Landnámshólf ekki lengur riðusýkt svæði
Matvælastofnun aflétti um áramótin riðuhöftum í Landnámshólfi. Þá voru liðin 20 ár frá því að riðuveiki greindist þar síðast.
Sýkt svæði innan hólfsins töldust vera sveitarfélögin Ölfus, Hveragerði, Árborg og Grafningur í Grímsnes- og Grafningshreppi.
Samkvæmt upplýsingum á vef Matvælastofnunar markast varnarlínur hólfsins í norðri af Hvalfjarðarlínu, sem liggur úr Hvalfirði við Múlafjall um Hvalvatn að Kvígindisfelli að Brunnum við Uxahryggi í Hrúðurkarla við Þórisjökul. Að sunnan afmarkast hólfið af Hvítárlínu, sem er Ölfusá, Hvítá að Jökulfalli og síðan Jökulfall og Jökulkvísl að Blágnípujökli.
Að austan afmarkast hólfið af Sogs- og Bláskógalínu, sem er Sogið frá Ölfusá um Þingvallavatn og úr því um Ármannsfell í Hvalfjarðarlínu við Kvígindisfell.
Næst verður aflétt riðuhöftum af Biskupstungnahólfi. Ef ekki kemur upp staðfest tilfelli í hólfinu á þessu ári verður þeim aflétt um næstu áramót.