Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Arður frá Brautarholti á Landsmótinu 2016. Knapi er Sigurður V. Matthíasson.
Arður frá Brautarholti á Landsmótinu 2016. Knapi er Sigurður V. Matthíasson.
Mynd / GHP
Fréttir 22. janúar 2018

Landsmót hestamanna 2018

Höfundur: Þorvaldur Kristjánsson ábyrgðarmaður í hrossarækt
Landsmót hestamanna verður á félagssvæði hestamannafélagsins Fáks í Víðidal í ár, nánar tiltekið dagana 1.–8. júlí. 
 
Þessir fyrstu dagar júlímánaðar eru sannarlega tilhlökkunarefni, enda um stærstu hátíð Íslands­hestaheimsins að ræða og hef ég mikla trú á að metnaður aðstandenda mótsins og stórhugur muni skila okkur hestafólki frábæru móti.
 
Vallaraðstaða
 
Nú í haust hafa verið framkvæmdir við velli í Víðidalnum og ný braut til kynbótasýninga er að líta dagsins ljós. Hún hefur verið færð frá því sem var á síðasta landsmóti í Víðidal 2012 og er hún nú alveg upp við brekkuna fyrir neðan félagsheimilið, á sama stað og hún var á landsmóti 2000. Þetta er afar gott skref, færir hrossin nær áhorfendum og eykur því á upplifunina. Einnig hef ég trú á að brautin liggi nú betur við upphitunaraðstöðu knapa og staðsetningin skapi betra flæði hrossanna inn á völlinn.
 
Dómar kynbótahrossa á mótinu munu að sjálfsögðu allir fara fram á þessum velli, frá mánudegi til miðvikudags en einnig yfirlitssýningar á bæði hryssum og stóðhestum á fimmtudeginum og föstudeginum. Við þennan völl, í tengslum við félagsheimilið, er hugmyndin að Félag hrossabænda setji upp aðstöðu fyrir hrossaræktendur til að kynna sig og sína starfsemi. Þarna geti t.d. hrossaræktendur, aðrir aðilar með vörur eða þjónustu sem tengjast hrossarækt á einhvern hátt og WorldFengur sett upp kynningarbása eða aðra aðstöðu til ná sambandi við gesti mótsins og hugsanlega viðskiptavini framtíðarinnar. Einnig er hugmyndin að hrossaræktendur geti nýtt þá hesthúsaðstöðu sem er þarna rétt hjá til að vera með hross með sér til að sýna. Við þennan völl geti því skapast skemmtilegt andrúmsloft og verðmætur vettvangur fyrir hrossaræktendur þessa daga sem kynbótasýningarnar fara fram. 
 
Val kynbótahrossa
 
Að undangenginni umræðu í haust hefur Fagráð í hrossarækt ákveðið að halda sig við sama fyrirkomulag við val kynbótahrossa inn á mótið og var fyrir Landsmót 2016. Það verða því ekki einkunnalágmörk sem ákvarða þátttökurétt hrossa á mótinu heldur verður ákveðinn fjöldi efstu hrossa valinn í hverjum flokki. Ákveðið var að hnika aðeins til fjölda hrossa í nokkrum flokkum miðað við síðasta mót. Í ljósi umræðu, m.a. á aðalfundi Félags hrossabænda, var ákveðið að bæta við fimm hestum í flokki fjögurra vetra stóðhesta og einnig fimm hestum í elsta flokki stóðhesta. Þetta er gert þar sem háa aðaleinkunn þurfti til að vinna sér þátttökurétt í þessum flokkum á síðasta móti. Þá var einnig niðurstaðan að fækka fimm vetra hryssum um 5, úr 35 hryssum í 30. Því er miðað við að hafa 170 kynbótahross á mótinu núna, fjöldann í hverjum flokki má sjá í töflu hér að neðan.
 
 
Til að auðvelda bestu klárhrossum landsins að komast inn á mótið verður 10 stigum bætt við aðaleinkunn klárhrossa í sætisröðun hrossa inn á mótið en alhliða hross (hross með hærra en 5.0 fyrir skeið) fara með óbreytta aðaleinkunn inn í sætisröðun. Þetta þótti takast vel til síðast, fleiri afbragðs klárhross unnu sér þátttökurétt á mótinu en ella. Einnig var hlutfall klárhrossa á landsmóti 2016 ekki ósvipað því sem það er í kynbótasýningum almennt; klárhross eru á bilinu 22–25% af sýndum hrossum ár hvert og hlutfall klárhrossa á mótinu var 18%. Þegar kynbótasýningar byrja í vor verður birtur stöðulisti í WorldFeng sem sýnir hvaða hross eru inni á mótinu hverju sinni. Ef fleiri en eitt hross eru jöfn í síðasta sæti inn á mótið (til dæmis fleiri en ein hryssa í 15. sæti í flokki 7 vetra og eldri hryssna) þá er þeim öllum heimil þátttaka á mótinu. Eins verða eigendur hrossa sem vinna sér þátttökurétt á mótinu en ætla sér ekki að mæta með þau af einhverjum ástæðum beðnir um að láta vita fyrir ákveðna dagsetningu, þannig að hægt sé að bjóða hrossum sem eru neðar á listanum þátttöku á mótinu. Þá er hugmyndin að hafa úrvalssýningu kynbótahrossa á mótinu og bjóða þeim hrossum sem vinna sér ekki þátttökurétt á mótinu en búa yfir sérstökum úrvalseiginleikum þátttöku í þeirri sýningu. Nánari útfærsla á þessari hugmynd verður kynnt síðar.
 
Afkvæmahestar
 
Það er áhugavert að velta fyrir sér tilgangi Landsmóta og mikilvægi þeirra. Hvað kynbætur hestsins varðar eru Landsmót m.a. mikilvæg mælistika á framfarir í ræktun, þarna gefst fólki tækifæri til að sjá bestu hross hvers tíma og þau hross sem þarna koma fram eru líklegust til að skapa erfðaframfarir næstu kynslóða. 
 
Eitt skemmtilegasta dagskrár­atriði landsmóta er að skoða afkvæmahópa þeirra stóðhesta sem hljóta afkvæmaverðlaun á mótinu og fá tilfinningu fyrir erfðum þeirra. Það eru óvenju margir hestar sem eiga möguleika á afkvæmaverðlaunum þetta mótið. 
 
Fyrst er að telja þá hesta sem eiga möguleika á fyrstu verðlaunum fyrir afkvæmi en til að hljóta þau verðlaun verður hesturinn að hafa að lágmarki 118 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins og 15 dæmd afkvæmi. 
 
Sá hestur sem stendur efstur að stigum er Arion frá Eystra-Fróðholti en hann er með 131 stig og á níu dæmd afkvæmi. Arion er landsþekktur gæðingur undan Sæ og Glettu frá Bakkakoti. 
 
Þá er Skýr frá Skálakoti, undan Sólon frá Skáney og Vök frá Skálakoti en hann er með 126 stig og 13 dæmd afkvæmi og er því afar líklegur. 
 
Trymbill frá Stóra-Ási er svo með 124 stig og 10 dæmd afkvæmi. Trymbill er undan Þokka frá Kýrholti og heiðursverðlauna hryssunni Nótu frá Stóra-Ási. 
 
Næst er að telja Hákon frá Ragnheiðarstöðum með 121 stig og 13 dæmd afkvæmi. Hákon er undan Álfi frá Selfossi og Hátíð frá Úlfsstöðum og hefur verið að skila eftirtektarverðum afkvæmum í dóm, m.a. Ljósvaka frá Valstrýtu sem hlaut 10 fyrir tölt og stökk á síðasta landsmóti. 
 
Að lokum má nefna dæmi um Lukku-Láka frá Stóra-Vatnsskarði sem er með 124 stig og 8 dæmd afkvæmi, Hrannar frá Flugumýri með 124 stig og 9 dæmd afkvæmi og Storm frá Herríðarhóli með 118 stig og 14 dæmd afkvæmi. Þetta eru allt hestar sem eiga það mörg afkvæmi á tamningaraldri að ekki er ólíklegt að þeir nái tilskildum fjölda afkvæma í vor. Blær frá Hesti mátti taka við þessum verðlaunum á síðasta móti en hann er með 119 stig og 19 dæmd afkvæmi og spurning hvort hann haldi sínum stigum og mæti nú með hóp. 
 
Einnig má nefna hesta sem standa vel að stigum en eiga lengra í land með fjölda dæmdra afkvæma en það eru þeir Krókur frá Ytra-Dalsgerði, Sjóður frá Kirkjubæ og Jarl frá Árbæjarhjáleigu II. 
 
Þá eru þrír hestar sem standa vel til heiðursverðlauna fyrir afkvæmi en til að hljóta þau verðlaun verður hesturinn að hafa að lágmarki 118 stig í aðaleinkunn kynbótamatsins og 50 dæmd afkvæmi. 
 
Spuni frá Vesturkoti stendur efstur að stigum með 128 stig og 48 dæmd afkvæmi. Þessi fjöldi afkvæma hefur nánast allur verið að koma til dóms á árunum 2016 og 2017 sem er merkilegur árangur og gefur sterka vísbendingu um að hátt hlutfall afkvæma hans sé nýtilegur en það er mikilvægur mælikvarði á kynbótagildi.
 
Næst koma þeir Ómur frá Kvistum með 122 stig og 63 dæmd afkvæmi og Kiljan frá Steinnesi með 123 stig og 54 dæmd afkvæmi. Ómur er undan Víglundi frá Vestra-Fíflholti og Orku frá Hvammi og hefur verið að gefa afrekshross á síðastliðnum árum. Kiljan er undan Kletti frá Hvammi og Kylju frá Steinnesi, hann hefur gefið í á síðustu árum með mætingu afkvæma til dóms og hefur nú þegar skilað góðum fjölda frábærra hrossa.
 
Þá eru tveir hestar sem hafa ekki enn náð tilskildum fjölda afkvæma en eru ekki ólíklegir til að ná honum (sérstaklega sá fyrri) en það eru þeir Aðall frá Nýja-Bæ með 121 stig og 48 dæmd afkvæmi og Blær frá Torfunesi með 122 stig og 42 dæmd afkvæmi. Það er því ljóst að afkvæmasýningar á næsta landsmóti verða fjölbreyttar og áhugaverðar.
 
Listagæðingurinn Katla frá Ketilsstöðum vakti hughrif á Landsmóti 2016. Mynd / Gangmyllan
 

Listviðburðurinn Landsmót

Í aðdraganda Landsmóts verður mér hugsað til þeirrar keppni sem einkenna mótin. Við verðum ávallt að hafa í huga, hvort sem við erum áhorfendur, dómarar eða sýnendur, þau orð sem séra Friðrik Friðriksson hafði um alla keppni; að láta aldrei kappið bera fegurðina ofurliði. Þetta eru afar falleg orð og sígild. 
 
Sérstaklega verður mér hugsað til fegurðarinnar. Grunnurinn að öllu okkar starfi, hvort sem um er að ræða atvinnufólk í greininni eða áhugafólk í hestamennsku, verður ávallt að vera vísindaleg þekking á öllu sem viðkemur hestinum, hvort sem það er í tamningu, reiðmennsku eða almennu hestahaldi. Okkur ber siðferðisleg skylda til þess. En þegar því sleppir tekur listin við. Allt sem við erum í raun að gera með hestinn snýr að lífsfyllingu okkar sem mannvera. Ræktun hestsins snýst að miklu leyti um fegurðarsköpun, reiðmennska á háu stigi er list í sjálfu sér og því er talað um reiðlist. Öll samskipti okkar við hestinn má segja að sé list, vegna þeirrar lífsfyllingar sem þau geta gefið manni. Vegna þessa hef ég ávallt litið á Landsmót hestamanna sem listviðburð í sjálfu sér. Við erum stödd á viðburði þar sem ólíkar hestgerðir af miklum gæðum leika listir sínar; fegurð hestanna er list í sjálfu sér, samspil knapa og hests er list í sjálfu sér þegar best tekst til og allt í umbúnaði mótsins ætti að bera því vitni að um sjónarspil fegurðar sé að ræða.  Við ættum einnig að hafa það ávallt í huga að sönn fegurð getur ekki skapast nema hestinum líði vel, mýkt og gegnumflæði einkenni framgöngu manns og hests og að allt sem við viljum að hesturinn framkvæmi sé á hans forsendum. Landsmót hestamanna er sannkallað tilhlökkunarefni og við hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hlökkum til samstarfsins við hestamenn í vor og ekki síst á mótinu sjálfu.
Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...