Hvað er risafyrirtæki?
„Það er torskiljanlegt að þeir aðilar sem berjast hvað harðast gegn undanþáguheimildum fyrir íslenskan landbúnað eru oft þeir sömu og tala fyrir inngöngu í ESB, þar sem mun víðtækari undanþáguheimildir frá samkeppnisreglum gilda en hér á landi,“ segir Herdís Magna Gunnarsdóttir, varaformaður Bændasamtaka Íslands.
Í aðsendri grein fer hún yfir regluverk undanþáguheimilda afurðastöðva hérlendis og erlendis.
Undanþága á borð við þá sem íslenskar afurðastöðvar í mjólkuriðnaði hafa hér á landi er að finna víða um heim. Herdís nefnir að í Noregi og innan ESB séu víðtækar undanþágur fyrir framleiðendur landbúnaðarvara og að í báðum tilfellum sé lögð megináhersla á starfsemi stórra rekstrareininga.
Mjólkurframleiðsla á Norðurlöndum lýtur svipuðu kerfi og hér þekkist. Eitt stórt fyrirtæki sér um söfnun og dreifingu mjólkur með frá 60-95% af allri framleiddri mjólk landsins undir. Stærðarhagkvæmnin er gífurleg í samanburði við Ísland.
„Til að átta okkur betur á stærðarmun mjólkurframleiðslu landanna þá framleiddu danskir kúabændur um 5,7 milljónir tonna af mjólk árið 2021 og sænskir kúabændur framleiddu um 2,7 milljónir tonna. Íslenskir kúabændur framleiddu um 153 þúsund tonn af mjólk sama ár,“ segir Herdís Magna.
Utan Evrópu er sömu sögu að segja. Í Bandaríkjunum starfrækja þrjú risafyrirtæki saman mjólkurvinnsluna MWC í Michiganríki. Verksmiðjan vinnur osta og mysuprótein úr um 1,3 milljörðum lítra af mjólk árlega, sem samsvarar magni um 9 ára framleiðslu mjólkur á Íslandi. Í verksmiðjunni eru framleidd yfir 130.000 tonn af osti og tæp 9.000 tonn af mysupróteinum á ári. Starfsmenn verksmiðjunnar eru um 260 talsins. Fyrirtækin þrjú sem eiga verksmiðjuna eru meðal stærstu mjólkurvinnslufyrirtækja í heimi; það stærsta Dairy Farmers of America, sem er með heimsmarkaðshlutdeild upp á 3,4%, Glanbia, sem er tólfta stærsta mjólkurvinnsla í heimi með um 0,9% heimsmarkaðshlutdeild og minnst þessara þriggja heitir Select Milk Producers og framleiðir úr 9,5 milljörðum lítra af mjólk á ári.
„Í umræðunni á fólk það til að kalla Mjólkursamsöluna RISA á markaði. (...) Mjólkursamsalan er í raun agnarsmátt peð í samanburði við stór mjólkurvinnslufyrirtæki landanna sem ég nefni,“ segir Herdís Magna enn fremur í grein sinni.
Hún varar því við þeim tillögum að afnema þá heimild sem afurðastöðvar í mjólkuriðnaði hafa til að starfa saman með það að markmiði að halda niðri framleiðslukostnaði.
Sjá nánar á bls. 52. í nýjasta tölublaði Bændablaðsins sem kom út í dag