Margir fullnýttu ekki kvótann
Á þriðja hundrað mjólkurframleiðenda uppfylltu ekki framleiðsluskyldu sína árið 2023.
Samkvæmt upplýsingum frá matvælaráðuneytinu voru mjólkurframleiðendur 498 á síðasta ári. Þar af voru 225 kúabændur sem fullnýttu ekki framleiðslurétt sinn. Ónotað greiðslumark þessara aðila var samtals 7.590.350 lítrar.
Þar sem hundrað prósent framleiðsluskylda hvílir á mjólkurframleiðendum munu beingreiðslur af ónotuðu greiðslumarki færast til þeirra sem framleiddu mjólk umfram sinn framleiðslurétt. Alls 273 kúabændur mjólkuðu meira en greiðslumark þeirra heimilaði, eða samtals 10.102.682 lítra umfram sinn kvóta. Eftir standa rúmlega tvær og hálf milljón lítra sem voru mjólkaðir umfram heildargreiðslumark í landinu og munu ekki fara til útjöfnunar.