Mest plastmengandi fyrirtækin í heiminum þriðja árið í röð
„Núll árangur“ er sagður vera í viðleitni fyrirtækjanna Coca-cola, Pepsi og Nestlé í að draga úr plastmengun. Coca-Cola er sagt mest plastmengandi fyrirtæki í heimi samkvæmt ársskýrslu Break Free From Plastic sem eru alþjóðleg samtök sem berjast gegn plastmengun.
Samkvæmt skýrslunni fannst mest af plastumbúðum undan Coca-Cola á víðavangi eins og í fjörum, við árbakka og víðar í könnun sem náði til 55 landa og á síðasta ári voru plastumbúðir unda Kók algengasta plastruslið í 37 löndum af 51 sem könnunin náði til.
Samkvæmt talningu fundust við síðustu talningu 13.834 plastflöskur undan Coca-Cola en 5.155 flöskur undan
drykkjum frá PepsiCO og 8.633 frá Neslé. Vert er að velta fyrir sér í þessu sambandi að vinsældir drykkjanna í löndunum sem talningin nær til getur haft áhrif á niðurstöðuna og svo hitt að hugsanlega eru þeir sem drekka Coca-Cola meiri umhverfissóðar en aðrir þótt slíkt sé umdeilanlegt.
Um 15 þúsund sjálfboðaliðar tóku þátt í talningunni og alls fundust 346.494 plastumbúðir og af þeim voru 63% merktar framleiðanda.
Fyrr á þessu ári var talsverð umræða um stefnu Coca-Cola, PepsiCo, Nestlé og Unilever í umhverfismálum þegar greint var frá því að árleg mengun af völdum drykkjaríláta fyrirtækjanna væri um hálf milljón tonn í sex þróunarlöndum. Magnið er sagt nóg til að þekja 83 knattspyrnuvelli á hverjum degi.