Matarsóun hvers íbúa 160 kíló
Talið er að matarsóun á Íslandi á árinu 2022 hafi verið rúmlega 60.000 tonn. Matarsóun hvers og eins íbúa landsins jafngildir 160 kílóum á ári, sem er þó undir Evrópumeðaltali.
Í frétt Umhverfisstofnunar má lesa um niðurstöður mælinga sem gerðar voru á matarsóun hérlendis en niðurstöðurnar voru birtar á alþjóðlegum degi Sameinuðu þjóðanna gegn matarsóun, þann 29. september sl.
Í fréttinni kemur fram að þetta er í fyrsta sinn sem mæld hefur verið matarsóun í allri virðiskeðju matvæla hérlendis eftir staðlaðri aðferðafræði Evrópusambandsins.
Á það við allt frá frumvinnslu matvæla til vinnslu, framleiðslu, dreifingu og smásölu matvæla, til veitingahúsa, matarþjónustu og heimilanna í landinu.
Sóun heimilanna dýrust
Sóunin er mest í frumframleiðslu, eða því sem nemur 29.000 tonnum, en minnsta sóunin á sér stað við vinnslu og framleiðslu, um 1.600 tonn. Heimili landsins sóa næstmest, eða tæplega 24.000 tonnum. Ekki er þó talið að matarsóun heimilanna hafi aukist milli ára heldur standi nokkuð í stað.
Vegna hækkandi vöruverðs matvæla er talið mikilvægast að ná tökum á sóun heimilanna því þar er talið að mestu verðmætin tapist. Auk þess eru umhverfisáhrifin sem hljótast af sóun heimilanna mest.
Markmið íslenskra stjórnvalda er að minnka matarsóun hérlendis um 30% fyrir árið 2025 og um 50% fyrir árið 2030. Markmiðin eru hluti af áætlun varðandi loftslagsmál sem og hluti af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna gegn matarsóun. Árið 2021 var sett á laggirnar aðgerðaáætlun hérlendis sem ber heitið „Minni matarsóun“ og inniheldur 24 aðgerðir sem eiga að stuðla að því að þessum markmiðum verði náð.
Atvinnulífið taki virkari þátt
Þó nokkrar aðgerðir hafa nú þegar verið framkvæmdar eða eru í framkvæmd en aðgerðaáætlanirnar eru bæði á ábyrgð stjórnvalda og atvinnulífsins. Matvælaráðuneytið hefur falið Umhverfisstofnun að hefja tvær nýjar aðgerðir í baráttunni við matarsóun. Sú fyrri snýr að auknu samstarfi milli atvinnulífs og stjórnvalda um að ná niður matarsóun og virkja atvinnulífið til enn frekari þátttöku. Sú seinni snýr að því að auka menntun og fræðslu í landinu um matarsóun og hringrásarhagkerfið.
Í tilkynningu frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni ráðherra að íslensk stjórnvöld vilji vera í fararbroddi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og að lágmörkun matarsóunar sé mikilvægur liður í að ná þeim árangri.