Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Markaðsráð kindakjöts sækir um vernd fyrir „íslenskt lambakjöt“
Mynd / BBL
Fréttir 12. september 2017

Markaðsráð kindakjöts sækir um vernd fyrir „íslenskt lambakjöt“

Höfundur: smh
Markaðsráð kindakjöts hefur sótt um vernd fyrir afurðaheitið „Íslenskt lambakjöt“ (á ensku Icelandic Lamb).
 
Sótt er um á grundvelli laga frá 2014 um vernd afurðaheita sem geta vísað til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu – og er í tilviki Markaðsráðs kindakjöts sótt um vernd sem vísar til uppruna afurðanna. 
 
Neytendavernd og virðisauki
 
Tilgangur laganna er að vernda afurðaheiti til að stuðla að neytendavernd, auka virði afurða og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti. Íslensku lögin taka mið af reglugerð Evrópusambandsins um gæðakerfi fyrir landbúnaðarafurðir og matvæli. Verði umsókn markaðsráðs kindakjöts samþykkt á Íslandi verður sóst eftir sambærilegri vernd afurðaheitisins í Evrópusambandinu ásamt viðeigandi vottunarmerki. 
 
Í afurðalýsingu með umsókn Markaðsráðs kindakjöts kemur fram að Íslenskt lambakjöt er afurð af hreinræktuðum lömbum af íslensku sauðfjárkyni enda séu þau fædd og alin á Íslandi og slátrað um fjögurra til fimm mánaða gömlum. 
 
„Íslenska sauðfjárkynið er beinn afkomandi sauðfjár sem flutt var hingað til lands með landnámsmönnum fyrir um 1100 árum. Með aldalangri einangrun mótaðist sérstaða kynsins, bæði vegna náttúruúrvals og vegna krafna sem gerðar hafa verið til fjárins hér á landi á hverjum tíma. […]
Íslenska lambið eyðir ævi sinni utandyra og nærist ýmist á ræktuðu graslendi eða á úthaga. Algengt er að tveimur til fjórum vikum eftir burð sé stærstur hluti sauðfjárins rekinn í úthaga en í öðrum tilfellum nærast lömbin á ræktuðu graslendi. Þeir þættir sem hafa mest áhrif á vöxt og þrif lambanna eru næringargildi gróðurs, átgeta og fóðurnýting. Sauðfé bítur helst á frjósamari svæðum, graslendi og í mýrum. Ef sauðfé kemst í fjöru leitar það þangað til beitar, sérstaklega ef lélega beit er að hafa á landi. Bændur sækja lömbin á fjöll á haustin og eru þau rekin í réttir þar sem fé er dregið í sundur og komið til eigenda sinna. Sláturtíð hefst að jafnaði um mánaðamótin ágúst/september og lýkur um mánaðamótin október/nóvember. Haustlömbum er slátrað í hefðbundinni sláturtíð, eða frá 15. september til 1. nóvember og koma þau beint af úthaga eða ræktuðu landi. 
 
Aðstæður til matvælaframleiðslu eru að mörgu leyti sérstakar en kalt loftslag veldur því að hér er ekki þörf á að nota jafn mikið magn af varnarefnum í framleiðslu og víða annars staðar. Lítil mengun, gnægð grunnvatns og hreint loft skipta einnig miklu máli sem og lítil mengun beitarlanda, góð meðferð og aðbúnaður. Þar fyrir utan er framleiðslan undir ströngu regluverki, allt frá frumframleiðslu til vinnslu, pökkunar og sölu afurðarinnar. 
 
Bragðgæði íslensks lambakjöts má fyrst og fremst rekja til sauðfjárkynsins og þeirrar staðreyndar að lömbin alast upp í villtri náttúru Íslands. Kjötið ber þess merki að lambið hafi nærst á krydduðum jurtum og villigrösum en smávægilegan mun má greina á bragði kjöts af lambi sem gengið hefur á hálendi, láglendi eða við strendur. Í Norður-Evrópu er lömbum beitt á graslendi sem veldur því að kjötið verður bragðmeira en af lömbum frá Miðjarðarhafi sem eru alin á mjólk. 
 
Alþjóðlegar samanburðartilraunir á lambakjöti sem sýna mælingar á gæðaþáttum lambakjöts hafa verið íslenskum sauðfjárbændum hagstæðar. Sérstaða íslenska lambakjötsins felst samkvæmt rannsóknum fyrst og fremst í mikilli meyrni og villibráðarbragði. Talið er að meyrni og fíngerð áferð afurðarinnar sé vegna hás hlutfalls rauðra vöðvaþráða sem rekja megi m.a. til fjárkynsins og beitarvenja þess,“ segir meðal annars í lýsingu Markaðsráðs kindakjöts.
 
Matvælastofnun tilkynnti um umsóknina þann 22. ágúst síðastliðinn og er heimilt að andmæla vernd afurðaheitisins og afurðalýsingu til 22. október 2017. 

Vernd afurðaheita á Íslandi og í Evrópusambandinu

Í fjórðu grein laga um vernd afurðaheita sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu kemur eftirfarandi fram um skilyrði verndar sem vísar til uppruna. 
 
„Heimilt er að veita afurðaheiti, sem vísar til uppruna, vernd á grundvelli skráningar sam­kvæmt lögum þessum ef öll eftir­talinna skilyrða eru uppfyllt:
 
a. ef afurðin er upprunnin á tilteknu svæði, stað eða landi,
b. ef rekja má gæði eða eiginleika afurðar, verulega eða að öllu leyti, til staðhátta, að meðtöldum náttúrulegum og mannlegum þáttum, og
c. ef framleiðsla, vinnsla og tilreiðsla afurðar fer fram á hinu skilgreinda landsvæði.
 
Upprunavottunin PDO 
 
Vörur sem hljóta Protected designation of origin - PDO vottun  í Evrópusambandinu – þurfa að vera, að öllu leyti, framleiddar á þeim stöðum sem gefa hið sérstaka bragð og áferð.  
 
Staðir þurfa að vera landfræðilega afmarkaðir – í sumum tilfellum heilu löndin og gæði vörunnar er þá alfarið bundin við náttúru og menningu hins tiltekna svæðis.  Sérstaða vörunnar er þannig bæði vegna tiltekinna umhverfisaðstæðna en einnig þurfa að koma til hefðir svæðisins við framleiðslu vörunnar.
  • Frá tilteknu landsvæði – eða jafnvel tilteknu landi
  • Þar sem gæði og eing­inleikar ákvarðast af landsvæðinu – bæði náttúrulegum og menningarlegum þáttum. 
  • Þar sem hráefni, vinnsla og framreiðsla er alfarið bundið við afmarkað landsvæði.

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn
Fréttir 16. júlí 2024

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn

Olil Amble og Bergur Jónsson á Syðri-Gegnishólum hafa náð einstökum árangri í hr...

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...