Kosið milli fimm nafna
Alls bárust 26 nöfn í nafnasamkeppni á nýjan gangnamannaskála sem tekin var í notkun á Grímstunguheiði í haust. Kosið verður um fimm þeirra: Brík, Gedduskáli, Heiðahöllin, Skjól og Vegamót.
Nýi gangnamannaskálinn á Grímstunguheiði var reistur í fyrrasumar og haust og kemur í stað tveggja skála, Öldumóðuskála og Álkuskála. Skálinn er um 500 fermetrar að stærð, samansettur úr tíu skálaeiningum með 29 gistiherbergjum, salernum, sturtum, matsal og eldhúsaðstöðu. Einnig var reist nýtt hesthús sem er um 120 fermetrar að stærð. Gistipláss í skálanum er fyrir 60 manns og hesthúsið er fyrir um 70 hross.
Í síðasta Bændablaði kom fram að skálinn hefði fengið nafnið Vegamót en það var einungis fjallskiladeildin sem hafði samþykkt það nafn. Sveitarstjórn frestaði ákvörðun um nafn og leggur til að kostið verði um nöfnin fimm.