Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Fréttir 27. nóvember 2019
Gríðarleg fækkun skordýra á liðnum áratugum gæti valdið hruni vistkerfa
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Notkun skordýraeiturs auk gróðureyðingarefna, áburðar og annarra hjálparefna i landbúnaði eykst stöðugt í beinu samhengi við markaðssókn risafyrirtækjanna í efnaiðnaðinum. Samkvæmt spám um vöxt í notkun skordýraeiturs (insecticides) á árunum 2019–2024, þá er árlegur vöxtur í notkun efnanna (CAGR) talinn verða um 5,1%.
Í umfjöllun á markaðsmiðlinum Mordor Intelligence er farið yfir stöðuna. Þar kemur fram að helstu efnafyrirtækin sem slást um eiturefnasöluna eru Sygenta, Bayer CorpScience, BASF, FMC, ADMA og UPL. Þessi stórfyrirtæki skiptu á milli sín sölu á skordýraeitri fyrir 14,63 milljarða dollara á árinu 2018.
Sagt er að útilokað sé að halda í við stöðugt aukna eftirspurn eftir matvælum, blómum og lífmassa, m.a. til dýraeldis og eldsneytisframleiðslu, öðruvísi en með stöðugri aukningu á notkun eiturefna. Þetta er þegar farið að hafa gríðarleg áhrif á umhverfið og víða er jarðvegur orðinn svo mengaður að í honum þrífast engin önnur kvikindi en þau sem hafa myndað ónæmi fyrir eitrinu. Þetta sýna nýlegar rannsóknir eins og frá Tækniháskólanum í München sem sýnir verulega fækkun í skordýrastofnum í Þýskalandi, bæði á ræktarlandi og í skógum og í friðlandi. Víða hefur skordýrum fækkað um þriðjung og á sumum svæðum um allt að 70%.
Svo virðist sem jarðvegur sé víða að komast að þolmörkum og næsta stig sé líffræðilegt hrun jarðvegsins sem verður þá ónothæfur til ræktunar. Þar spila líka fleiri þættir inn í en eiturefnanotkun. Er m.a. bent á mikla ofnotkun tilbúins áburðar sem ógni líffræðilegu jafnvægi. Þá hefur einnig verið bent á möguleg áhrif af stóraukinni notkun á örbylgjum og öðrum rafbylgjum í farsímum og öðrum fjarskiptabúnaði nútímans.
Býflugur gegna mikilvægu hlutverki við að bera frjókorn á milli plantna.
Ef býflugurnar hverfa glatast stór hluti af fæðu manna
Hunangsflugur eru taldar halda uppi viðgangi í ræktun á um þriðjungi allra nytjategunda í heiminum. Þar er einna helst um að ræða ávaxtarækt, grænmetisrækt og möndlurækt. Fyrirtæki í örverurannsóknum hafa verið að reyna að þróa fræ sem inniheldur efni sem gerir býflugur ónæmar fyrir sumum banvænum sjúkdómum og eiturefnum. Bæði skordýraeitur og gróðureyðingarefni innihalda efnasambönd sem lama taugakerfi skordýra og í sumum tilvikum voru þau upphaflega hönnuð til að lama taugakerfi manna í hernaði. Eitrið veldur því að flugurnar missa m.a. hæfileikann til að rata heim á búið sitt að sögn líffræðingsins David Goulson.Var það niðurstaða rannsóknar sem gerð var við Stirling háskólann í Skotlandi.
Ef býflugurnar hverfa deyr mannkynið
Ekki ómerkilegri maður en Albert Einstein setti fram kenningu um býflugur. Hefur oft verið vitnað í spádómsorð hans í því sambandi, en hann á að hafa sagt:
Ef býflugurnar hverfa af yfirborði þessa hnattar, þá mun maðurinn aðeins eiga fjögur ár eftir ólifuð. Engar býflugur, engin frjóvgun, engar plöntur, engin dýr, engir menn, eða:
„If the bee disappeared off the surface of the globe, then man would have only four years of life left. No more bees, no more pollination, no more plants, no more animals, no more man.“
40% af býflugnasamfélögum í Bandaríkjunum hurfu 2018
Í ágústmánuði síðastliðnum var umfjöllun í Business Insider um skordýradauða. Þar sagði í fyrirsögn:
„40% af býflugnasamfélögum í Bandaríkjunum hurfu á síðasta ári. Svona gæti jörðin litið út ef býflugurnar hverfa með öllu.“
Þar segir líka að býflugum sé stöðugt að fækka ört um allan heim og að jarðarbúar standi frammi fyrir þeirri hættu að vera búnir að drepa öll skordýr á jörðinni eftir 100 ár. Án býflugna sem hafa séð um að frjóvga blóm ávaxtatrjáa og annarra jurta verði mjög erfitt að stunda ræktun.
„Hrunröskun samfélaga“
Talað er um að þessi mikli flugnadauði í býflugnasamfélögum sé hluti af fyrirbæri sem vísindamenn hafi ekki fullan skilning á og sem kalla mætti „hrunröskun samfélaga“ eða „colony collapse disorder“. Orsökina telja sumir m.a. að leita í útbreiðslu vírusa sem maurar bera með sér.
Það er þó ekki bara býflugunum í Bandaríkjunum sem fækkar um 40%, heldur segir að fækkun hafi líka verið í 40% af skordýrastofnum heimsins. Vísað er til rannsóknar sem birt var í febrúar 2019, m.a. á vefsíðu Science Direct. Þar segir að vöktun á skordýrum í Þýskalandi yfir 27 ára tímabil hafi leitt í ljós skelfilegar niðurstöður. Fljúgandi skordýrum hafi fækkað um 76% á mörgum verndarsvæðum í Þýskalandi. Þetta samsvari því að 2,8% af lífmassa skordýra hafi tapast á hverju ári. Þá segir enn fremur í þessari rannsókn að það sé jafnvel enn skelfilegra að þessi þróun hafi staðið yfir í nær 30 ár.
78–98% af skordýralífmassa skóga á Púertó Ríkó sagður hafa horfið á 36 árum
Vísað er til enn nýrri niðurstaðna rannsóknar sem gerð var í regnskógum Púertó Ríkó og nær yfir 36 ára tímabil. Þar kemur fram að tap á lífmassa skordýra bæði í gróðurþekju skógarins og í skógarbotni nemi á bilinu 78–98% á 36 árum. Það þýðir að lífmassi minnkar og að skordýrum og lindýrum hafi fækkað um 2,2–2,7% á hverju einasta ári.
Fækkun skordýra og lindýra veldur dauða annarra tegunda eins og fugla
Vísindamennirnir telja að fækkun skordýra í gróðurþekju skóganna samsvari vel breytingum sem orðið hafi á loftslagi. Fleiri þættir spili þar líka inn í eins og skógarhögg, þar sem skógur er ruddur til ræktunar. Einnig er bent á að fækkun skordýra og lindýra hafi mikil áhrif á æðri dýr í skóginum. Þetta kunni að koma af stað keðjuverkandi hruni heilu vistkerfanna. Samsvarandi niðurstöður hafa fengist úr rannsóknum í mörgum löndum, eins og Bandaríkjunum, Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi.
Vísað er í fjölmargar rannsóknir sem allar gefa sömu vísbendingar, eins og Fuller et al., 1995; Tilman et al., 2001, Newton, 2004; Thomas et al., 2004, Collen et al., 2008, Shortall et al., 2009, Mineau and Whiteside, 2013, Hallmann et al., 2017, Lister andGarcia, 2018 og mikinn fjölda annarra rannsókna.
Notkun eiturefna frá efnafyrirtækjunum Bayer og Monsanto mótmælt í Þýskalandi.
Plágum fjölgar þrátt fyrir aukna eiturefnanotkun
Í yfirliti Mordor Intelligence kemur einmitt fram að plágum af ýmsum toga sem herja á ræktun nytjajurta fari fjölgandi um allan heim þrátt fyrir alla eiturefnanotkunina. Er það m.a. skýrt með því að fjölgun hafi verið í skordýrastofnum sem hafa áunnið sér þol gegn eiturefnunum sem og „illgresi“. Lífverur sem ofar sitja í fæðukeðjunni eins og fuglar eru ekki svo fljótar að bregðast við breyttum aðstæðum og eitrið í skordýrunum einfaldlega drepur þær. Þetta hefur m.a. komið fram í rannsóknum í Frakklandi.
Bent er á í Mordor Intelligence að vissulega sé hægt að hafa stjórn á fjölgun skordýra með eitri upp að vissu marki. Með tímanum aðlagist skordýrin þó breyttum aðstæðum og plágurnar gjósi upp aftur. Því dugi hefðbundin eiturefni ekki lengur og stöðugt þurfi því að framleiða sterkari eiturefni til að ráða við „vandamálið“. Það sem líka gerist við notkun slíkra efna er að smádýr sem lifa á skordýrunum í eðlilegu umhverfi drepist líka.
Vistvænar varnir í andstöðu við hagsmuni efnaframleiðenda
Til að bregðast við þessum vanda hafa sumir vísindamenn reynt að vekja athygli á notkun náttúrulegra varna til að verka uppskeru. Slíkar ráðleggingar ganga hins vegar þvert á peningahagsmuni efnafyrirtækjanna. Hafa þau því óspart beitt lögsóknum með ómælt aðgengi að peningum að vopni til að kveða niður andstöðu við eiturefnanotkunina. Einna þekktust eru mál er tengjast notkun á efnum sem innihalda virka efnið glyfosat. Þar hefur verið beitt orðum fjölda þekktra vísindamanna gegn efasemdarfólki sem hafa fullyrt að glyfosat sé skaðlaust mannfólki þótt sannanir hafi veri lagðar fram um annað. Bændablaðið hefur heldur ekki farið varhluta af slíkum rökfærslum vísindamanna á undanförnum árum, þar sem reynt hefur verið að kveða niður gagnrýni á eiturefnanotkun í blaðinu.
Risafyrirtækið Monsanto hefur m.a. tapað dómsmálum í Bandaríkjunum er varða notkun á efnum sem innihalda glyfosat, en Monsanto er nú komið í eigu þýska efnarisans Bayer. Þar sem almenningsálitið var farið að snúast hressilega gegn Monsanto og eiturefnum frá fyrirtækinu eins og Roundup, þá skipti Bayer einfaldlega um umbúðir til að villa um fyrir neytendum.