Taka Vatnasvæði Lýsu á leigu
Höfundur: Gunnar Bender
„Það er okkur mikill heiður og sönn ánægja að taka í sölu Vatnsvæði Lýsu á Snæfellsnesi en þessi fallega perla er frábær silungsveiðikostur og í bestu árum hafa veiðst hátt í 200 laxar á sumri,“ sögðu þau Stefán Sigurðsson og Harpa Þórðardóttir sem hafa tekið Vatnasvæði Lýsu á Snæfellsnesi á leigu í sumar.
„Veiði á Vatnasvæði Lýsu er góð og ódýr kostur fyrir veiðimenn og -konur á einu af okkar fegursta landsvæði.
Á vatnasvæðinu veiðist urriði og bleikja allt tímabilið en þegar líður á júlí er töluverð laxavon á svæðinu. Á haustin bætist svo sjóbirtingurinn við. Það er mikill fiskur í vötnunum en veiðin er misjöfn. Laxinn er yfirleitt smálax, en allt að 19 punda fiskar hafa veiðst og silungurinn er frá einu upp í þrjú pund.
„Vatnasvæði Lýsu hefur verið í umsjá einkaaðila undanfarin 10 ár og er það án efa mikið fagnaðarefni fyrir marga að geta loks veitt þar að nýju,“ sögðu þau Stefán og Harpa enn fremur.