Makríll útbreiddur við landið
Bráðabirgðaniðurstöður úr uppsjávarvistkerfisleiðangri rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar frá því fyrr í sumar sýna að magn og útbreiðsla makríls í íslenskri landhelgi er mun meira en undanfarin tvö sumur.
Leiðangurinn var hluti af IESSNS, International Ecosystem Summer Survey in the Nordic Seas, og alls tóku sex skip þátt í rannsókninni, sitt hvort skipið frá Íslandi og Færeyjum og fjögur frá Noregi.
Í leiðangrinum Árna Friðrikssonar var rannsökuð útbreiðsla og þéttleiki makríls, síldar og kolmunna í íslenskri landhelgi að undanskildum austurhluta hennar sem Færeyingar og Norðmenn rannsökuðu.
Teknar 48 togstöðvar kringum landið, gerðar sjónmælingar og sýni tekin í átuháfa á yfirborðstogstöðvum.
Mælingar á hitastigi sjávar sýna að hitastig í yfirborðslagi var álíka og sumarið 2021 og aðeins hlýrra en sumarið 2020.
Mikil útbreiðsla makríls
Bráðbirgðaniðurstöður sýna að magn og útbreiðsla makríls í íslenskri landhelgi er mun meira en undanfarin tvö sumur. Makríll fannst meðfram suður- og vesturströnd landsins, bæði á landgrunninu og utan þess. Fyrir sunnan fannst makríll í Íslandsdjúpi suður að 62 °N breiddargráðu en makríll hefur ekki fengist í þessum leiðangri svo sunnarlega síðan sumrið 2016.
Bráðabirgðaniðurstöður norsku og færeyska rannsóknaskipanna sýndu að makríl var einnig að finna austan við land.
Norsk-íslensk vorgotssíld
Líkt og undanfarin ár var norsk- íslenska vorgotssíld að finna á flestum togstöðvum fyrir norðan og austan landið og íslensk sumargotssíld á landgrunninu fyrir sunnan og vestan landið.
Kolmunni og hrognkelsi
Kynþroska kolmunni mældist við landgrunnsbrúnina sunnan og vestan við landið.
Magn og útbreiðsla hrognkelsa var minni í ár en undanfarin ár. Í leiðangrinum voru merkt alls 64 hrognkelsi.