Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Sígilda útgáfa hins breska „fish and chips“ er með salti og ediki og hér eru umbúðirnar utan um þá útgáfu Rúnars og hans framleiðslu.
Sígilda útgáfa hins breska „fish and chips“ er með salti og ediki og hér eru umbúðirnar utan um þá útgáfu Rúnars og hans framleiðslu.
Mynd / Úr einkasafni
Fréttir 19. maí 2020

Harðfiskur og kartöfluflögur

Höfundur: smh
Á undanförnum árum hefur verið unnið að hugmynd að íslensku nasli með íslensku hráefni, sem innblásið er af hinum breska þjóðarrétti „fish and chips“. Íslenska útgáfan er hins vegar ekki djúpsteiktur fiskur og franskar kartöflur, heldur harðfiskur og kartöfluflögur. Stefnt er á alþjóðlega markaðssetningu á næstu vikum.
 
Rúnar Ómarsson.
Rúnar Ómarsson er frumkvöðullinn sem stendur að þessu verkefni og hefur gengið með hugmyndina í maganum í nokkur ár. „Hann hefur verið frekar langur, fer aðeins eftir hvernig á það er litið. Ég fékk fyrst áhuga á markaðssetningu á sjávarafurðum þegar ég var um tvítugt, en þá var ég á frystitogara um sumarið og las bækur um markaðssetningu á frívöktum,“ segir hann spurður um aðdragandann að verkefninu. 
 
Viðurkenning á Sjávarútvegsráðstefnunni 2017
 
„Vinur minn flutti til Þýskalands skömmu síðar og hóf störf við sölu á ferskum fiski frá Íslandi. Við ræddum nokkuð oft um hversu spennandi það væri að búa til alþjóðlegar neytendavörur úr íslenskum sjávarafurðum, en í stað þess að fara í þá vegferð þá stofnuðum við ásamt fleirum fyrirtækið Nikita Clothing, árið 2000, og byggðum upp alþjóðlegt vörumerki og fyrirtæki sem við enduðum svo á að selja úr landi árið 2011. 
 
Við ræddum það reglulega hvað íslenskar sjávarafurðir væru spennandi og það kitlaði mig að búa til verðmæti þar, þegar að því kæmi. Ég fékk svo hugmyndina að „Fish and chips“ sem snakki eða skyndimáltíð árið 2016, fékk viðurkenningu fyrir hugmyndina á Sjávarútvegsráðstefnunni árið 2017, og hef verið að þróa hugmyndina, vöruna og markaðssetninguna síðan,“ segir Rúnar.
 
Íslenskt hráefni og framleiðsla á Íslandi
 
Að sögn Rúnars er hráefnið íslenskt og fer framleiðslan fram á Íslandi. „Varan verður unnin í samstarfi við öflugan harðfiskframleiðanda annars vegar og kartöfluflöguframleiðanda hins vegar. Fiskurinn er frostþurrkaður þorskur, bitafiskur. Kannski verður boðið upp á ýsu líka þegar fram í sækir. Harðfiskurinn er súper-fæði, það vita Íslendingar. Hann inniheldur steinefni, vítamín og Omega-3 fitusýrur en auðvitað er það staðreyndin að hann er 84 prósent prótein sem gerir hann eftirsóknarverðan í svona skyndimáltíð. Kartöflurnar gefa svo kolvetni á móti fisknum, auk þess að vera ágætis vítamínuppspretta. Fiskur og kartöflur er einfaldlega frábær máltíð – og það að geta sett saman svona mikla næringu, heila máltíð, sem vigtar aðeins 100 grömm er kjörið fyrir svo marga á ólíkum forsendum.“
 
Til að byrja með verður boðið upp á tvær útgáfur af Fish and chips; annars vegar salti og pipar og hins vegar salti og ediki – sem er hin sígilda útgáfa bresku útgáfunnar. Meira verður af kartöfluflögunum í pokanum en harðfiskbitum, að sögn Rúnars, af tveimur ástæðum. „Hlutfallið af fisk á móti kartöflum ræðst annars vegar af hæfilegu próteininnihaldi máltíðar fyrir fullorðinn einstakling og svo hins vegar verðinu. Það þarf 160 grömm af fiskflökum til að framleiða þau 30 grömm af þurrkuðum fiski sem eru í hverjum poka, á móti 70 grömmum af kartöfluflögum. Það er álíka magn af fiski og er í venjulegum „fish and chips“ skammti í Bretlandi og víðar – og hæfilega mikið prótein í máltíð. 
 
Ráðlagt smásöluverð miðað við gengið í dag verður 3.90 bresk pund, eða 4,50 evrur og USD. Það útleggst á 690 krónur á Íslandi.“
 
Hefur sjálfur fjármagnað verkefnið hingað til
 
„Ég hef fjármagnað verkefnið sjálfur hingað til, án styrkja eða fjárfesta. Það þarf að breytast fljótlega. Ég vinn fyrir mér, og fyrirtækinu, sem ráðgjafi í uppbyggingu fyrirtækja, vöruþróun, markaðssetningu og fleira, en á sumrin hef ég jafnframt starfað sem fjallahjólari fyrir Icebike Adventures. Þar hef ég haft tækifæri til að bjóða erlendum gestum að smakka vöruna sem ég hef verið að þróa, fólki alls staðar að úr heiminum. Það hefur verið gaman að sjá viðbrögðin og frábært sem hluti af vöruþróunarferlinu. Í sumar verður Icebike Adventures reyndar í fyrsta skipti með áherslu á fjallahjólaferðir fyrir Íslendinga, og að sjálfsögðu verður hægt að smakka snakkið mitt þar. Það verður gaman að sjá viðbrögð heimamanna.“
 
Áhersla á útflutning 
 
„Varan kemur í sölu í núverandi mynd á næstu vikum. Áherslan verður á útflutning, enda held ég að ég sé ekki að fara að kenna Íslendingum að borða harðfisk,“ segir Rúnar um það hvort varan muni líka fást á Íslandi. „Ekki að ég útiloki að varan muni fást hér, heimamarkaði verður auðvitað sinnt líka, en umbúðirnar, samsetning vörunnar, bragðtegundirnar og hugmyndin í heild er hugsuð fyrir alþjóðlega markaðssetningu. „Fish and chips“ er ein þekktasta máltíð í heimi. Bara í Bretlandi eru snæddar um 300 milljón slíkar máltíðir á ári, að verðmæti sem nemur heildarútflutningi allra sjávarafurða frá Íslandi á ársgrundvelli. 
 
„Fish and chips“ er jafnframt mjög vinsæl máltíð í Asíu, Bandaríkjunum og víðar, og markaðs­kannanir, sem Seafish og fleiri aðilar hafa gert, sýna að tugir milljóna neytenda hafa áhuga á að smakka hollari útgáfu af þessum geysivinsæla rétti. 
 
Kartöfluflögur eru mest selda snakk í heimi. Þurrkaður fiskur er besti náttúrulegi próteingjafinn til að snæða með slíku snakki. Þessi skyndimáltíð á því erindi á heimsmarkað að mínu mati. Þótt markaðssetning sé í raun ekki hafin hafa dreifingaraðilar frá nokkrum löndum haft samband, til dæmis frá Bretlandi, Brasilíu og reyndar Suður-Ameríku í heild, Þýskalandi og Taívan. Við erum á fullu að undirbúa framleiðslu til að mæta þessum áhuga, sem ég er ekki í vafa um að mun aukast þegar alþjóðleg markaðssetning fer af stað.“