Íslandsvinur sló heimsmet
Breski bóndinn Marie Prepple sló heimsmet í rúningi í lok ágúst. Það er kannski ekki í frásögur færandi fyrir íslenska lesendur nema fyrir þá staðreynd að Marie kemur reglulega hingað til lands til að rýja fé íslenskra bænda.
Marie gerði atlögu við fyrsta heimsmet kvenna í átta tíma löngum rúningi á fullorðnu fé. Hún stóð við rúning í fjórum tveggja tíma hollum milli kl. 7 og 17 fimmtudaginn 26. ágúst. Niðurstaðan var 370 ær á 8 klukkutímum, sem gerir 1,3 kindur á mínútu.
Marie hefur vanið komur sínar hingað til lands og ráðið sig í rúning hjá íslenskum sauðfjárbændum ásamt vinkonu sinni, Heiðu Guðnýju Ásgeirsdóttur, bónda á Ljótarstöðum í Skaftártungu. Fer af þeim stöllum gott orð um framúrskarandi vinnubrögð.
Í viðtali við landbúnaðarmiðilinn The Scottish Farmer segist Marie vera stolt af því að vinna í starfsstétt þar sem konur eru metnar til jafns við karla og fái m.a. sömu laun fyrir vinnu sína. Marie elur manninn á bænum Boyington Court Farm í Kent þar sem hún elur sauðfé á sjálfbæru beitarlandi og selur afurðir beint frá býli.