Heimsmarkaðsverð á korni hækkar
Verð á korni og mjólkurvörum á heimsmarkaði hækkaði lítillega í febrúar síðastliðnum en verð á jurtaolíu er enn lágt. Verðhækkun á korni ræðst af spám um minni uppskeru á þessu ári en því síðasta vegna óhagstæðra veðurskilyrða.
Verð á kjöti stóð nánast í stað milli mánaða að því undanskildu að verð á fuglakjöti féll fjórða mánuðinn í röð. Verð á jurtaolíu hefur haldið áfram að falla og er núna það lægsta í 19 mánuði. Pálmaolía féll mest og er verðlækkunin rakin til aukinnar birgðasöfnunar í Malasíu og Indónesíu.
Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu FAO er verð á sykri það lægsta í tvö ár vegna aukinnar framleiðslu á sykurrófum.