Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Jóhanna Sjöfn Guðmundsdóttir og Hörður Guðmundsson á Grímsstöðum framleiða undir vörumerkinu Grímsstaðaket og eru hér á bás SSFM/BFB á Landbúnaðarsýningunni 2022.
Jóhanna Sjöfn Guðmundsdóttir og Hörður Guðmundsson á Grímsstöðum framleiða undir vörumerkinu Grímsstaðaket og eru hér á bás SSFM/BFB á Landbúnaðarsýningunni 2022.
Mynd / SSFM/BFB
Fréttir 2. apríl 2024

Jóhanna á Grímsstöðum nýr formaður Beint frá býli

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Ný stjórn Beint frá býli hefur skipt með sér hlutverkum og er nýr formaður Jóhanna Sjöfn Guðmundsdóttir, sauðfjárbóndi á Grímsstöðum í Reykholtsdal í Borgarfirði.

Hún tekur við af Jóhönnu Bergmann Þorvaldsdóttur, Háafelli í Borgarfirði, sem fer nú í varastjórn. Varaformaður er Rúnar Máni Gunnarsson í Sölvanesi í Skagafirði og aðrir í stjórn eru Ann-Charlotte Fernholm, Gilsbakka, Þorbjörg Ásbjörnsdóttir, Lynghóli og Ísak Eyfjörð, Efstadal 2.

Félagar á 119 lögbýlum

Beint frá býli, félag heimavinnsluaðila á lögbýlum, var stofnað árið 2008. Árið 2022 varð félagið aðildarfélag að Samtökum smáframleiðenda matvæla (SSFM). Allt félagsfólk á lögbýlum sem er í SSFM er einnig með beina aðild að BFB og þar inni eru nú 119 lögbýli.

Spurð um þróun félagsins í nánustu framtíð segir Jóhanna Sjöfn að hún sjái fyrir sér að það muni stækka og vaxa. „Það hefur mikið verið talað um hversu torvelt það hafi reynst mörgum framleiðendum að fá leyfi og margir hafa lent í erfiðleikum í samskiptum við eftirlitsaðila, en ég trúi því að þetta sé að breytast með aukinni umfjöllun. Að í framtíðinni verði komin hefð fyrir heimavinnslu matvæla á íslenskum lögbýlum eins og við þekkjum í Evrópu og á Norðurlöndum.“

Anna varla eftirspurn

„Ég finn að áhugi neytenda er vaxandi og neytendur í auknum mæli farnir að velja vöru þar sem þeir geta verið vissir um upprunann.

Beint frá býli er orðið rótgróið í huga neytenda og ég tel að við séum komin á þann stað að okkar viðskiptavinir treysta merkinu okkar og velja að versla við okkur. Þrautseigja og metnaður einkennir félagsmenn og það kemur sér einstaklega vel í félagi eins og okkar,“ heldur Jóhanna áfram.

Hún segir að meginmarkmið félagsins sé að tryggja neytendum gæðavörur þar sem öryggi og rekjanleiki vöru sé í fyrirrúmi. „Félagið skal einnig hvetja til varðveislu hefðbundinna framleiðsluaðferða og kynningar á svæðisbundnum hráefnum og hefðum í matargerð. Þessu hefur félagið komið vel til skila til þessa og tel ég að ekki verði nein breyting á því í framtíðinni. Félagsmenn tala flestir um það sama, að þeir anni varla eftirspurn, svo ég held að við getum ekki haldið annað en að félagið eigi eftir af vaxa og eru nýir félagar alltaf velkomnir.

Núna erum við að fara af stað með skipulag á næsta Beint frá býli- degi sem verður haldinn í ágúst. Hann var fyrst á dagskrá á 15 ára afmæli okkar í fyrra og heppnaðist mjög vel.“

Lambakjötið uppselt

Grímsstaðabændur reka eigið sláturhús og kjötvinnslu, eitt fárra lögbýla sem nýtti sér þann möguleika þegar það varð heimilt með útgáfu reglugerðar árið 2021.

Þegar Jóhanna er spurð hvort hún muni hvetja aðra félagsmenn til að fara að hennar fordæmi segir hún að tvímælalaust muni hún hvetja til frekari heimavinnslu.

„Við hjá Grímsstaðaket önnum ekki eftirspurn og það er svo sannarlega pláss fyrir fleiri eins og okkur á markaðinum. Viðskiptahópur okkar hefur stækkað hratt og eigum við okkur orðið marga trygga viðskipavini, en því miður þá er staðan hjá okkur sú að lambakjötið hjá okkur er uppselt og lítið eftir af ærkjöti svo við náum enn einu sinni ekki að reyna fyrir okkur á grillkjötsmarkaðinum í sumar. Framtíðin hjá okkur er einfaldlega sú að við verðum að stækka við okkur kæla og frysta til að geta aukið söluna. Þetta er auðvitað lúxusvandamál.“

Skylt efni: beint frá býli

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...