Íslensk ull á prjónahátíð í Kaupmannahöfn
Á Norðurbryggju, menningarhúsi Íslands, Færeyja og Grænlands í hjarta Kaupmannahafnar, er árlega haldin stór hátíð sem heiðrar prjónaiðnaðinn. Í ár var prjónahátíðin haldin 9.-11. september og lögðu um 2.500 manns leið sína í gamla pakkhúsið.
Skipuleggjendur hátíðarinnar fyrir hönd Norðurbryggju eru prjónahönnuður og forstöðumaður Jónshúss, Halla Benediktsdóttir, og Ásta Stefánsdóttir, verkefnastjóri á Norðurbryggju. Áhugasömum gafst gestum kostur á að skoða fjölda sölubása þar sem hægt var að kaupa garn og prjónauppskriftir frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi, ásamt því að hitta aðra prjónara og fá alls kyns innblástur. Meðal annarra var að finna íslensku merkin Móakot, Einrúm, Forystusetur, Thelmu Steimann, Kvíkví, ásamt íslensku garnbúðinni Garnkiosken, sem staðsett er á Amager í Kaupmannahöfn
Prjónaganga í gegnum Nýhöfn
Hátíðin hófst á föstudegi kl. 17 með prjónagöngu frá Nyhavn, í miðborg Kaupmannahafnar, að Norðurbryggju á Kristjánshöfn, en í gönguna mættu um 100 konur sem gengu með prjónana á lofti eftir götum borgarinnar, borgarbúum til mikillar gleði.
Blá ull
Á laugardeginum gafst gestum möguleiki á að hitta Guðrúnu Bjarnadóttur frá Hespuhúsinu. Guðrún er líffræðingur og plöntulitunar- fræðingur, en þennan dag mátti heyra hana segja frá bláa litnum, sem á víkingaöld var eingöngu fyrir þá ríkustu, en einnig gaf Guðrún gestum sýnikennslu í því hvernig maður litar með indigo.
Seinna sama dag mátti heyra um hvers vegna sauðnautsull er svona einstaklega mjúk og hvernig henni er safnað, þegar Mia Chemnitz frá grænlenska framleiðslufyrirtækinu Qiviut sagði frá. Færeyjar höfðu líka sitt til málanna að leggja, en Sissal Kristiansen frá Shisa Brand sagði frá færeysku ullinni, sem oftar en ekki er brennd í stað þess að gera úr henni band. Sissal kallar sig „ullar-aktivista“ og leggur sitt af mörkum til að reyna að snúa þessari þróun í átt að betri nýtingu á ullinni.
Forystusauðir og framúrskarandi peysur
Á sunnudeginum var hægt að fræðast um ull forystusauðsins, þess einstaka stofns sem eingöngu er til á Íslandi. Daníel Hansen, forstöðumaður Forystuseturs, hélt fyrirlestur fyrir fullum sal, en hann fræddi gesti um sérstaka eiginleika forystufjár, einstaka mýkt og gæði ullarinnar, og framtíðaráform Forystuseturs hvað varðar útbreiðslu þekkingar fólks á forystufé.
Þennan dag komu fleiri Íslendingar við sögu, en Helga Jóna Þórunnardóttir, sem starfar sem kennari hjá SKALS, einum virtasta hannyrðaskóla Dana, kom fram með nöfnu sinni, Helgu Isager, en þær hafa nýverið gefið út fallega bók um vettlingaprjón.
Að lokum gafst gestum tækifæri á að upplifa hinn óviðjafnanlega íslenska hönnuð og listamann Ýr Jóhannsdóttur (betur þekkt sem Ýrúrarí), en hún hélt skemmtilegan fyrirlestur og námskeið um það hvernig færa má gamlar peysur í nýtt horf á afar einfaldan og húmorískan máta. Endurnýttar peysur hennar hafa slegið í gegn um allan heim og hafa verið keyptar af söfnum í Ameríku, Hollandi og Skotlandi.