Illgresinu sagt stríð á hendur með umhverfisvænum leiðum
Öflun nýrrar þekkingar á baráttunni við illgresi í ræktun er meginmarkmið nýs samstarfsverkefnis um umhverfisvæna illgresiseyðingu, AGROSUS.
Er um að ræða samevrópskt verkefni og er Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins (RML) þátttakandi. Leitast verður við að afla nýrrar þekkingar í baráttunni við illgresi í ræktun helstu nytjaplantna í Evrópu og leita umhverfisvænna leiða við illgresiseyðingu. Hlutverk RML verður m.a. að afla upplýsinga um aðferðir við illgresiseyðingu hér á landi og prófa nýjar aðferðir. Mun RML hefja þá upplýsingaöflun hjá bændum, hagsmunaaðilum og sérfræðingum á næstu vikum.
Gagnagrunnur fyrir evrópska illgresisstjórnun
Meðal þess sem unnið verður að er gagnagrunnur fyrir evrópska illgresisstjórnun, skoðaðar hindranir og tækifæri varðandi illgresi í landbúnaðarvistfræði, gerðar athuganir á lífrænum illgresiseyðum og frumgerðaprófanir, unnar ráðleggingar til bænda og hvernig stuðla má að betra eftirliti.
Að verkefninu, sem hleypt var af stokkunum í sumar og á að standa yfir í 4 ár, standa 16 samstarfsaðilar frá 11 Evrópulöndum og eru þar á meðal háskólar, samtök, býli, bændasamtök, spænsk rannsóknamiðstöð og RML. Vefur verkefnisins er agrosus.eu.