, en meðalfjöldinn á undanförnum árum hefur verið 240–250 bátar.

Afturköllun vottunar

Nýjasti vandinn er svo sá að svokölluð MSC vottun um sjálfbærar grásleppuveiðar við Ísland hefur verið afturkölluð á þeirri forsendu að of mikið af landsel, útsel og teistu komi í grásleppunetin sem meðafli. Vottunarstofan Tún sem annast þessa vottun byggir á skýrslu Hafrannsóknastofnunar um meðafla á grásleppuveiðum þar sem leiddar eru að því líkur að þessi meðafli geti ógnað þessum stofnum.

Grásleppukarlar mótmæla harðlega mati Hafrannsóknastofnunar á umfangi meðafla á grásleppuveiðum.

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir í samtali við höfund þessa pistils að það sé ekkert nýtt að selir og fuglar flækist í grásleppunet og engin ástæða sé til að afturkalla vottunina af þeim sökum. Örn gerir þá athugasemd við skýrslu Hafrannsóknastofnunar að hún byggi eingöngu á gögnum frá veiðieftirlitsmönnum Fiskistofu en ekkert á aflaskýrslum frá sjómönnunum sjálfum.

Veiðieftirlitsmennirnir séu einkum að skoða meðafla í upphafi vertíðar og ekki síst á þeim stöðum þar sem vitað er um meðafla, eins og t.d. í Breiðafirði og á Húnaflóasvæðinu. Þessar tölur séu síðan uppreiknaðar fyrir allt landið eins og meðafli sé jafnmikill alls staðar, á öllum veiðitímanum og á öllu dýpi. Þetta sé víðs fjarri raunveruleikanum. Sums staðar komi lítið sem ekkert af sel í grásleppunet. Þá komi teista ekki í net sem lögð séu neðan við ákveðið dýpi en hún sé samt reiknuð að fullu inn í meðafla alls staðar. Örn fullyrðir að Hafrannsóknastofnun ofmeti meðaflann á grásleppuveiðum gróflega og hefur LS óskað eftir því við sjávarútvegsráðuneytið að reynt verði að leysa þetta mál svo vottunin geti komist á að nýju.

Ófullnægjandi skráning

Sérfræðingar Hafrannsókna­stofn­unar, Guðmundur Þórðarson og Guðjón Sigurðsson, hafa svarað gagnrýni Landssambands smábátaeigenda í grein í Fiskifréttum þar sem þeir segja að erfiðlega hafi gengið að fá grásleppukarla til þess að skrá allan meðafla í afladagbók og því ekki hægt að styðjast við gögn þeirra, en þess í stað orðið að reiða sig eingöngu á gögn veiðieftirlitsmanna. Tekið er sem dæmi að á árunum 2014–16 hafi eftirlitsmenn skráð meðafla fugla eða spendýra í 67% róðrum þegar þeir voru um borð, en meðafli var eingöngu skráður í 15% róðra þegar eftirlitsmenn voru ekki um borð.

Samkvæmt skráningum sjómanna í afladagbækur árið 2017 komu að minnsta kosti 400 landselir í netin, um 200 útselir, 286 hnísur, 600 teistur og 1.800 aðrir sjófuglar. Áætlað mat Hafrannsóknastofnunar, byggt á eftirlitsferðum Fiskistofu, er talsvert hærra, eða á bilinu 700–1.100 landselir, 970–2.100 útselir, 240–440 hnísur, 1.300–2.121 teistur, og um 4.800 aðrir sjófuglar. Bent er á að þetta sé fimmfaldur munur á meðafla í heild.

Sérfræðingarnir viðurkenna að sú aðferð að uppreikna meðaflann yfir landið allt út frá þeim róðrum sem eftirlitsmennirnir fóru í sé ekki gallalaus því aðstæður geti verið mismunandi í tíma og rúmi. Best væri ef sjómennirnir sjálfir skráðu allan meðafla í samræmi við lög og reglur, en svo lengi sem skráningu þeirra sé ábótavant sé eina raunhæfa leiðin að auka gagnasöfnun, t.d. með auknu eftirliti eða upptöku öryggismyndavéla. Hvort tveggja sé hins vegar mjög kostnaðarsamt.

Neikvæð áhrif á markaðssetningu

En hvaða áhrif hefur afturköllun MSC vottunarinnar á markaðs­setningu grásleppuhrogna frá Íslandi? Örn Pálsson segir að hún gæti leitt til þess að erfiðlega gangi að selja til mikilvægra markaðslanda,  svo sem Svíþjóðar, Þýskalands og jafnvel Danmerkur, en tæpur helmingur hrognanna hefur farið til þessara landa. Á síðasta ári nam grásleppuhrognaframleiðslan á Íslandi 8.600 tunnum. Útflutningsverðmæti þeirra nam 1,8 milljörðum króna. Helmingur hrognanna er unninn í kavíar í tveimur verksmiðjum hérlendis (hjá Vigni Jónssyni á Akranesi og hjá ORA) en hinn helmingurinn fer óunninn til vinnslu erlendis. Að auki er grásleppan sjálf fryst án hrogna og seld til Kína, en henni var áður fleygt að undanskildu því takmarkaða magni sem verkað hefur verið fyrir þá sem sólgnir eru í signa grásleppu.

Milljarða verðmæti

Samkvæmt upplýsingum Lands­sambands smábátaeigenda starfa hátt í 800 manns við veiðar og vinnslu á grásleppu hérlendis. Eins og áður kom fram hefur þátttaka í veiðunum og aflinn farið minnkandi í takt við markaðsástandið. Meðalafrakstur af grásleppuveiðum síðustu tíu ára er 10–11 þúsund tunnur af hrognum sem er vel innan þeirra marka sem Hafrannsóknastofnun telur ráðlegt að veiða. Mest hefur útflutningsverðmæti hrognanna á einu ári farið í 3 milljarða króna en þá fór saman metveiði, hagstætt verð og gengi.

Nú er svo komið að Íslendingar og Grænlendingar veiða um 95% af allri grásleppu í Norður-Atlantshafi. Afrakstur hvorrar þjóðar var 8.600 tunnur í fyrra. Sjómenn á Nýfundnalandi, sem áður voru mjög umsvifamiklir í þessum veiðum, veiða nánast ekkert lengur. Norðmenn hafa líka stórlega dregið úr veiðum og það sem Danir og Svíar veiða er mest selt ferskt til neytenda.

Lífsstíll frekar en lífsviðurværi

En hvar við landið er grásleppan aðallega veidd og hverjir veiða hana? Grásleppan er dyntóttur fiskur og því getur verið æði sveiflukennt milli ára hvar best veiðist. Almennt má segja að veiðin hafi verið einna tryggust í innanverðum Breiðafirði, úti af Ströndum og úti af Norðausturlandi en ágætisveiði getur líka verið annars staðar eins og við Suðvesturland. Grásleppukarlar nú til dags eru að stærstum hluta sjómenn sem einnig stunda aðrar fiskveiðar en þó eru líka allmargir sem eru eingöngu á grásleppu og stunda síðan aðra vinnu í landi. Í þeim hópi eru bændur við Breiðafjörð.

Ljóst er að grásleppuveiðar eru áhættusamur veiðiskapur. Þegar vel gengur er hægt að hafa gott upp úr sér en þegar illa gengur hafa menn ekkert nema puðið upp úr krafsinu og jafnvel hreint tap. Því er ekki að undra að margir grásleppukarlar lýsa því svo að veiðarnar séu frekar lífsstíll en lífsviðurværi. Vonandi er að nýjustu hremmingar grásleppukarla, afturköllun á vottun veiðanna, dragi ekki máttinn úr þessari atvinnugrein meira en orðið er. 

Skylt efni: Fiskveiðar | Grásleppa

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...