Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Veiðimenn nema land
Í deiglunni 31. júlí 2015

Veiðimenn nema land

Höfundur: Sölvi Björn Sigurðsson
Veiðimennska hefur fylgt Íslendingum lengur en byggð hefur verið í landinu. Fyrsta sagan er af Hrafna-Flóka, sem gleymdi sér svo við veiðiskap að hann komst ekki til að heyja og missti allan kvikfénað sinn um veturinn. 
 
Samferðamaður hans, Faxi suðureyski, var enn að dást að vatnsföllunum þegar síðasta skepnan gaf upp öndina og hafði þá aldrei séð önnur eins straumvötn á ferðum sínum um veröldina. 
 
Veiðikappið réð því að landið fór aftur í auðn 
 
Flóki sneri heim til Noregs og sá eyjunni flest til foráttu eins og sá einn gerir sem hefur allt á hornum sér í veiðitúr. Hann gleymdi alveg að rækta með sér jafnaðargeðið og því fór sem fór um sauðina hans og framrás Íslandssögunnar. Kannski hefði enginn treyst sér öðru sinni vestur um haf hefði Þórólfur smjör ekki slegið á létta strengi og deilt með veiðifélögum sínum í Noregi hinni unaðsríku reynslu sinni af reisunni. Það var eflaust ekki svo lítils vert fyrir síðari kynslóðir Íslendinga að þessi léttlyndi samferðamaður Hrafna-Flóka skyldi láta svo vel af landgæðunum. Ef herma ætti eina lexíu öðrum fremur af fyrsta íslenska veiðitúrnum er hún tvímælalaust sú að afstaðan skiptir öllu máli; sá einn kemur glaður heim úr veiðiferð sem ber sig eins og Þórólfur smjör, hvernig svo sem fræknast og fiskast.
 
Það var líka langt í frá að fólk missti trúna á veiðieyjuna í norðrinu. Ekki leið nema veturinn þar til Ingólfur kom með fylgdarliði og reisti súlur sínar í Kvosinni eftir heilmikið rangl um landið. „Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta,“ mælti Karli þræll hans og flúði til Þingvalla að sjóða sér silung svo reykinn lagði yfir Ölfusið. Þessi skynsami þræll var eflaust fyrsti veiðimaðurinn þarna í sveitinni. Við svo búið var byggð föst í landinu og fóru allir síðari landnemar að dæmi þeirra fyrstu. Þeir námu jarðir milli fallvatna og reistu sér hús á grösugum bökkum þar sem silungar vöktu á vötnum og laxar syntu í hyljunum. 
 
Mesti laxabóndinn var Skalla-Grímur sem kom sér upp búi að Borg við Langárósa. Þaðan raðaði hann mönnum sínum skipulega í kringum gjöfulustu laxveiðiár héraðsins. Grímur háleyski fékk land milli Andakíls og Grímsár, Áni milli Langár og Háfslækjar, og þeir þursar, Þórir og bræður hans, fengu land ytra með Langá. Án veiðisældarinnar er óvíst hvort þessir menn hefðu nokkurn tíma látið sjá sig á Íslandi. Vatnsdæla segir að Grímur háleyski hafi látið tilleiðast vegna sagna um
að þar væri „fiskur í hverju vatni, skógar miklir, en frjálsir af ágangi konunga og illræðismanna“.
Eins var um þá Björn austræna og Helga Bjólan, syni Ketils flatnefs, sem líkt og fleirum varð uppsigað við Harald hárfagra í Noregi. Þeir héldu til Íslands vegna þess að þar var hvalreki mikill og laxveiðar og hægt að veiða allan ársins hring. Þessir fornmenn notuðu spjót og skutluðu laxa af árbökkum en dorguðu líka í gegnum vakir þegar vötn lagði á vetrum. Það var eins og mönnum kæmi ekki í hug að nota öngul nema úti á ísbreiðunum, þegar ekki var hægt að komast öðruvísi að fiskunum. Þó voru þetta menn sem víluðu hvorki fyrir sér líf né dauða.
 
Þegar Þorsteinn þorskabítur Þórólfsson Mostrarskeggs, sem var afi Snorra goða, drukknaði ungur að aldri í fiskróðri gekk hann rakleiðis inn í Helgafell og hóf drykkju við mikinn fögnuð frænda sinna, sem voru líka dauðir. Um þetta vitnaði smalamaður hans og staðfesti um leið þau mikilsverðu sannindi að maður ætti aldrei að láta illa heppnaðan veiðitúr of mikið á sig fá.
 
Flestallar fornsögunnar fara einhverjum orðum um veiðimenn og er af bestu lýsingunum ljóst að góðir fiskimenn njóta gæfufylgdar landvætta þegar haldið er í veiðiferð. Þannig voru fyrstu Íslendingarnir í engu öðruvísi en fyrri landnemar norðan Kákasusfjalla, sem höfðu tálgað sér fiskispjót úr beini og skutlað laxa frá því að síðustu ísana leysti af norðurhvelinu. Þeir voru veiðimenn fremur en búmenn, komnir af þeim kynlega kvisti fólks er kaus að fara á sveig við frjósama hálfmánann og reika frekar um jörðina í leit að sportfiskum. Afkomendur þessara laxakerlinga og þorskbíta fara enn í stórum flokkum um landið á hverju sumri, hver og einn í leit að gleðinni sem forðum nam vit og rænu frá fyrsta landnámsmanninum í Vatnsdal.
 
/Úr Íslenskri vatnabók
Jarðvegsauðlind Íslands
Fréttaskýring 11. desember 2024

Jarðvegsauðlind Íslands

Jarðvegur er ein mikilvægasta náttúruauðlind jarðar sem trauðla er hægt að endur...

Helsta ógn við lýðheilsu í dag
Fréttaskýring 29. október 2024

Helsta ógn við lýðheilsu í dag

Íslendingar nota mun meira af sýklalyfjum fyrir fólk en Norðurlandaþjóðirnar en ...

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð
Fréttaskýring 27. september 2024

Umhverfisáhrif óhjákvæmilega verulega neikvæð

Unnið er að veglagningu í Hornafirði, styttingu hringvegarins um Hornafjarðarflj...

Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...