Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Verðlaunahafar í Íslandsmeistaramóti í rúningi 2014, Hafliði Sævarsson, Fossárdal, Julio Cesar Gutierrez, Hávarsstöðum og Þórarinn Bjarki Benediktsson frá Breiðavaði.
Verðlaunahafar í Íslandsmeistaramóti í rúningi 2014, Hafliði Sævarsson, Fossárdal, Julio Cesar Gutierrez, Hávarsstöðum og Þórarinn Bjarki Benediktsson frá Breiðavaði.
Mynd / Alexandra Rut Jónsdóttir
Fréttir 20. janúar 2015

Hyggjast gera Íslandsmeistaramót í rúningi að alvöru landsmóti

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu (FSD) hefur staðið fyrir öflugu félagslífi og hefur Haustfagnaður FSD með hrútasýningum og tilheyrandi vakið athygli.  Stöðugt fleiri sækja þann viðburð. Einn  af forsprökkum í þeim félagsskap, Guðmundur Guðmundsson á  Kjarlaksvöllum í Saurbæjarhreppi, segir að nú séu hugmyndir uppi um að efla þennan viðburð enn frekar. 
„Okkur langar til að útvíkka þetta meira með því að það verði haldnar rúningskeppnir í hverju héraði fyrir sig og síðan komi þeir bestu saman í Dölunum og keppi þar um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn,“ segir Guðmundur. 
 
Vísar hann þar til álíka viðburða erlendis þar sem settar séu upp viðamiklar sýningar á keppnisstöðunum.
 
Gert að skoskri fyrirmynd
 
„Allt sem við höfum verið að gera hér varðandi rúningskeppnina síðastliðin níu ár er byggt á skoskri fyrirmynd varðandi stigagjöf og annað. Svo fóru nokkrir íslenskir rúningsmenn til Skotlands á heimsmeistaramót í rúningi ásamt Guðmundi Hallgrímssyni á Hvanneyri. Þegar þeir komu til baka gáfu þeir okkur verðlaunabikar sem við munum keppa um í framtíðinni.“
 
Guðmundur segir að eftir hvern haustfagnað hafi menn velt fyrir sér hvernig mætti setja þetta betur upp til að gera keppnina skemmtilegri fyrir keppendur og áhorfendur. Smám saman hafi aðstaðan verið bætt og lagt upp úr að keppnin gangi hratt og vel fyrir sig. Haustfagnaðurinn stendur yfir í tvo daga, föstudag og laugardag, þar sem fram fer hrútasýning með hrútadómum. Þá er á föstudagskvöldinu efnt til heljarmikillar sviðaveislu þar sem hagyrðingar hafa gjarnan stolið senunni. 
 
Sprengdu utan af sér húsnæðið 
 
„Á þessu hagyrðingakvöldi er boðið upp á venjuleg svið, reykt svið og söltuð, sviðalappir og fleira. Við byrjuðum á þessu í félagsheimilinu Árbliki í Suður-Dölum og sprengdum strax utan af okkur húsnæðið. Þar var ekki lengur borðpláss fyrir alla og endaði það með því að setið var á bekkjum með veggjum og sat þá hver og einn bara með kjamma í hendi og hníf.  Þá færðum við okkur í Dalabúð og sprengdum það hressilega utan af okkur líka og neyddumst þá til að koma 60–70 manns fyrir uppi á sviði fyrir aftan hagyrðingana.  
 
Á þessum árum létum við fólk ekkert panta miða fyrirfram, heldur mættu bara þeir sem vildu mæta. Þannig að við vissum aldrei hvað kæmu margir, en samt var alltaf nóg að borða fyrir alla og sviðin dugðu. Eftir þetta fórum við með sviðaveisluna í íþróttahúsið á Laugum í Sælingsdal sem tekur 400 manns í sæti. Það er ekki enn búið að sprengja það og við gætum svo sem komið hundrað manns fyrir í viðbót uppi í áhorfendastúku með hníf og kjamma í hendi.“
 
Guðmundur segir ánægjulegt hvað aðsóknin hafi aukist mikið. Það gefi mönnum tækifæri til að bjóða upp á veglegri skemmtiatriði sem sé ekki á færri fámennrar samkomu. Þannig var Gissur Páll Gissurarson fenginn í haust til að syngja og vakti það mikla lukku. Þá hafa Álftagerðisbræður einnig komið á þessa samkomu Dalamanna.
 
Í 20. tölublaði Bændablaðsins í október sl. gerði Jón Viðar Jónmundsson hrútasýningum Dalabænda ítarleg og góð skil. Þar við hliðina var sagt frá haustfagnaði FSD. Af einhverjum ástæðum slæddist þar að hluta inn gamall texti og m.a. sagt frá rúningskeppni og fleiru sem átti við árið áður. Er beðist velvirðingar á þessu, en hér koma réttu úrslitin í Íslandsmeistarakeppninni í rúningi 2014. 
 
Hafliði Sævarsson, Fossárdal.
Julio Cesar Gutierrez, Hávarsstöðum
Þórarinn Bjarki Benediktsson, Breiðavaði.
Í fjórða sæti var svo Jón Ottesen, í fimmta sæti var Arnar Freyr Þorbjarnarson, Jakob Arnar Eyjólfsson var í sjötta sæti, Guðmundur Þór Guðmundsson í sjöunda, Þórður Gíslason í áttunda, Baldur Stefánsson  í níunda, Steinar H. Kristbjörnsson var í tíunda sæti, Hermann Jóhann Bjarnason í ellefta sæti og Unnsteinn Kristinn Hermannsson í tólfta sæti. 
 
Efnt var til glæsilegrar ljósmyndasamkeppni
 
Á haustfagnaðinum 2014 var einnig efnt til ljósmyndasamkeppni rétt eins og árið áður. Þar komu fram fjölmargar mjög skemmtilegar myndir. Úrslit keppninnar í haust voru eftirfarandi:
 
Berglind Vésteinsdóttir  með myndina Hjalti og Kátur á Villingadal
Valdís Einarsdóttir  með myndina Stund milli stríða.
 
Kristján Einvarður Karlsson með myndina Berglind Vésteinsdóttir, bóndi á Sauðafelli, stendur vaktina í sauðburði.

9 myndir:

Skylt efni: rúningur

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki
Fréttir 8. maí 2024

Nýtt verknámshús byggt á Sauðárkróki

Verknámshús Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) á Sauðárkróki mun stækka ve...

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni
Fréttir 7. maí 2024

Torfæra til styrktar björgunarsveitinni

Laugardaginn 11. maí fer hin árlega Sindratorfæra fram við Gunnarsholtsveg rétt ...

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli
Fréttir 6. maí 2024

Nýtt erfðapróf fyrir bógkreppu í sjónmáli

Í sjónmáli er nýtt erfðapróf til greiningar á arfberum erfðagallans sem veldur b...

Jarðgerð á lagernum
Fréttir 3. maí 2024

Jarðgerð á lagernum

Krambúðin í Mývatnssveit er nú með jarðgerðarvél fyrir lífrænan úrgang í verslun...

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins
Fréttir 2. maí 2024

Fyrsti skipulegi raforkumarkaður landsins

Opnuð hefur verið íslensk raforkukauphöll, sú fyrsta á Íslandi og með það að mar...

Vöktun íslenskra skóga viðamest
Fréttir 2. maí 2024

Vöktun íslenskra skóga viðamest

Á sviði rannsókna og þróunar hjá Landi og skógi eru fjölmörg verkefni og þeirra ...

Samstarf háskóla skapar tækifæri
Fréttir 2. maí 2024

Samstarf háskóla skapar tækifæri

Jarðræktarmiðstöð LbhÍ er fjármögnuð með skilyrðum um samvinnu við aðrar menntas...

Sjónarmiðin samrýmast ekki
Fréttir 2. maí 2024

Sjónarmiðin samrýmast ekki

Ísteka telur að Samkeppniseftirlitið hefði átt að óska eftir uppfærðum upplýsing...