Markmiðið er að bæta öryggismenningu til sveita
Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Fræðsluefni um öryggismál og vinnuvernd verður dreift á öll lögbýli á næstu dögum. Markmiðið er meðal annars að efla öryggi og heilsu þeirra sem starfa í landbúnaði og fækka slysum.
Bæklingurinn „Öryggi og vinnuvernd í landbúnaði“ er þýddur og staðfærður úr norsku leiðbeiningaefni. Í honum eru meðal annars kaflar um brunavarnir, dráttarvélar, slysavarnir, heilsufar, búfjársjúkdóma og varnir gegn þeim. Þá er stuttur kafli í ritinu sem fjallar um mikilvægi ásýndar búsins og góðrar umgengni.
Búum vel
Á síðustu þremur árum hafa Bændasamtökin í samvinnu við búnaðarsambönd rekið vinnuverndarverkefnið „Búum vel“. Guðmundur Hallgrímsson á Hvanneyri hefur heimsótt á annað hundrað bændur og farið yfir öryggis- og vinnuverndarmálin með þeim. Tillögur til úrbóta voru ræddar við bóndann og sett markmið um viðbrögð. Eftir heimsóknirnar er unnið úr upplýsingunum hjá BÍ og útbúin skýrsla sem send er til bóndans.
Áfram verður boðið upp á úttektir á búum á þessu ári en fyrir þær greiða bændurnir kr. 7.500.
Vátryggingafélag Íslands hefur stutt dyggilega við bakið á vinnuverndarverkefninu og Framleiðnisjóður komið að þróun þess. Þeir sem hafa áhuga á að fá heimsókn og fara yfir þennan mikilvæga málaflokk er bent á að hafa samband við sitt búnaðarsamband.
Nýi vinnuverndarbæklingurinn verður sem fyrr segir sendur til bænda á næstu dögum en hann er jafnframt aðgengilegur á vef Bændasamtakanna, bondi.is.