Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Hyggst reisa nýtt svínabú í Eyjafirði í samstarfi við Norðlenska
Fréttir 21. nóvember 2018

Hyggst reisa nýtt svínabú í Eyjafirði í samstarfi við Norðlenska

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Við svínabændur stöndum á krossgötum og sjálfur hef ég um skeið verið að gera upp við mig hvort ég eigi að leggja út í umtalsverðar fjárfestingar eða láta gott heita, kyrrstaða er ekki í boði,“ segir Ingvi Stefánsson, svínabóndi á Teigi í Eyja­fjarðarsveit og formaður Félags svínabænda.
 
Hann hefur rekið svínabú sitt heima á Teigi og í Pálmholti í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu en áformar nú að reisa nýtt bú á landskika við bæinn Torfur í Eyjafjarðarsveit. Deiliskipulagsvinna er í fullum gangi, en Ingvi segir ákveðna galla á reglugerðinni hafa tafið hönnunarferlið. 
 
Gyltum hefði fækkað um 40% við breytingar 
 
Fyrir áratug, árið 2008, keypti Ingvi svínabúið í Reykjadal, einkum til að uppfylla þær aðbúnaðarkröfur sem þá voru gerðar til framleiðslunnar. Því búi breytti hann í gyltubú og keypti nánast allar innréttingar nýjar. 
 
„Nú er ég nýlega búinn að slátra öllum gyltunum á því búi þar sem innréttingar standast ekki nýjar kröfur sem settar voru árið 2014. Ég er búinn að fylla tvo járnagáma og sá þriðji er kominn í hlað,“ segir Ingvi, sem er í óða önn að taka innréttingarnar niður. Hefði hann tekið þann kostinn að breyta búinu í Reykjadal í samræmi við nýjar aðbúnaðarkröfur hefði gyltum á því búi fækkað úr 180 niður í 100, eða um 40%.„Aðstæðurnar eru mjög krefjandi um þessar mundir með síauknum innflutningi og samkeppnin við innflutt kjöt er mjög skökk. Mörgum þykir ég pínu klikkaður að taka þessa ákvörðun, að byggja upp nýtt bú þegar staða í svínarækt á Íslandi er óviss, en ég hef óbilandi trú á íslenskri svínarækt og þeirri sérstöðu sem við búum við. Því tel ég að það sé pláss fyrir svona bú á markaðnum, en tíminn mun leiða í ljós hvort það er rétt mat hjá mér,“ segir Ingvi.
 
Byggt fyrir 400 gyltur á nýju búi í landi Torfna
 
Hann hefur náð samkomulagi við landeigendur á Torfum í Eyjafjarðarsveit, næsta bæ sunnan við kirkjujörðina Grund og í um 14 kílómetra fjarlægð frá Teigi, um kaup á skika úr jörðinni. Þar verður byggt upp nýtt svínabú  fyrir 400 gyltur og meirihluti eldisins mun einnig fara fram þar, en áframeldi verður að auki líka stundað á búinu á Teigi.
 
Ingvi hefur náð samkomulagi við landeigendur á Torfum í Eyjafjarðarsveit, næsta bæ sunnan við kirkjujörðina Grund og í um 14 kílómetra fjarlægð frá Teigi, um kaup á skika úr jörðinni. Þar verður byggt upp nýtt svínabú  fyrir 400 gyltur og meirihluti eldisins mun einnig fara fram þar.
 
Heildarflötur bygginga á nýja búinu verður um 5700 fermetrar. Ingvi hefur fengið aðstoð frá dönsku ráðgjafarfyrirtæki varðandi uppbyggingu búsins en undirbúningur hefur staðið yfir frá því á liðnu sumri.„Á svæðinu í kringum Torfur eru mörg kúabú og bændur hafa áhuga á að nýta svínaskítinn til áburðar, en með þeim hætti spara þeir kaup á tilbúnum áburði og minnka kolefnissporið í sínum rekstri. Þetta svæði hentar rekstri af þessu tagi einnig vel  sökum þess hve snjólétt það er,“ segir Ingvi.
 
Gestamóttaka svo almenningur geti fræðst um svínarækt
 
Hann segir að við hönnun búsins sé gert ráð fyrir að gestir geti komið að og fengið að sjá hvernig búskapurinn gengur fyrir sig, án þess þó að komast í beina snertingu við dýrin. „Ég tel nauðsynlegt fyrir okkur svínabændur að opna búin eins og hægt er fyrir almenningi, en á þann hátt getur fólk fræðst um þennan búskap. Við höfum ekki staðið okkur nægjanlega vel í þeim efnum,“ segir hann og bætir við að strangar smitvarnir séu nauðsynlegar til að passa upp á heilnæmi stofnsins og því sé málið ekki einfalt.
 
„Ég stefni að því að hafa sérstaka gestamóttöku þar sem hægt verður að horfa inn í gotsal í gegnum glervegg og setja jafnframt upp myndavélaskjái sem sýna inn í aðrar deildir búsins. Með þessu vonast ég til að almenningur geti kynnst svínaræktinni betur.“
 
Keppum í gæðum, ekki verði
 
Ingvi segir að hugsunin á bak við verkefnið sé ekki einungis að uppfylla kröfur sem ný reglugerð um velferð svína geri, heldur að taka skrefið enn lengra með aukna dýravelferð að leiðarljósi.
 
„Ég met stöðuna þannig að leiðin fyrir innlenda svínarækt til að keppa við síaukinn innflutning felist í því að standa eins myndarlega að þessum rekstri og kostur er og keyra á góðum aðbúnaði, heilnæmi afurða og hreinleikanum sem er einstakur í okkar framleiðslu. Alkunna er að erlendis eru mun minni kröfur gerðar til framleiðslunnar, ódýrara fóður notað, þar er minni launakostnaður og vextir eru lægri svo eitthvað sé nefnt, það liggur því í hlutarins eðli að við keppum aldrei við innflutt kjöt í verði.“
 
Svínarækt norðan heiða eflist
 
Ingvi segir að staða í svínarækt á norðanverðu landinu sé með þeim hætti að innan við helmingur af því sem framleitt er á svæðinu og unnið er úr hjá fyrirtækjum á matvælasviði komi af norðursvæðinu. Grísir hafi því verið sóttir um langan veg frá frá öðrum landsvæðum og fluttir norður á fæti til að anna eftirspurn á svæðinu.
 
„Með tilkomu þessa nýja bús fellur til meiri framleiðsla hér á svæðinu og þannig skapast einnig mörg afleidd störf, en stundum er talað um svínaræktina á þeim nótum að henni fylgi ekki mörg störf. Það er mikill misskilningur, bara í Eyjafirði er talið að um 80 til 90 manns vinni við slátrun og vinnslu svínakjöts og eru þá önnur afleidd störf ótalin. Svínakjöt er einnig hryggjarstykkið í rekstri kjötvinnslna og því skiptum við meira máli þegar fjallað er um landbúnað en margir gera sér grein fyrir,“ segir Ingvi.
 
Norðlenska verður aðili að þessum rekstri enda vill fyrirtækið tryggja sér aðgang að kjöti á svæðinu. 
 
Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...