Hvernig verður vindurinn beislaður?
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslags- ráðherra hefur skipað þriggja manna starfshóp sem á að skila tillögum til ríkisstjórnarinnar um fyrirkomulag við nýtingu vindorku.
Í starfshópnum sitja Hilmar Gunnlaugsson hrl., Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi ráðherra umhverfis- og auðlindamála og Kolbeinn Óttarsson Proppé, fyrrv. alþingismaður. Tillögum skal skilað til ráðherra fyrir 1. febrúar 2023. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðinu.
Samkvæmt Guðlaugi Þór ber okkur að nýta vindinn ef við ætlum að ná markmiðum okkar í loftslagsmálum. Jafnframt er nauðsynlegt að breið samstaða náist um það hvernig farið er í þá nýtingu. Guðlaugur vill ná fram „jafnvægi milli náttúruverndar og nýtingar“.
Nýting vindorku er sérstaklega nefnd í sáttmála ríkisstjórnarinnar og er stefnt að lagasetningu um þau málefni sem almenn sátt er á bakvið. Sér í lagi er nefnt að taka skuli tillit til sjónrænna áhrifa, dýralífs og náttúru. Einnig kemur fram að fyrirkomulag gjaldtöku skuli verða skilgreint í nýjum lögum.
Starfshópurinn mun vinna náið með Sambandi íslenskra sveitarfélaga ásamt öðrum hagsmunaaðilum, ráðuneytum og stofnunum eftir því sem við á.