Lögbýlum með greiðslumark fækkar
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Skráning MAST á stofnstærð sauðfjár skiptir miklu máli varðandi skrá um rétthafa greiðslumarks og stuðningsgreiðslu ríkisins við sauðfjárbændur. Sama gildir um skráningu á fjölda nautgripa og ýmsar aðrar stærðir í landbúnaði.
Á árinu 2014 voru beingreiðslur samtals 7.804 milljónir króna, þar af 5.439 m.kr. (5.298) vegna mjólkurframleiðslu og 2.365 m.kr. vegna sauðfjárframleiðslu. Jukust beingreiðslur í mjólkurframleiðslunni í krónum talið um 141 milljón milli ára en drógust saman í sauðfjárræktinni um 39 milljónir króna samkvæmt skýrslu MAST.
Á árinu 2014 var fjöldi lögbýla með skráð greiðslumark sauðfjár samtals 1.769, en voru 1.808 á árinu 2013. Lögbýli skráð með greiðslumark mjólkur voru 664 á árinu og hafði þá fækkað úr 672 eða um 8 frá árinu áður. Enginn framleiðandi lagði hins vegar inn greiðslumark til geymslu sem þýðir væntanlega að einhverjir hafa verið að bæta við sig.
Handhafar beingreiðslna á árinu vegna mjólkurframleiðslu 2014 voru 649 á móti 659 á árinu 2013. Í sauðfjárframleiðslu voru handhafar beingreiðslna 1751 á móti 1738 árið 2013. Samtals voru staðfestar 69 breytingar handhafa beingreiðslna, í fyrra en þær voru 86 árið áður. Þar af 17 vegna mjólkurframleiðslu, en þær voru 22 árið 2013. Vegna sauðfjárframleiðslu voru staðfestar 52 breytingar á síðasta ári en 64 árið áður.