Kórónasmit frá farandverkafólki í þýskum sláturhúsum
Þýski sláturhúsageirinn er nú kominn í kastljós fjölmiðla eftir að um fjórðungur starfsmanna hjá Müller Fleisch´s sláturhúsinu í Baden-Würtenber greindust smitaðir af kórónavírus.
Greint var frá þessu á vefsíðu Global Meat í morgun, en þar kemur fram að svæðisstjórn í Enzkreis hafi upplýst að 400 af 1.100 starfsmönnum sláturhússins hafi greinst jákvæðir af COVID-19 eftir sýnatöku. Um 150 hafa náð sér að fullu og eru mættir aftur til starfa, en þurfa samt enn að lúta takmörkunum samkvæmt einangrun. Er þeim einungis heimilt að ferðast á milli heimilis og vinnustaðar. Forsvarsmenn sláturhússins hafa samþykkt að taka upp skipulag samkvæmt faraldursviðbrögðum 2 nú fyrri vikulokin og innleiða það eins fljótt og auðið er.
Müller Fleisch´s eru ekki einu sláturhúsin í Þýskalandi sem eru að glíma við smit, en mikið er um erlenda farandverkamenn sem stoppa stutt í þessari grein.
Stjórnsýsludómstóll í Münster gaf út skipun um að Westleisch kjötvinnslunni í Coesfeld yrði lokað eftir að hafnað var beiðni fyrirtækisins um að opna að nýju eftir tímabundna lokun vegna COVID-19. Gefin var skipun um að loka kjötvinnslunni í kjölfar þess að 171 starfsmaður greindist jákvæður fyrir smiti af völdum COVID-19. Búið er að taka sýni af 952 starfsmönnum fyrirtækisins og hafa 461 reynst smitaðir.
Smittíðnin í þýskum sláturhúsum hefur vakið upp umræður um aðbúnað starfsfólks í sláturhúsum og kjötvinnslum. Stjórnsýsludómstóllinn í Münster hefur gert athugasemdir við að sláturhúsin setji gróðasjónarmið ofar hagsmunum starfsmanna. Er vandinn meðal annars sagður liggja í því að mikið rót sé á starfsfólki og stöðugt verið að skipta út innfluttu verkafólki sem stoppi stutt. Vegna þess sé vaxandi hætt á nýjum faraldri eftir sex mánuði.
Haft er eftir Bastian Rosenau, héraðsstjóra í Enzkreis, að finna þyrfti langtímalausnir í starfsmannahaldi sláturhúsanna til að minnka líkur á að faraldurinn blossi upp að nýju.
„Við verðum að hugsa um sjálfbærni og langtímaúrræði,“ sagði Rosenau.