KS greiðir uppbætur til sauðfjárbænda
Í tilkynningu á vef Kaupfélags Skagfirðinga í gær kemur fram að greitt verður viðbótargreiðsla til sauðfjárbænda vegna innleggs síðasta haust. Verður greitt 6,04 prósent á innlegg í september og október og 10 prósent á innlegg ágústmánaðar sem verður reikningsfært 20. janúar.
Í tilkynningunni segir að það hafi komið í ljós þegar birgðatalningu sé lokið og unnið sé að ársuppgjöri afurðastöðvanna að unnt reynist að greiða þessar viðbótargreiðslur.
„Sláturtíðin gekk í raun ágætlega og sala á afurðum hefur gengið nokkuð vel. Það liggur nú fyrir, að veiking íslensku krónunnar reyndist meiri heldur en við þorðum að byggja áætlun okkar á í haust og hefur það komið okkur til tekna. Því hefur verið tekin ákvörðun hjá Kjötafurðastöð KS og Sláturhúsi KVH um að greiða viðbótargreiðslu á lambakjötsinnlegg s.l. hausts,“ segir í tilkynningunni.