Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Kosið til stjórnar á aðalfundi Landssamtaka skógareigenda.
Kosið til stjórnar á aðalfundi Landssamtaka skógareigenda.
Mynd / Hlynur Gauti
Fréttir 30. október 2019

Gríðarleg ásókn í meiri skógrækt meðal skógarbænda

Höfundur: smh
Landssamtök skógareigenda (LSE) héldu aðalfund sinn 11. október á Hótel Kjarnalundi. Á fundinum kom fram að innan aðildarfélaganna fimm sé mikill uppgangur og skógarbændum fer ört fjölgandi. Jóhann Gísli Jóhannsson frá Félagi skógarbænda á Austurlandi var endurkjörinn formaður.
 
Aðalfundurinn var sá tuttugasti og annar í sögu LSE og hófst með erindi formanns um það markverðasta á starfsárinu, en þar þótti vel heppnuð landbúnaðarsýning standa upp úr sem haldin var fyrir um ári síðan. 
 
Innan vébanda LSE eru eftirfarandi félög: Félag skógar­eigenda á Suðurlandi (FSS), Félag skógarbænda á Vesturlandi (FSV), Félag skógarbænda á Vestfjörðum (FSVfj.), Félag skógarbænda á Norðurlandi (FSN) og Félag skógarbænda á Austurlandi (FSA). 
 
Nýja stjórn skipa félagar úr öllum aðildarfélögunum. Auk Jóhanns eru þar þau Sigrún Hrönn Þorsteinsdóttir (FSN), sem nú er varaformaður en var áður gjaldkeri, Guðmundur Rúnar Vífilsson (FSV) er gjaldkeri, Björn B. Jónsson (FSS) ritari og Naomi Bos (FSVfj.) meðstjórnandi.
Góður hugur í formönnunum
 
Að sögn Hlyns Gauta Sigurðssonar, framkvæmdastjóra LSE, var greini­lega góður hugur meðal for­manna aðildarfélaganna. „Aðsókn í félögin er með góðu móti og mikið er lagt upp úr félagsstarfi. Samstaða félags­manna er mikil og fjölmenna skógarbændur á viðburði sem félögin halda vítt um landshlutana. Jafnvel á Vestfjörðum, en þar má segja að sundrungin sameini skógarbændur, því stundum er langt á milli staða. Skógarbændur gera sér grein fyrir þeim verðmætum sem vaxa í skógum þeirra og fjallað var á fundinum um nýtingaráætlanir, tryggingar og mikilvægi góðs upplýsingaflæðis og fræðslu fyrir bændur og almenning. Girðingar og taxtamál báru einnig á góma en það er ekkert nýtt,“ segir Hlynur.
 
Stjórnvöld þurfa að mæta ásókninni í skógrækt
 
Að sögn Hlyns sköpuðust líflegar umræður meðal gesta á fundinum, til dæmis um nauðsyn þess að stjórnvöld mæti ásókn skógarbænda í skógrækt í aðgerðum sínum.  „Skógarbændur eru nú þegar tilbúnir með um átján þúsund hektara lands til ræktunar – sem búið er að semja við Skógræktina um og kortleggja. Í það land væri hægt að gróðursetja um 30 milljónum plantna. Gróðrarstöðvar landsins anna framleiðslu á um fimm milljón skógarplantna á ári eins og sakir standa. Tæpur helmingur þeirra fer í bændaskógrækt. Ásókn í skógrækt er gífurleg og að jafnaði er samþykktur einn skógræktarsamningur í viku hverri hjá Skógræktinni. Aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum eru ekki í takti við þessa ásókn, ekki enn að minnsta kosti. Bændur sjá tækifæri í skógrækt enda eru tré árangursríkasta leiðin til kolefnisbindingar. Auk þess skapast aðrar tekjur af skógrækt með tilheyrandi gjaldeyrissparnaði fyrir íslenska þjóð.“
 
Hlynur segir að ellefu tillögur hafi fengið afgreiðslu fundarins og flestar þeirra hafi snúið að hagnýtum málum nytjaskógræktar. 
 
Ein þeirra snýr að jólatrjáaræktun, en hana vilja skógarbændur efla til að minnka innflutning. Þannig megi sporna við smithættum fyrir skóga landsins, auka gjaldeyrissparnað og minnka kolefnisfótsporin sem innflutt tré hafa í för með sér. 
 
Í tillögu um aðgengi, umhirðu og nýtingaráætlun er lögð áhersla á slóðagerð og að grisjun sé sinnt betur. Verðmæti skógarins liggi í viðnum og verðmætaaukningin liggi í umhirðunni. Nýtingaráætlun þarf að vera til staðar svo hægt sé að meta hvaða verðmæti skógurinn hefur að geyma og hvenær sé best að nytja hann. 
 
Ætti að vera hægt að bókfæra kolefnisbindingu
 
Í tillögu um tekjur af skógrækt er kveðið á um þörf fyrir endurskoðun á gjaldtöku við gróðursetningu. Skógarbændur hafi lagt land til nytjaskógræktar en þeir bindi einnig kolefni sem sumum þykir eftirsóknarvert að bókfæra. Bindingin í skóginum gegnir miklu í kolefnisbókhaldi þjóðarinnar og mætti því ætla að landið sem hann stendur á sé í útleigu bóndans. Það ætti því að vera eðlilegt að bóndinn fengi einhvers konar greiðslu eða afslátt á kolefnislosun búreksturs síns fyrir vikið.
 
Sveitarfélögin í landinu veita leyfi til skógræktar hverju sinni. Ein tillaga fundarins gengur út á að finna þurfi leið til að afgreiðsla þeirra gangi greiðlega þegar kemur að þessum leyfisveitingum. 
Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...