Hetja undirdjúpanna lætur til sín taka í umhverfismálum
Veganismi, eða að vera hliðhollur helst öllu því sem lifir og andar og forðast neyslu þess hvort sem um ræðir til matar, fataframleiðslu eða annars, er stefna sem ryður sér reglulega til rúms.
Gaman er að segja frá því að í Lögréttu, árið 1912, birtist dálkur er sagt er frá hugmyndum prófessorsins þekkta, Ilya Ilyich Mechnikov, sem var þekktur fyrir að leggja áherslu á neyslu jurtafæðis og góðgerla.
Hér er gripið inn í dálkinn; „... menn geti aukið mjög aldur sinn með því að breyta um fæðu, jeta minna en gerist og því nær eingöngu jurtafæði og mjólkurmat, finna ráð til vörnunar allri rotnun í þörmunum og neita sjer um neytslu skaðvænna efna, áfengis, tóbaks o. s. frv. Til þess að eyða rotnun í þörmunum hefur Mechnikov fundið upp gerla, er hann lætur menn jeta og eiga að drepa þar rotnunargerlana. Kenning hans er, að líkaminn slitni fyrir tímann af skaðvænum efnum, sem myndast úr fæðunni í meltingarfærunum ...“
Vegan fatnaður
Vegan fatnaður er hins vegar mögulega nýstárlegra fyrirbæri. Þá er fatnaðurinn að mestu unninn úr bómull, hampi, bambusi, sjávargróðri eða þvíumlíku … leðurvörur úr t.d. kaktus og eplum … og mættu í raun hönnuðir fá mikið lof fyrir tilraunir sínar við klæðisgerð. Sífellt fleiri taka nú þátt í þessari umhverfisvænu stefnu og eru þekktar manneskjur, leikarar, áhrifavaldar eða aðrir oft fengnir til að taka þátt í hönnunarferli fataframleiðenda, enda vekur það jafnan áhuga hinna neyslumeiri.
Strigaskór
Fyrir nokkru tók leikarinn havaíski, Jason Momoa, helst þekktur í hlutverki Aquamanns – hetju undirdjúpanna – þátt í hönnun skófatnaðar í samstarfi við útivistarvörufyrirtækið So iLL. Strigaskórnir, framleiddir í takmörkuðu upplagi eru gerðir úr þörungum eins og fleiri fyrirtæki hafa tekið upp á, en skórnir eru hluti af vörum undir merkinu On The Roam, sem leikarinn frísklegi og So iLL hafa staðið fyrir.
Vísindaleg hönnun BLOOM
Þeim innan handar var fyrirtækið BLOOM, stofnað árið 2007 af vísindamanninum Ryan Hunt, sem sérhæfir sig í nýtingu þörunga við vinnslu sjálfbærs efnis. Umframvöxtur þörunga er oft skaðlegur nærliggjandi vistkerfi þeirra vegna lækkunar súrefnismagns í vatni og hindrunar sólarljóss og því upplagt að nýta þá í strigaskó. Froða sem gerð er úr þörungum er nýtt í innleggssóla strigaskónna sem eru að sjálfsögðu sjálfbærir og býður hönnun Jason Momoa upp á lífræna bómull og kork í bland enda brotna skórnir auðveldlega niður eftir lífaldur sinn. Ytri gúmmísóla hefur einnig verið breytt til þess að flýta fyrir niðurbrotsferli en skórnir fást á vefsíðu So iLL fyrir um 15 þ. krónur.
Mikilvægi endurvinnslu
Hetja undirdjúpanna stendur þó ekki einungis fyrir lífrænt ræktuðum strigaskóm. Hann er talsmaður mikilvægi endurvinnslu og árið 2019 stofnaði hann fyrirtækið Mananalau þar sem ferskvatni er tappað á álflöskur sem eru gerðar úr 69% endurunnu áli. (Mana þýðir hinn heilagi andi lífsins og Nalu þýðir öflug bylgja sjávarins.)
Fyrir hverja selda flösku státar fyrirtækið sig af því að fjarlægja í staðinn sem samsvarar einni plastflösku sjávarúrgangs.
Á vefsíðu Mananalau má einnig finna upplýsingar þess efnis að um 9% af öllu því plasti er til er í heiminum hefur verið endurunnið á meðan að 75% áls er enn notað í dag frá upphafi. Enda ódýrara að framleiða nýtt plast heldur en að endurvinna það.
Að auki er leikarinn virkur þátttakandi í mótmælum heimalands síns, Havaí, þar sem mótmæli standa yfir gegn byggingu þrjátíu metra sjónauka á heilögu landi innfæddra, á fjallinu Mauna Kea.