Innflutningsmet
Tæp 273 tonn af úkraínsku kjúklingakjöti var flutt hingað til lands í maímánuði og er það langstærsti innflutningsmánuður frá upphafi.
Frá því innflytjendur fóru að kaupa inn kjúklingakjöt frá Úkraínu í september á síðasta ári og fram í apríl voru rúm 297 tonn flutt inn. Heildarinnflutningur á tollfrjálsu kjúklingakjöti reynist því 570 tonn og um 48% þess var flutt inn í maí samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.
Langstærsti hluti kjötsins sem flutt var inn í maí var úrbeinað, en leiðrétt fyrir beinahlutfalli reynist heildarmagnið 365 tonn. Innanlandsframleiðsla af kjúklingakjöti nam tæpum 826 tonnum. Hlutfall innflutta kjúklingakjötsins er því 44% af innanlandsframleiðslu maímánaðar.
Tímabundin einhliða niðurfelling tolla á vörur sem upprunnar eru í Úkraínu féll niður 31. maí síðastliðinn.