Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Matvælaöryggi, heilbrigðismál, neytendamál og dýravelferð stöðugt í brennidepli
Fréttir 1. ágúst 2017

Matvælaöryggi, heilbrigðismál, neytendamál og dýravelferð stöðugt í brennidepli

Höfundur: Vilmundur Hansen

Í starfsskýrslu Matvælastofnunar 2016 er farið yfir starfssvið og helstu verkefni stofnunarinnar, rekstur og fjármál. Auk þess er í sérköflum fjallað um matvælaöryggi og neytendamál, heilbrigði og velferð dýra, inn- og útflutning, sjúkdóma og sýkinga sem beint eða óbeint geta smitast náttúrulega milli manna og dýra og búnaðarmál.

Í skýrslunni kemur fram að í ársbyrjun 2016 hafi Matvælastofnun tekið yfir hluta stjórnsýsluverkefna frá Bændasamtökum Íslands og við það fluttust nokkur störf yfir til Mast. Að öðru leyti var reksturinn nokkuð hefðbundinn ef frá eru taldar töluverðar launahækkanir í kjölfar gerðardóms sem komu til framkvæmda á árinu. Reksturinn gekk ágætlega þrátt fyrir aukinn launakostnað og áframhaldandi hagræðingu og nam tap af starfseminni um 9,9 milljónum króna. Framlag ríkisins jókst úr 1,033,9 milljónum árið 2015 í 1,118,8 milljónir árið 2016 og voru tekjur nánast á pari við síðasta ár og námu 408,5 milljónum króna.

Matvælaöryggi og neytendamál

Í skýrslunni kemur fram að reglulega séu tekin sýni af ávöxtum, grænmeti og kornvörum vegna varnarefnaleifa, búfjárafurðum og eldisfiski vegna aðskotaefna og lyfjaleifa og fóðri til greiningar á aðskotaefnum og örverum.

Niðurstöðurnar sýna að íslenskar afurðir eru heilnæmar og öruggar hvað varðar óæskileg efni eins og  lyfjaleifar og varnarefni.

Heilbrigði og velferð dýra

Samkvæmt skýrslunni eru smitsjúkdómar í dýrum flokkaðir í þrjá flokka. Flokkunin byggir á alvarleika sjúkdómanna. Eftirlit með sjúkdómunum er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða vakandi augu dýraeigenda, dýralækna og annarra sem umgangast dýr, hins vegar eru reglubundnar sýnatökur.

Við ákvörðun um hvaða sjúkdóma þarf að vakta með reglubundnum sýnatökum er meðal annars tekið mið af reglum Alþjóða dýraheilbrigðisstofnunarinnar, kröfum viðskiptalanda, mögulegum smitleiðum og sjúkdómastöðu í nágranna- og viðskiptalöndum.

Árið 2016 var hefðbundin riða staðfest á tveimur sauðfjárbúum á N-Vesturlandi. Á N-Austurlandi varð vart við aukningu á vöðvasulli í sauðfé, en ormurinn lifir í hundum og refum og gæti ástæðan verið misbrestur á bandormahreinsun hunda.

Í kjölfar greiningar á heila­hrörnunarsjúkdómnum hjartarriðu í Noregi í elg og hreindýrum voru tekin nokkur sýni úr hreindýrum hér á landi og reyndust þau öll neikvæð.

Aukin umfjöllun fjölmiðla um velferð dýra skilar sér í aukinni meðvitund almennings um dýrahald hér á landi og hefur átt sér stað mikil vitundarvakning í þessum málaflokki undanfarin misseri og fólk hikar ekki við að senda inn ábendingar ef upp kemur grunur um illa meðferð. Enginn vafi leikur á því að þetta skilar sér í bættri meðferð dýra og styður óbeint við aðgerðir Matvælastofnunar þegar beita þarf þvingunum.

Umfjöllun RÚV síðla ársins um viðvarandi slæma meðferð varphæna hjá fyrirtækinu Brúneggjum ehf. vakti sterk viðbrögð hjá almenningi.

Inn- og útflutningur matvæla

Eftirlit með innflutningi dýraafurða og annarra matvæla er háð því hvaðan vörurnar koma. Vörur sem fluttar eru inn frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, svokölluðum þriðju ríkjum, þurfa að uppfylla skilyrði um eftirlit með innflutningi á dýraafurðum frá ríkjum utan EES. Þessar sömu kröfur eru gerðar til innflutnings frá þriðju ríkjum í öllum löndum Evrópusambandsins. Á milli landa Evrópusambandsins eru þessar vörur í frjálsu flæði. Þó gilda sérstök skilyrði um innflutning hrárra dýraafurða til Íslands sem byggja á íslenskri dýrasjúkdómalöggjöf.

Matvælastofnun fer með eftirlit með innflutningi matvæla og fóðurs og er framkvæmdin að hluta til í nánu samstarfi við heilbrigðiseftirlit sveitafélaga.

Vissar tegundir grænmetis og kryddjurta frá Víetnam og Taílandi eru undir ströngu innflutningseftirliti vegna varnaefnaleifa og tekin eru 20% af sendingum til ástandskoðunar og sýnatöku.

Matvælastofnun og tollgæslan hafa tekið þátt í nokkur ár í alþjóðlegum aðgerðum gegn innflutningi og sölu á fölsuðum og ólöglegum matvælum og drykkjum. Samstarfsverkefnið er með fjölda ríkja í Evrópu og öðrum löndum og skipulagt af Europol og Interpol.

Árið 2016 var sérstök áhersla lögð á skoðun á innflutningi á fæðubótarefnum og stóðu aðgerðir á Íslandi í fjóra mánuði.

Markaðsstofa Matvælastofnunar annast rekstur landamærastöðva og eftirlit með innflutningi dýraafurða til landsins frá þriðju ríkjum og þar með inn á Evrópska efnahagssvæðið. Innflutningseftirlit með dýraafurðum tekur til hvers kyns afurða úr dýraríkinu, sem dæmi má nefna matvæli, fiskimjöl og fóður, lýsi, dýrafeiti, býflugnavax, hunang, óunnin skinn, ull og veiðiminjar. Eftirlitið felst í skoðun skjala sem þurfa að fylgja vörunni, auðkenningu vörunnar, hvort merkingar séu réttar samkvæmt meðfylgjandi skjölum og síðan heilnæmisskoðun sem felur meðal annars í sér hitastigsmælingar, skynmat og sýnatöku til rannsókna.

Matvælastofnun sér einnig um verkefni er lúta að plöntuheilbrigði og gæðum sáðvöru. Af þeim vöruflokkum má nefna plöntur og plöntuafurðir svo sem afskorin blóm og greinar, jólatré, blómlauka, græðlinga, smáplöntur, pottaplöntur, garðplöntur, útsæðis- og matarkartöflur, trjávið og viðarumbúðir, mold til ræktunar og fræ.

Auk þess er fylgst með innflutningi smádýra til lífrænna varna í garðyrkju.

Útgáfa heilbrigðisvottorða vegna útflutnings sjávar- og búfjárafurða er í höndum Matvælastofnunar en heilbrigðiskröfur eru ákvarðaðar af viðkomandi móttökulöndum. Ekki er krafist vottorða vegna útflutnings dýraafurða til landa innan EES þar sem framleiðslan hérlendis fer fram samkvæmt matvælalöggjöf Evrópusambandsins.

Útgáfa heilbrigðisvottorða vegna útflutnings dýra er einnig í höndum Matvælastofnunar en heilbrigðiskröfur eru ákvarðaðar af viðkomandi móttökulöndum.

Sjúkdómar og sýkinga - Súna

Súna er skilgreind sem allar tegundir sjúkdóma og eða sýkinga sem beint eða óbeint geta smitast náttúrulega milli manna og dýra. Súnuvaldur veldur súnu og er hann skilgreindur sem allar tegundir veira, baktería, sveppa, sníkla eða annarra líffræðilegra eininga sem líkur eru á að valdi súnu.

Hér á landi er í gildi reglugerð um vöktun súna og súnuvalda

Tilgangur reglugerðarinnar er að sjá til þess að súnur og súnuvaldar og tengt þol þeirra gegn sýklalyfjum sé vaktað á réttan hátt og tilhlýðileg faraldsfræðileg rannsókn fari fram þegar matarbornir sjúkdómar koma upp. Rannsóknin er gerð í þeim tilgangi að safna upplýsingum sem eru nauðsynlegar til þess að finna uppruna súnuvaldsins sem olli sýkingunni og meta leitni sýkinga yfir tíma.

Einnig er í gildi reglugerð  um varnir gegn salmonellu og öðrum tilteknum smitvöldum mannsmitanlegra dýrasjúkdóma sem berast með matvælum. Þessi reglugerð innleiðir reglugerð Evrópusambandsins um sama efni auk þess sem hún inniheldur nokkur séríslensk ákvæði.

Í skýrslunni er að finna ítarlega umfjöllum um sýkingar vegna salmónellu, kampýlóbakter, E. coli og listeríu í mönnum og nytjadýrum. Auk þess sem greint er frá mikilvægi þess að safna upplýsingum um sýklalyfjaóþol súnuvalda.

Búnaðarmál

Fyrsta júlí 2015 voru stjórnsýslu­verkefni í tengslum við búvöru­samninga milli ríkis og bænda færð frá Bændasamtökum Íslands til Matvælastofnunar. Þann 1. janúar 2016 í kjölfar breytingar á skipuriti Matvælastofnunar hóf skrifstofa búnaðarmála starfsemi.

Skrifstofa búnaðarmála fer með stjórnsýslu­verkefni í tengslum við búvörusamninga og búnaðarlaga­samning ríkis og bænda í samræmi við búvöru- og búnaðarlög. Hún annast fag- og fjárhagslega framkvæmd verkefna á sviði landbúnaðar sem snúa að framkvæmd á stjórnvaldsákvörðunum um opinberar greiðslur til bænda, útreikningi, afgreiðslu og eftirliti með framkvæmd þeirra. Skrifstofan fer einnig með verkefni við öflun hagtalna og upplýsinga um fóðurbirgðir á býlum. Þá safnar hún upplýsingum og birtir árlega ­skýrslu um framleiðslu búvara, vinnslu þeirra og sölu og gerir áætlanir um framleiðslu og sölu búvara. 

Skylt efni: Mast | starfsskýrsla

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...