Hrútadagurinn 7. október
Hinn árlegi Hrútadagur á Raufarhöfn verður haldinn laugardaginn 7. október.
Fyrir mörg hefur Hrútadagurinn á Raufarhöfn orðið ómissandi hluti af haustinu. Á það bæði við um íbúa svæðisins, en einnig eru dæmi um fólk, sem gerir sér gjarnan ferð landshorna á milli til að skoða hrútakostinn, sýna sig og sjá aðra.
Yfir daginn munu bændur í Norðausturhólfi bjóða lífhrúta til sölu í reiðhöllinni en þar geta góðir hrútar endað á uppboði í lok dags. Eftir að hrútasýningunni lýkur verður boðið upp á fjölbreytta skemmtidagskrá í reiðhöllinni.
Um kvöldið verða svo haldnir tónleikar með Einari Ágúst og Bergsveini Arilíussyni ásamt hljómsveit.
„Þetta er í átjánda skiptið, sem við höldum Hrútadaginn en þá kemur fólk saman, bændur og aðrir, og fagna haustinu í góðri stemningu hér á Raufarhöfn. Árlegir hápunktar verða á sínum stað líkt og fegurðarsamkeppni gimbra, þar sem krakkar á svæðinu mæta með sína fulltrúa, og keppni um „Búvísbikarinn“, en hann hlýtur eigandi besta lambhrútsins eftir hrútauppröðun.
Hin listagóða kjötsúpa verður á sínum stað og fulltrúar stórra og smárra fyrirtækja af svæðinu mæta með vörur sínar til sölu og kynningar,“ segir Ingibjörg Hanna Sigurðardóttir, sem er ein af þeim, sem er í forsvari fyrir Hrútadaginn.