Hrútadagurinn haldinn í 10. sinn á Raufarhöfn
Hrútadagurinn verður haldinn í tíunda sinn laugardaginn 1. október næstkomandi á Raufarhöfn. Sérstök hrútadagsnefnd er þegar komin á fullt við undirbúning dagsins, en í henni eru Raufarhafnarbúar sem og ungir bændur úr nágrannasveitum þorpsins.
Raufarhöfn er í Norður- Þingeyjarsýslu sem er hreint svæði og má því ekki flytja fé inn á svæðið. Hins vegar hefur sala lífgimbra og hrúta verið nokkuð sterk af svæðinu enda mikið kapp lagt á flotta hrúta. Hrútadagurinn er hugsaður sem eins konar uppskeruhátíð bænda, þeim og búaliði er hóað saman og verslað með hrúta. Í ár verður Logi Bergmann kynnir og skemmtanastjóri enda þaulvanur sveitinni.
Á staðnum verða alls konar uppákomur og allar í sveitaþema. Ull metin og spunnin, þuklað á hrútunum og keppt í stígvélakasti en það ku aðeins vera fyrir þaulvana stígvélasérfræðinga. Þá verður einnig kvöldskemmtun með afar orðheppnum hagyrðingum og almennri gleði.
Þeir sem vilja fylgjast með dagskránni er bent á facebook.com/hrutadagurinn eða raufarhofn.is, þá er einnig hægt að fá upplýsingar í netfanginu hrutadagurinn@gmail.com. Eins má hringja í einhvern af hinum hressu nefndarmeðlimum.