Helmingur norskra bænda sleppir öryggisbeltum í traktorum
Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir
Ný könnun sem greiningarfyrirtækið Agri analyse vann fyrir Landbúnaðartryggingar í Noregi sýnir að einungis 19% bænda nota alltaf öryggisbelti þegar þeir keyra um á traktorum sínum.
Niðurstöðurnar valda mönnum áhyggjum þar sem ökumaður traktors er í jafnmikilli hættu eins og aðrir bílstjórar á vegum úti og því skynsamlegt að nota þar til gerðan öryggisbúnað.
Í könnuninni segja 29% svarenda að þeir noti oftast belti á meðan 23% svarenda segjast aldrei nota öryggisbelti þegar þeir keyri traktora sína.
Það eru ekki í gildi lög í landinu sem kveða á um að ökumenn traktora skuli ávallt vera spenntir undir stýri eins á við um aðra ökumenn. Í sumum tegundum nýrra traktora er búið að koma fyrir svokölluðum fastspenntum búnaði sem á að nota þegar það er sýnileg hætta á veltu. Skýrsla sem Rannsóknarstofnun byggðamála í Noregi sendi nýverið frá sér sýnir að traktor er það tæki sem oftast er hægt að tengja við óhöpp og slys á bóndabæjum en um 14% af slysum tengjast traktorum beint. Á árunum 2011–2013 hafa níu af sautján banaslysum í landbúnaði tengst notkun á traktorum.