Í Túnis eru 122 þúsund kúabú
Höfundur: Snorri Sigurðsson
Líkt og flestir kannast líklega við þá á hið „Arabíska vor“ upphaf sitt að rekja til persónulegs harmleiks sem átti sér stað í Túnis í Norðaustur-Afríku 17. desember 2010. Þá brenndi ungur grænmetissali sjálfan sig til dauða til þess að mótmæla stjórnvöldum og í raun eigin lífskjörum.
Margir íbúar landsins gátu sett sig í spor þessa unga manns og varð þessi harmleikur til þess að uppreisn breiddist út í landinu og þaðan til annarra landa í norðurhluta Afríku og Mið-Austurlöndum. Uppreisnarmenn í Túnis kröfðust lýðræðis og að ríkisstjórn landsins myndi víkja og í stuttu máli leiddi uppreisnin, sem er kölluð Jasmínbyltingin, til þess að fram fóru kosningar í landinu haustið 2011. Frá þeim tíma hafa orðið gríðarlega miklar breytingar í landinu og kjör fólks batnað en þó er enn langt í land.
Núverandi stjórnvöld hafa allt aðra sýn á þróun landsins en fyrri stjórnvöld og horfa í því sambandi til Vesturlanda varðandi uppbyggingu á innviðum og atvinnulífi landsins. Breyting á uppbyggingu mjólkurframleiðslunnar í landinu er eitt af því sem horft er til, enda þar sjáanlega mikil tækifæri í þessu gjöfula landi.
Mun stærra en Ísland
Þó svo að landið virki ekki stórt, þegar horft er á kort af Afríku, þá er Túnis engu að síður töluvert stærra en Ísland, eða um 162 þúsund ferkílómetrar. Í landinu búa hins vegar töluvert fleiri en hér á landi eða um 11 milljónir. Af þeim eru allmargir í mjólkurframleiðslu enda eru 122 þúsund kúabú í landinu og árið 2014 nam innvigtun mjólkur 1,2 milljörðum lítra.
Landbúnaður er mikilvægur efnahag í Túnis, um þriðjungur landsins er flokkað sem ræktarland, þ.e. um 50 þúsund ferkílómetrar en um 25 þúsund ferkílómetrar til viðbótar eru nýtanlegir fyrir beit. Vökvun akra er eitthvað sem á sér frekar skamma sögu í landinu og í dag eru ekki nema 3.500 ferkílómetrar sem fá reglulega vökvun, en vökvun er nauðsynleg í flestum héruðum landsins sökum mikilla sumarhita og þurrka.
Þegar horft er til landbúnaðarins er mjólkurframleiðslan einna mikilvægust og stendur hún t.d. undir 11% af heildarveltu landsins. Annar landbúnaður sem einnig er mikilvægur er framleiðsla á ólífum, korni, útiræktuðum tómötum, ávöxtum, sykurrófum möndlum og döðlum.
400 milljóna króna þróunarverkefni
Til þess að aðstoða við innri uppbyggingu Túnis hefur danski þróunarsjóðurinn Danida haldið úti þróunarverkefni í landinu undanfarin misseri en tilgangur þessarar aðstoðar er að „hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft“, þ.e. fjármunirnir eru fyrst og fremst nýttir til þess að kenna og þjálfa en ekki til fjárfestinga í tækjum eða tólum eins og oft var gert hér áður fyrr. Merki um slík þróunarverkefni, þ.e. sem byggðu á því að gefa heimamönnum ný tæki t.d. sáðvélar, áburðardreifara eða annað slíkt, sjást víða í landinu þar sem tækin standa og ryðga þar sem hvorki voru til fjármunir til viðhalds á þeim né almennileg þekking á notkun tækjanna.
Sá hluti þróunarverkefnis Danida sem snýr að landbúnaði er allvel fjármagnaður en alls verða 400 milljónir íslenskra króna nýttar til þessa átaks, en markmiðið er að ná fram auknum hagvexti í landbúnaðinum og skapa ný atvinnutækifæri enda eru þar mikil ónýtt tækifæri sökum fornra vinnubragða við almenn landbúnaðarstörf. Þetta á sér í lagi við í mjólkurframleiðslunni þar sem meðalbúið leggur ekki inn nema rétt um 10 þúsund lítra mjólkur á ári eða að jafnaði um 30 lítra á dag! Vegna þessa hafa ráðgjafar frá danska ráðgjafarfyrirtækinu SEGES verið sendir til Túnis til þess að standa fyrir námskeiðum og starfsþjálfun bæði ráðunauta, dýralækna og bænda.
Með 2–3 kýr að jafnaði
Þegar fjöldi kúabúa í landinu er nefndur þá reikna líklega flestir með meiri framleiðslu en hér að framan var getið um en tilfellið er að búin eru afar smá og flestir með þetta 3–5 kýr að jafnaði og nýta um helming mjólkurinnar heima við en hinn hlutinn er lagður inn. Flest búin eru frekar landlítil og eru í blandaðri framleiðslu, þ.e. framleiða lítið eitt af mjólk, eru oft einnig með einhverja ávaxtaframleiðslu, döðlur eða annað slíkt.
Fæstir kæla mjólk
Í Túnis er að stærstum hluta notast við handmjaltir, en áætlað er að handmjólkað sé á a.m.k. 70% búanna. Næst algengasta aðferðin er að notast við fötumjaltavélar með eigin sogdælu en þá þarf bóndinn einnig að vera með rafala og eru oft litlir bensíndrifnir rafalar nýttir. Þriðja aðferðin er svo hefðbundin, þ.e. annaðhvort hefðbundið rörmjaltakerfi eða mjaltabás. Það sem er þó e.t.v. eftirtektarvert er að mjólkin er næstum aldrei kæld niður á minni búunum, þrátt fyrir ágætt aðgengi að vatni a.m.k. sums staðar í landinu.
Venjan er að afhenda mjólkina tvisvar á dag, bæði kvölds og morgna, og er hún þá volg. Fyrir vikið er geymsluþol mjólkurinnar takmarkað, sökum líftöluvandamála, en hingað til hafa bændur fengið greitt fyrir mjólkina út frá magni og lit en hvorki vegna efnainnihalds né mjólkurgæða. Þetta er þó að breytast og nú hafa verið sett líftölumörk í landinu. Þau eru þó enn afar há en munu fara stiglækkandi á komandi árum.
Erfitt að afhenda mjólk
Eitt er að kæla ekki mjólkina, annað er að afhenda hana til kaupanda en sums staðar í Túnis eru t.d. engir vegir að kúabúunum. Bændurnir verða því að notast við reiðskjóta og eru múlasnar oftast nýttir til almennra flutninga til og frá búunum. Líklega standa þó flest búin í nánd við tengivegi og því ekki um of langan veg að fara en svo er ekki um alla.
Einn bóndi sem undirritaður hitti reið í nærri 2 tíma hvora leið með mjólkina niður á veg. Eftir morgunmjaltirnar lagði hann inn 17 lítra og eftir kvöldmjaltirnar um 9 lítra. Sem sagt 26 lítrar á dag og átta klukkutímar á múlasnabaki, dag hvern. Ekki annað hægt en að bera virðingu fyrir þrautseigjunni.
Pallbílar sem mjólkurbílar
Eins og áður segir er mjólkinni safnað tvisvar á dag frá flestum búum og fer söfnunin þannig fram að pallbílum með litlum 800–1.000 lítra mjólkurtönkum á pallinum er ekið um tengivegina og fara bændurnir á fyrirfram ákveðnum tímapunkti niður á „stoppistöð“ þar sem þeir geta afhent mjólkina sína. Pallbílareksturinn er oftast einkarekstur, þ.e. sá sem keyrir bílinn kaupir mjólkina af bændunum og selur svo til söfnunarstöðvar mjólkurinnar.
Í söfnunarstöðina koma svo ótal pallbílar saman og afhenda mjólkina áfram. Í söfnunarstöðvunum fer fram kæling mjólkurinnar, bæði með plötukælum en einnig með hefðbundnum mjólkurtönkum og að söfnunarstöðvunum koma svo mjólkurbílar afurðastöðvanna og ná í mjólkina. Frá bóndanum að afurðastöðinni eru því tveir auka milliliðir frá því sem við þekkjum hér á landi, með tilheyrandi kostnaði eins og gefur að skilja.
Háhitameðhöndluð mjólk
Frá safnstöðvunum fer svo mjólkin í næstu afurðastöð en bæði eru í landinu einkarekin alþjóðleg afurðafélög eins og Danone en einnig samvinnufélög bænda. Þessar afurðastöðvar taka við mjólk í dag af afar misjöfnum gæðum og þar sem hráefnið er ekki eins og best verður á kosið er langalgengast að nýta mjólkina sem G-mjólk þ.e. hún er háhitameðhöndluð þannig að líkurnar á gerlamengun lágmarkast. Fyrir vikið eru íbúar landsins ekki vanir ferskum mjólkurafurðum og því síður að kaupa ferska mjólk út í búð. Í þeirra huga er fersk mjólk einungis fersk ef hún er volg, því annars hlýtur hún að vera allt of gömul!
Kæling mjólkur lykillinn
Þegar þróunarverkefni, líkt og það sem Danida hefur nú sett af stað, er hleypt af stokkunum getur verið allerfitt í upphafi að átta sig á því hvar eigi að bera niður. Það er deginum ljósara að hægt er að stórbæta vinnubrögð á öllum stigum mjólkurframleiðslunnar en það er þó bara hægt að taka eitt skref í einu og eigi lausnirnar að endast og nýtast til frambúðar er mikilvægast að heimamenn sjálfir geri sér grein fyrir eigin tækifærum og möguleikum. Fyrir utanaðkomandi er þó ljóst að einna stærsti einstaki hagræðingarkosturinn í stöðunni er að ná að kæla mjólkina heima á búum bændanna svo fækka megi ferðum þeirra niður á næsta tengiveg.
Ef unnt er að breyta kerfinu þannig að mjólk sé safnað einu sinni á dag í stað tvisvar sinnum, má bæði lækka kostnað við flutning mjólkur frá búunum til söfnunarstöðvar en einnig eykur það mjólkurgæðin með tilheyrandi líkum á hækkuðu afurðaverði. Þess utan geta bændurnir nýtt tíma sinn í annað en að fara aukaferð niður á veg og heim aftur, hvort sem sá aukni frítími nýtist til vinnu eða annarra hluta er svo þeirra eigið mál. Að þessu er nú unnið hörðum höndum bæði við þróun kælibúnaðar fyrir nánast vatnslaus svæði sem og að vinna að upptöku gæðaeftirlits mjólkur við móttöku mjólkur á pallbíl. Séu gæði mjólkurinnar ekki skoðuð þar, verður ávinningur bændanna að því að byrja að kæla mjólkina enginn og þar með áhuginn vart til staðar.
Snorri Sigurðsson
Ráðgjafi hjá SEGES P/S
sns@seges.dk