Jólaskógarnir opnir á aðventunni
Á aðventunni opna jólaskógar skógræktarfélaganna í landinu fyrir þeim sem vilja sækja sér sjálfir jólatré og styrkja í leiðinni starf þeirra. Opið er hjá flestum félögum allar aðventuhelgarnar. Talið er að fyrir hvert keypt jólatré sé hægt að gróðursetja önnur 50.
Stafafuran er langvinsælasta innlenda jólatréð, en þar á eftir koma sitkagreni og rauðgreni – en árið 1993 var það vinsælasta tréð. Í Heiðmörk, við Elliðavatnsbæinn, hefur Skógræktarfélag Reykjavíkur um árabil staðið fyrir viðburðaríkri dagskrá á aðventunni. Jólamarkaður er haldinn í Elliðavatnsbænum og jólatrjáasala er úti við á sérstöku jólatorgi þar sem hægt verður að njóta jólastemningar.
Barnastund hvern opnunardag
Í Rjóðrinu, rétt við Elliðavatnsbæinn, verður Barnastund hvern opnunar dag klukkan 14.
Frekari upplýsingar um opnunar tíma jólaskóganna má finna á vef Skógræktarfélags Íslands, skog.is.