Meðalnyt á Búrfelli var rúm 8,9 tonn á árinu 2021
Annað árið í röð reyndist mest meðalnyt eftir árskú vera hjá Guðrúnu Marinósdóttur og Gunnari Þór Þórissyni á Búrfelli í Svarfaðardal. Nyt eftir árskú endaði þar í 8.908 kg á árinu 2021, sem er aukning um 329 kg frá fyrra ári.
Á Búrfelli er að finna legubásafjós með mjaltaþjóni sem tekið var í notkun vorið 2018. Frá þeim tíma hafa afurðir aukist jafnt og þétt og sér í raun ekki fyrir endann á því, er fram kemur í niðurstöðum skýrsluhaldsársins 2021 hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins.
Annað í röð afurðahæstu búa landsins er kunnuglegt á þeim lista en þar er um að ræða bú þeirra Guðlaugar Sigurðardóttur og Jóhannesar Eybergs Ragnarssonar á Hraunhálsi í Helgafellssveit á norðanverðu Snæfellsnesi. Árin 2018–2020 var þetta bú með þriðju mestu afurðir eftir árskú á landinu, en færist nú í annað sætið. Þar á bæ mjólkaði meðal árskýrin 8.664 kg, sem er aukning um 307 kg. Fjósið á Hraunhálsi er básafjós með rörmjaltakerfi og öll umgengni og snyrtimennska utan dyra sem innan til algjörrar fyrirmyndar.
Þriðja afurðahæsta bú ársins 2021 er bú Guðjóns Björnssonar og Helgu Bjargar Helgadóttur á Syðri-Hömrum 3 í Ásahreppi en þar reyndust afurðir kúnna nema 8.446 kg mjólkur eftir hverja árskú. Á Syðri-Hömrum er legubásafjós með mjaltaþjóni og síðan það var tekið í notkun hafa afurðir tekið stórstígum breytingum.
Í fjórða sæti varð búið í Dalbæ í Hrunamannahreppi en þar er félagið Dalbær 1 ehf. skráð fyrir rekstri. Kýrnar í Dalbæ skiluðu 8.342 kg/árskú á nýliðnu ári. Þar er að finna legubásafjós með mjaltabás.
Fimmta búið í röð afurðahæstu búa er bú Hákonar Bjarka Harðarsonar og Þorbjargar Helgu Konráðsdóttur á Svertingsstöðum 2 í Kaupangssveit, Eyjafirði, en þar skiluðu kýrnar 8.337 kg/árskú. Á Svertingsstöðum er legubásafjós með mjaltaþjóni.
Nythæsta kýr landsins 2021 mjólkaði 13.760 kg
Nythæsta kýrin á landinu árið 2021 var Skör 1003 í Hvammi í Ölfusi. Skör mjólkaði 13.760 kg með 3,87% fitu og 3,28% próteini.
Önnur í röðinni árið 2021 var Ríkey 691 í Stóra-Dunhaga í Hörgársveit, en því miður féll hún frá nú rétt fyrir síðustu jól. Ríkey mjólkaði 13.612 kg með 3,54% fitu og 3,32% próteini en sínum öðrum kálfi bar hún 12. febrúar 2021. Hún fór hæst í 52,6 kg dagsnyt á árinu 2021 en skráðar æviafurðir hennar eru 23.427 kg.
Þriðja nythæsta kýrin var Bára 523 í Flatey á Mýrum við Hornafjörð. Nyt hennar á árinu var 13.517 kg með 3,92% fitu og 3,30% próteini.
Sjá nánar bls. 52 og 53 í nýju Bændablaði.