Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Fréttir 30. nóvember 2015
Markmiðið að gera býlið að öruggari vinnustað
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Það kom mér ánægjulega á óvart hversu margir vildu fá mig í heimsókn, fyrirvarinn var nokkuð skammur, en greinilegt að bændur vilja almennt hafa hlutina í lagi hjá sér,“ segir Guðmundur Hallgrímsson, starfsmaður Búnaðarsambands Vesturlands.
Hann, í samvinnu við starfsmenn hjá Bændasamtökum Íslands, hefur unnið að bættu öryggi og vinnuvernd í landbúnaði. Guðmundur var á ferðinni í Eyjafirði í liðinni viku þar sem hann kom við á 18 bæjum, ræddi við ábúendur og fór yfir stöðu mála á hverju búi. Um er að ræða verkefni sem ber yfirskriftina Búum vel – öryggi – heilsa – umhverfi og beinir sjónum að öryggis- og vinnuverndarmálum bænda.
Öryggis- og vinnuverndarmál hafa verið ofarlega á baugi á bændafundum víða um land undanfarin misseri og kveðst Guðmundur finna ákveðinn meðbyr innan stéttarinnar þegar að þeim málaflokki kemur. „Mér finnst bændur jákvæðari en áður fyrr að gefa þessum málum gaum, ef til vill má rekja það til þess að slys heima á býlum eru því miður of mörg og nú þykir mönnum tími til kominn að spyrna við fótum,“ segir hann. Bændur hafa sjálfir frumkvæði að því að fá Guðmund í heimsókn til sín, hann fer á milli landshluta og kveðst reyna að safna saman nokkrum bæjum í hverju héraði og gera úr eina ferð.
Loftræsting, rafmagn og drifsköft
Guðmundur segir ferð sína um Eyjafjörð hafa gengið ágætlega og víðast hvar hafi ástand mála verið gott, „en það er alltaf eitthvað sem þarf að laga, það má alltaf gera betur,“ segir hann. Það sem helst var ábótavant tengist drifsköftum, eitthvað var um að hlífar um þau væru skemmd, stundum voru þau notuð á gömlum tækjum sem eru í lítilli notkun og þá ekki ofarlega á forgangslista bænda að bregðast við. „En það er auðvitað brýnt að hafa þessa hluti í lagi og bændur mættu gjarnan huga að ástandinu á sínum drifsköftum.“ Þá segir Guðmundur að sums staðar hafi loftræstingu verið ábótavant og eins sé í heimsókn hans farið gaumgæfilega yfir rafmagnsmálin og ljóst að í þeim efnum megi gera betur. Hann er með þar til gerða hitamyndavél og kannar með henni ástand á raftækjum og lögnum og komi eitthvað upp sem betur má fara kemur hann með tillögur til úrbóta sem ræddar eru við ábúendur.
Farið yfir fjölmörg atriði
Í heimsókn sinni fer hann yfir öryggismál á hverju búi fyrir sig, farið er í útihús og þá spjallar hann um vinnuaðstæður og aðbúnað þar, skoðar vélar og ástand þeirra og einnig er sjónum beint að því hvort hindranir geti verið á þeim leiðum sem farið er um daglega sem og einnig fallhætta. Þá fer Guðmundur yfir loftræstingu í húsunum, lýsingu, kannar brunavarnir og hvort útgangar séu greiðir bæði fyrir menn og skepnur. Eins skoðar hann og ræðir um ásýnd bæja, hvernig er umhorfs heima á hlaði og í hvaða ástandi girðingar eru.
„Það er farið yfir fjölmörg atriði og allt skráð niður. Það jákvæða er að ég finn ekki fyrir öðru en bændur vilji hafa þetta allt í eins góðu lagi og framast er unnt. Víðast hvar er ástandið gott og þarf lítið að gera til að það sé eins og best verður á kosið,“ segir Guðmundur.
Að vinnustaðurinn verði öruggari
„Tilgangur þessara heimsókna er ekki eftirlit, alls ekki, heldur vakir fyrir okkur að aðstoða bændur við að gera betur þegar að öryggis- og vinnuverndarmálum kemur heima á þeirra búi með það að markmiði að gera býlið öruggara sem vinnustað. Við erum ánægð með að viðtökur bænda eru jákvæðar og góðar, þessi mál eiga greinilega hljómgrunn í þeirra hópi og það er vel,“ segir Guðmundur. „Eftir heimsóknina förum við yfir listann, komum með tillögur að aðgerðum þar sem það á við þannig að bændur hafa þá færi á að bæta úr ef þörf er á og gera vinnustað sinn þar með öruggari, þeir geta lágmarkað hugsanlega hættu heima á sínu býli.“
Vinnuumhverfið oft erfitt og hættulegt
Hann segir að vinnuumhverfið sé fjölbreytt, oft erfitt og á stundum hættulegt. Vinnuálag sé mikið, mörg störf sem sinna þarf eru hrein og klár erfiðisvinna, loftmengun geti komið upp og þá starfi bændur mikið á vélum sem vissulega geti skapað hættu. „Bændur þurfa að ganga til verka hvernig sem viðrar og hvernig svo sem þeir eru upplagðir, þeir þurfa að ljúka sínum verkum á ákveðnum tíma. Það er mikilvægt að hafa varann á, hættulegar aðstæður, vanafesta og kæruleysi geta haft neikvæð áhrif á öryggi bændanna, aukið slysahættu við landbúnaðarstörf. Vel unnið áhættumat og að hafa þær hættur sem leynst geta við hvert fótmál í huga getur komið í veg fyrir slys,“ segir Guðmundur.
Hákon Bjarki Harðarson á Svertingsstöðum II:
Gagnlegt að fá Guðmund í heimsókn
„Við óskuðum eftir því að fá Guðmund til okkar til að skoða og fara yfir öryggismálin á búinu.
Einkum og sér í lagi svo hann gæti bent okkur á hvað betur mætti fara, hvað við gætum gert til að gera okkar vinnustað öruggari fyrir okkur sem á búinu vinnum en ekki síður fyrir börnin okkar og þá sem hingað koma í heimsókn,“ segir Hákon Bjarki Harðarson, bóndi á Svertingsstöðum II í Eyjafjarðarsveit.
Guðmundur Hallgrímsson heimsótti hann og eiginkonuna, Sólveigu Önnu Haraldsdóttur, í liðinni viku og fór yfir fjölmarga þætti er varða öryggi og vinnuvernd í landbúnaðarstörfum.
Hákon segir að líkt og tíðkist til sveita sé töluvert um gestagang á búinu, gjarnan séu börn með í för og langoftast sé farið út að skoða dýrin. „Það skiptir okkur miklu að allir fari heilir heim. Við viljum hafa hlutina í lagi.“
Hákon segir að heimsókn Guðmundar á Svertingsstaði hafi verið mjög gagnleg. „Það er nú þannig að maður venst því að hlutirnir séu eins og þeir eru og hugsar oft ekki út í að stundum þarf sáralitlu að breyta til að bæta öryggi, einfalda hlutina og gera eitthvað á auðveldari hátt. Guðmundur er líka þannig gerður að hann er alls óhræddur við að segja manni til, ef eitthvað er ekki alveg rétt þá upplýsir hann um það á skilmerkilegan máta,“ segir Hákon.