Hvernig mæta garðyrkjubændur aukinni eftirspurn?
Nicholas Ian Robinson safnar nú saman upplýsingum frá garðyrkjubændum á Íslandi fyrir doktorsrannsókn sína sem ber heitið Landfræði íslenskrar garðyrkju.
Markmið rannsóknarinnar er að greina þá margvíslegu þætti sem móta íslenskan garðyrkjuiðnað, með það að markmiði að auka þekkingu á iðngreininni til handa garðyrkjubændum, stjórnvöldum og í þágu fræðasamfélagsins.
„Sjónum verður beint að þeim leiðum sem íslenskir garðyrkjubændur nýta til að mæta eftirspurn eftir auknum gæðum og aukinni fjölbreytni grænmetis- og ávaxtategunda á íslenskum markaði,“ segir Nicholas, sem er doktorsnemi í landfræði við Kaliforníuháskóla, Davis, en hann hefur verið búsettur hér á landi í áratug. Rannsóknin er einnig unnin í samstarfi við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands en Nicholas hefur verið gestarannsakandi við deildina frá árinu 2019.
Nicholas er jafnframt garðyrkjubóndi í Reykjalundi í Grímsnesi ásamt maka sínum, Áslaugu Einarsdóttur, mannfræðingi og framkvæmdastýru. Þar stunda þau bæði gróðurhúsaræktun og útiræktun á fjölbreyttum grænmetistegundum, bæði í tilraunaskyni og í markaðsskyni, og hafa selt afurðir sínar á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu með nýstárlegum markaðsaðferðum. Ásamt upplýsingum sem Nicholas safnar um þessar mundir frá íslenskum garðyrkjubændum munu ræktunartilraunirnar og markaðsaðferðirnar liggja til grundvallar rannsókn hans. Markmiðið er að greina hvernig best megi tryggja sjálfbærni í innlendri grænmetisframleiðslu, bæði í umhverfislegu og hagrænu tilliti.
Nýverið fór í loftið vefsíðan gardyrkjurannsokn.is, sem ætlað er að kynna rannsóknina fyrir garðyrkjubændum. Nicholas leggur áherslu á mikilvægi þess að sem flestir starfandi garðyrkjubændur sjái sér fært að taka þátt í rannsókninni svo að niðurstöður hennar gefi sem gleggsta mynd af iðngreininni og hvernig best megi styðja við greinina. Þátttakendum verður boðið að fylla út rafræna spurningakönnun og í framhaldinu mun Nicholas heimsækja nokkra þátttakendur og taka við þá viðtöl.
„Ég vil sjá hvaða aðferðir stuðla best að sjálfbærni íslenskra ræktunarvistkerfa, sjálfbærni dreifðra byggða og tryggri afkomu garðyrkjubænda og annarra starfsmanna iðngreinarinnar. Við erum mjög spennt að sjá afraksturinn og teljum að þetta gæti verið gott framlag til umræðu um framtíðarmöguleika íslenskrar garðyrkju og hvernig best megi styðja við grænmetisbændur,“ segir Nicholas.