Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Forsetinn talar ákveðið fyrir sæstreng til útlanda.
Forsetinn talar ákveðið fyrir sæstreng til útlanda.
Fréttir 18. maí 2015

Mikil áhersla lögð á hugmyndir um lagningu sæstrengs

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Landsvirkjun verður fimmtíu ára í júlí á þessu ári. Fyrirtækið var stofnað árið 1. júlí árið 1965, í kringum byggingu Búrfellsvirkjunar. Haldið var upp á þessi tímamót á aðalfundi fyrirtækisins í Elborgarsal Hörpu þann 5. maí síðastliðinn.

Reikningar Landsvirkjunar og úttekt matsfyrirtækisins Moody’s sýna að staðan og horfur í rekstri fyrirtækisins eru góðar. Greinilegt er að Hörður Arnarson forstjóri og hans fólk er að gera góða hluti með þetta fyrirtæki allra landsmanna. Hefur Moody’s breytt horfum á lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar úr stöðugum í jákvæðar.

Landsvirkjun hefur skilað arði í ríkissjóð og í orðum forstjórans á aðalfundinum er ekki annað að heyra en vænta megi mun meiri arðgreiðslna á komandi árum.

Bjarni Benediktsson fjármála­ráðherra varpaði á fundinum fram hugmynd um stofnun orkuauðlindasjóðs (Fullveldissjóð) í líkingu við norska olíusjóðinn. Talið er að í hann geti farið að renna á komandi árum allt að 10 til 20 milljarðar króna á ári í formi arðgreiðslna frá Landsvirkjun.

Góður árangur

Matsfyrirtækið Moody’s hefur breytt horfum á lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar úr stöðugum í jákvæðar. Að mati Moody´s endurspeglar sú breyting þann árangur sem náðst hefur í að styrkja stoðir fyrirtækisins og að bæta fjárhagslegan styrkleika.

Þeir jákvæðu þættir sem hafa áhrif á einkunnagjöf Moody’s eru: Sterk staða á orkumarkaði, hagkvæm endurnýjanleg orka og jafnt sjóðstreymi. Þeir þættir sem koma í veg fyrir enn betri einkunn að svo stöddu eru: Há skuldsetning, fámennur hópur viðskiptavina, tenging við álverð í raforkusölusamningum, gjaldeyrisáhætta og hlutfall breytilegra vaxta í lánasafninu.

Moody’s bendir að sama skapi á að fjárhagsleg staða fari stöðugt batnandi og góður árangur sé að nást í að draga úr fjárhagslegri áhættu. Sérstaklega er minnst á þann árangur sem náðst hefur við að draga úr álverðsáhættu með endursamningi við álver RTA í Straumsvík, með áhættuvarnarsamningum og með samningum við nýja aðila. Þá nefnir Moody’s jákvæð áhrif þeirrar vinnu fyrirtækisins við að draga úr gjaldmiðla- og vaxtaáhættu í lánasafninu.

Sagði Hörður þetta vera góðar fréttir fyrir Landsvirkjun og mikilvægt skref í að bæta aðgengi fyrirtækisins að alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Veðjað á sæstreng

Greinilegt var í orðum allra ræðumanna á fundinum, einnig ræðu forseta Íslands og fjármálaráðherra, að búið er að móta skýra stefnu innan fyrirtækisins um lagningu á sæstreng til raforkusölu til Bretlands. Allt er það þó sagt vera með fyrirvara um „að samstaða náist meðal þjóðarinnar“. Ekki var samt annað að skilja í máli ræðumanna en að sæstrengur væri í raun lykillinn að gósentíð í framtíð fyrirtækisins og ríkisins í heild. Má á því sjá að talsmönnum fyrirtækisins hefur tekist vel að reka áróður fyrir sæstrengshugmyndinni.

Ekkert var þó talað um í ræðum á fundinum hvernig það geti farið saman að virkja sem minnst og selja rafmagn sem nemur orku frá einni Kárahnjúkavirkjun til útlanda. Hvað þá að það sé gert í ljósi þeirrar staðreyndar að Landsvirkjun annar vart í dag aukinni eftirspurn eftir raforku á innanlandsmarkaði. Nær ekkert var heldur minnst á að sala raforku um sæstreng til útlanda mun, vegna milliríkjasamninga, hækka orkuverð til almennings hér á landi og íslenskra fyrirtækja, líkt og gerðist í Noregi. Ekki heldur hvað verði um íslenska garðyrkju ef gróðrarstöðvarnar þurfa mögulega að fara að greiða mun hærra orkuverð en nú er.

Þrátt fyrir þessa miklu ágalla í málflutningi áhugasamra um sæstreng, verður því vart mótmælt að rétt sé að skoða kosti þess og galla fyrir Ísland að selja orku um slíka tengingu. Þegar það er gert er samt nauðsynlegt að allar upplýsingar séu uppi á borðum og kostir og gallar kynntir almenningi með skýrum hætti. Að menn segi sannleikann.

Forsetinn talar ákveðið fyrir sæstreng til útlanda

Ræða Ólafs Ragnars Grímssonar forseta á fundinum var mjög ótvíræð um mikilvægi lagningar sæstrengs og vakti hún því sérstaka athygli. Forsetinn sagði m.a. að Landsvirkjun gæti með stolti litið yfir farinn veg og fagnað á þessum tímamótum um leið þeim fjölþættu tækifærum sem móta daglega önn þeirra sem starfa í fyrirtækinu. Varla er þó hægt að segja annað en að sú jákvæða mynd sem hann dró upp af sæstrengslagningu hafi stangast á við þau orð hans í ræðunni að eftirspurnin eftir orku væri nú mun meiri en Landsvirkjun gæti annað. Allavega ef tekið er tillit til þess að lýst hefur verið yfir að sæstrengur þyrfti aðgang að afli sem skilar meiri orku en hægt er að kreista út úr Kárahnjúkavirkjun. Um sæstrenginn sagði forsetinn síðan:

Segir mikinn áhuga meðal evrópskra lífeyrissjóða

„Á afmælisárinu er staðan hins vegar sú að kaupendur knýja dyra, iðjuverin sem hér hafa starfað og ný framleiðslufyrirtæki sem og gagnaverin sem vaxa ört og önnur sem vilja koma hingað; stjórnvöld í Bretlandi bjóða jafnvel bæði tryggingar og til muna hærra orkuverð ef sæstrengur til Íslands yrði liður í lausn á þeirra brýna orkuvanda; sæstrengur sem norrænir og evrópskir lífeyrissjóðir ásamt alþjóðlegum fjárfestum vilja gjarnan eiga.“

Án nokkurrar stórvirkjunar

„Nú þegar hafa Norðmenn lagt nokkra sæstrengi til Danmerkur og var sú tenging helsta ástæða þess að Apple valdi fyrir skömmu Jótland fyrir hið stóra gagnaver. Sæstrengurinn frá Noregi til Hollands hefur á fáeinum árum reynst til muna arðbærari en flestir töldu og því gerðu Norðmenn nýlega samninga við bæði Þýskaland og Bretland um nýja sæstrengi. Rafmagnið bæði selt og keypt án þess að nokkur stórvirkjun yrði reist í Noregi  [feitletrun blm] en tekjurnar engu að síður veigamiklar viðbætur við þjóðarauð Norðmanna; strengirnir líka nauðsynleg styrking á orkuöryggi landsins og trygging um aðgang að orku frá öðrum löndum við áföll á heimaslóð eða hamfarir í náttúrunni.“

Áhugi Breta

„Hin nýju þáttaskil sem blasa við á afmælisári Landsvirkjunar; hraður vöxtur gagnavera, gríðarlegt magn nýrra upplýsinga og gagna sem bætist við á hverju ári, óskir um að reisa hér fleiri iðjuver sem og reynsla Norðmanna og annarra Evrópuþjóða af sölu rafmagns um sæstrengi, áhugi breska ríkisins á slíkum viðskiptum við Íslendinga og hugsanleg samtenging Íslands og Grænlands, vatnsorkan arðvænleg auðlind okkar góðu granna í vestri, sýna ásamt reynslunni af fyrstu vindmyllunum hér á landi – þær nær tvöfalt hagkvæmari en í Evrópu – að fram undan getur verið nýtt og glæsilegt vaxtarskeið þjóðinni til heilla ef við berum gæfu til að vanda verkin og varðveita samstöðuna.

Gleymum því aldrei að Landsvirkjun er þjóðareign, byggð í senn á nýtingu auðlinda Íslendinga og virðingu okkar fyrir tign og margbreytileika náttúrunnar; getur áfram verið í fararbroddi framfarasóknar. Sú vegferð þarf þó að byggja á samstöðu um þessa dýrmætu sameign þjóðarinnar og á virðingu fyrir fegurð landsins, gróðursvæðum og öræfum sem eru svo samgróin sjálfsmynd okkar,“ sagði forsetinn.

Röksemdafærsla á ansi gráu svæði

Í orðum forsetans er bent á ýmsa þætti sem styrkja eiga rökin fyrir sæstrengslagningu. Ljóst má vera að ef þessi kostur reynist eins góður og af er látið, þá verður strengurinn eflaust lagður. Samlíkingin við Noreg hlýtur þó að teljast mjög vafasöm í ljósi þess að Ísland hefur engar hringtengingar á raforku við útlönd.

Vitnað hefur verið til þess, m.a. hér í Bændablaðinu, að þegar Norðmenn hófu að selja rafmagn um strenginn til Hollands þá hafi þeir gengið mjög á uppistöðulón sín. Þá kom tenging þeirra við Svíþjóð í góðar þarfir og var t.d. orka frá kjarnorkuverum notuð til að brúa bilið yfir köldustu mánuðina með tilheyrandi verðsprengingu á orku til Norðmanna. Svíar eiga sex kjarnorkuver sem koma Norðmönnum til góða og eins geta kola- eða olíukynntu orkuver Dana hjálpað til líka ef svo ber undir. Talið um hreina orku Norðmanna um sæstreng ætti því að minnsta kosti að setja í gæsalappir. Vegna þessarar stöðu og tengingar við nágrannaþjóðir hafa Norðmenn ekki þurft að virkja sérstaklega fyrir sölu um sæstreng. Staða Norðmanna er því að þessu leyti allt önnur en Íslendinga.

Reyndar má benda á að nú þegar er farið að gera ráð fyrir hlutdeild kjarnorku í orkureikningum á Íslandi þó hér sé ekkert kjarnorkuver. Ætli það sé einhver tilviljun? 

Miðað við stöðu Norðmanna er það vart fyrr en farið yrði að framleiða rafmagn á Grænlandi til sölu um sæstreng til Íslands og þaðan áfram út, sem viðlíka eða betri staða næðist hér. Engin áform eru hins vegar uppi um slíkt svo vitað sé.

Þá er algjörlega ósvarað hvernig Landsvirkjun hyggst mæta aukinni eftirspurn eftir rafmagni á íslenskum markaði, samfara því að tryggja næga orku fyrir sæstreng. Þar bíða við dyrnar kísilver, möguleg gagnaver, aukin rafvæðing í fiskiðnaði, garðyrkju og fleira.

Athyglisvert tal um ónýttu orkuna

Allt tal um að hér sé á sveimi ónýtt raforka í kerfinu sem þurfi að koma í verð er í besta falli hálfsannleikur. Það er aldrei hægt að tappa allri orku af kerfinu svo lengi sem menn ætla að halda því gangandi. Það verður því alltaf til staðar í kerfinu ónýtt orka á öllum tímum þó vissulega mætti ná betri nýtingu kerfisins utan álagstíma og fá fyrir það pening.

Á vefsíðu fyrirtækisins Askja Energy kemur fram að sæstrengur frá Íslandi til Skotlands myndi að öllum líkindum þurfa 600 til 1.000 megawött. Einnig hafa verið nefndar tölur um 900 og 1.200 megawött og jafnvel meira því að orkuþörfin í Evrópu er mikil. Til samanburðar er uppsett afl Fljótsdalsvirkjunar (Kárahnjúkavirkjunar) 690 MW og orkuvinnsla um 5.000 gígawattstundir á ári. Menn eru því í raun ekki að tala um neitt lítið sætt aukaafl og orku sem sé á sveimi í kerfinu sem leiði til þess að ekki þurfi að virkja.

Það er alveg ljóst að það afl og orka sem til þarf, fæst ekki nema með því að reisa nýjar stórvirkjanir. Orkuþörf sæstrengs gæti, eftir stærð, numið sem samsvarar orku frá Fljótsdalsvirkjun (690 MW), Búrfellsvirkjun (270 MW), Blönduvirkjun (150 MW) og nýju Búðarhálsvirkjun (95 MW) öllum til samans. Fljótandi ónýtt orka í kerfinu saxar þetta vissulega eitthvað niður, en fráleitt eins mikið og gefið er í skyn. Rétt væri því að minna menn á að ef það er verið að kalla eftir sátt um orkukosti, þá hlýtur að vera æskilegt að menn segi þjóðinni allan sannleikann strax í upphafi.

Þrýstingur á hærra orkuverð

Enn er mikil óvissa um forsendur fyrir hagkvæmniútreikningum af sæstrengslagningu eins og sjá má  í  úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagsleg áhrif sæstrengs frá því í maí 2013. Þar segir m.a. að ljóst sé að þrýstingur verði á að orkuverð hækki hér á landi.

Umframorka fer minnkandi

Raforkuhópur orkuspárnefndar hefur gert ráð fyrir að umframorka í raforkukerfinu geti verið um 1.300 GWst en að úr henni dragi mjög á næstu árum og verði komið niður í 700 GWst árið 2020. Nýjar virkjanir geta þó breytt þessari mynd eitthvað. Við það má bæta aukningu á flutningstapi. Umframorkan getur síðan verið mjög breytilegt og nægir að nefna áhyggjur Landsvirkjunar af úrkomuleysi og kulda á hálendinu veturinn 2013–2014 sem nánast þurrkaði út umframorkuna um tíma. Þá þurfti að skerða afhendingu á orku til stóriðju í nokkra mánuði. Myndin sem dregin hefur verið upp af allri umframorkunni sem hægt væri að selja, er því kannski ekki eins glæsileg og af er látið.

Lokið við hagkvæmniathuganir á þessu ári

Á vefsíðu Landsvirkjunar kemur fram að fyrstu hugmyndir um að tengja íslenska raforkukerfið með rafstreng við Skotland voru settar fram fyrir meira en 60 árum.

„Hagkvæmni slíkrar tengingar hefur verið könnuð á nokkurra ára fresti síðustu þrjá áratugina. Niðurstaðan hefur fram á allra síðustu ár verið að verkefnið sé líklega tæknilega framkvæmanlegt, en ekki arðbært.

Athugun sem Landsvirkjun og Landsnet unnu sameiginlega að á árunum 2009 til 2010 benti til að þetta hefði breyst. Þá breytingu má fyrst og fremst rekja til breyttra markaðsforsendna og aukinnar áherslu á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa í Evrópu.

Nokkur tími mun líða áður en unnt verður að taka ákvörðun um hvort farið verður í verkefnið og talsverð vinna er við að meta ýmis atriði sem þurfa að liggja fyrir við ákvarðanatöku um lagningu strengsins. Tímaáætlun sem Landsvirkjun vinnur nú eftir miðar að því að lokið verði við að afla forsendna og vinna hagkvæmniathuganir á árinu 2015.

Ef ákveðið verður að ráðast í verkefnið í framhaldinu mun taka um það bil fimm ár að framleiða og leggja strenginn, reisa landsstöðvar, háspennulínur og fleira. Rekstur getur því í fyrsta lagi hafist í upphafi næsta áratugar.“ Vekja má athygli á því að þarna er ekkert minnst á að reisa þurfi nýjar virkjanir vegna sæstrengsins.

Mikilvægt að skapa sátt

Hörður Arnarson, forstjóri Lands­virkjunar, gat þess við þetta tækifæri að líklega væri mikilvægasta málið að skapa sátt um Landsvirkjun meðal landsmanna og þá hversu mikið menn vildu virkja og hvað menn vildu vernda. Ekki er annað hægt að segja en að Hörður tali af ábyrgð frá sjónarhóli þess fyrirtækis sem hann er í forsvari fyrir og hefur greinilega tekist vel að reka. Áhuginn fyrir sæstrengslagningu er því vel skiljanlegur af hans hálfu og út frá gallhörðum arðsemisforsendum þessa fyrirtækis þó deila megi um áhrifin á hag annarra. Hörður sagði m.a.:
„Það er okkar hlutverk að horfa fram á veginn og búa í haginn fyrir afkomendur okkar með því að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir, með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.

Við stöndum á ákveðnum tímamótum, á þessu hálfrar aldar afmæli fyrirtækisins. Við stöndum á traustum grunni þeirrar miklu uppbyggingar sem hefur átt sér stað á þessum fimmtíu árum. Þessi mikla uppbygging hefði aldrei verið möguleg án þess að byggð hefðu verið upp farsæl viðskiptasambönd við fjölmörg erlend stórfyrirtæki, sem hafa ákveðið að setja upp starfsemi hér.“

Aukin eftirspurn er komin til að vera

Um eftirspurnina eftir raforku sagði Hörður: „Vísbendingar eru um að markaðsumhverfið sé að verða Landsvirkjun enn hagfelldara. Spurn eftir orku fer sívaxandi í heiminum og raforkuverð fer hækkandi. Þessi aukna eftirspurn gefur vísbendingar um að við getum í framtíðinni haldið áfram að greiða niður skuldir og fengið aukið svigrúm til þess að greiða eigendum okkar arð.

Í markaðsstarfi okkar höfum við orðið vör við aukinn áhuga frá stærri og breiðari hópi fyrirtækja en áður, úr fjölbreyttari iðngreinum. Þessi aukna eftirspurn hefur m.a. haft þá ánægjulegu birtingarmynd að raforkuverð til iðnaðar hefur hækkað umtalsvert með nýjustu samningum fyrirtækisins. Þetta nýja ástand, þar sem eftirspurn er meiri en framboð, er komið til að vera og því fylgja nýjar áskoranir.  Ef þróun á alþjóðlegum raforkumörkuðum verður eins og spáð er, og ef vel tekst til í rekstri Landsvirkjunar, mun afkoma fyrirtækisins og arð- og skattgreiðslur hafa mjög jákvæð áhrif á lífskjör Íslendinga.“

Í ljósi orða forstjórans hlýtur að vera eðlilegt að spyrja hvort það verði bæði haldið og sleppt í orkumálum á Íslandi. Á bæði að útvega orku vegna stóraukinnar eftirspurnar innanlands  og á sama tíma að útvega gríðarlega orku fyrir sæstreng?

Öfundsverð staða

Réttilega sagði forstjórinn að Íslendingar séu í öfundsverðri stöðu. „Við hjá Landsvirkjun erum farin að finna fyrir því að þessi kostur – að orkan sé endurnýjanleg – er orðinn eftirsóttur í sjálfum sér hjá erlendum aðilum.“

Áhugaverður viðskiptavinur

Þá kom hann inn á sæstrengsmálin og sagði: „Sæstrengur er mögulega mjög áhugaverður viðskiptavinur fyrir fyrirtækið. Fyrir liggur að í boði gæti verið umtalsvert hærra orkuverð en nemur meðalverði Landsvirkjunar, þannig að um er að tefla mikla fjárhagslega hagsmuni fyrir fyrirtækið og þjóðina alla. Með tengingu við aðra markaði gæfist okkur kostur á að nýta þá umframorku sem óhjákvæmilega er til staðar í lokuðu raforkukerfi. Við mat á kostum og göllum sæstrengs er nærtækast að líta til reynslu Norðmanna, sem hafa góða reynslu af tengingu við Holland í gegnum lengsta sæstreng í heimi, NorNed-strenginn. Norðmenn hafa nú þrjá sæstrengi á teikniborðinu – tvo til Bretlands og einn til Þýskalands.

Vissulega er ýmsum spurningum ósvarað þegar litið er til heildaráhrifa þessarar framkvæmdar. Til að mynda þarf að tryggja leiðir til að raforkuverð til heimila hækki ekki umtalsvert og um leið þarf að búa svo um hnútana að samkeppnisumhverfi iðnaðar á Íslandi sé tryggt.“

Viðskiptaforsendur ráða

„Það er mikilvægt að hafa í huga að sæstrengur er eins og hver annar viðskiptavinur og hvert annað tækifæri í augum okkar. Við störfum á viðskiptalegum forsendum og ef góðir samningar nást um orkuverð sjáum við fram á stóraukna arðsemi af auðlindinni, í samræmi við það hlutverk Landsvirkjunar að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir, með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.“

Orkuöryggi fyrir Íslendinga

„Ekki má gleyma því heldur að orkuöryggið virkar í báðar áttir og hægt verður að flytja orku frá Bretlandi til Íslands þegar þess gerist þörf. Við Íslendingar búum að mínu mati ekki við fullnægjandi orkuöryggi eins og staðan er núna. Eins og okkur er fullljóst getur fyrirvaralaust brostið á með náttúruhamförum eða bilunum, auk þess sem við getum auðveldlega lent í þeirri stöðu að eftirspurn eftir orku verði meiri en framboðið, sér í lagi ef vatnsárið er í lakara lagi.“
Virðing við umhverfið

Forstjórinn lagði líka áherslu á virðingu við umhverfið. Þar var hann greinilega að mæta gagnrýni umhverfisverndarsinna sem hafa fundið Landsvirkjun flest til foráttu þegar kemur að virkjunarmálum. Sagði hann að framkvæmdir Landsvirkjunar hafi þó óhjákvæmilega umtalsverð áhrif á umhverfi, en fyrirtækið reyndi  eftir fremsta megni að draga úr neikvæðum áhrifum og auka þau jákvæðu sem kostur er.

„Við fögnum líka því virka aðhaldi sem við fáum frá hinum ýmsu félagasamtökum og einstaklingum, sem er hugað um að vernda þau miklu verðmæti sem við eigum í íslenskri náttúru,“ sagði Hörður.

Nauðsyn á sátt

Í ræðu sinni í Hörpu kom Hörður inn á nauðsyn þess að sátt ríki um fyrirtækið og framkvæmdir þess.

„Það er okkur mikilvægt og hvatning til að gera enn betur. Við hlustum á þau sjónarmið þrátt fyrir að ég hafi lýst því að við teljum okkur standa vel að öllu, þá erum við meðvituð um það að við getum haft betra samráð. […] Við stefnum að því að auka samráð við hagsmunaaðila á fyrstu stigunum og teljum að það verði bæði til þess að gera hugmyndirnar betri og einnig auðveldara að samtvinna hagsmunina.“ Sagði hann að það væri þó alltaf á könnu stjórnvalda að taka endanlega ákvörðun um hvað mætti virkja. Síðan væri það orkufyrirtækjanna að bera ábyrgðina og bregðast við ef umhverfisáhrif yrðu önnur en ætlað er.

Pólitísk átök óheppileg

Sagði hann það óheppilegt að orkumál skuli vera átakamál í íslenskri pólitík. Afar mikilvægt væri að menn finni leiðir til þess að móta stefnuna í orkumálum án þess að það þurfi að vera stórt átakamál. Þar mættu menn líta til Norðmanna þar sem helstu stjórnmálaflokkarnir væru í meginatriðum sammála um orkumálin. Hann sagði þó nauðsynlegt að það væru til hópar sem veittu hverjum einasta virkjunarkosti aðhald. Að lokum spurði hann:

Stækkun verndarsvæða samhliða aukinni virkjun?

„Er mögulegt að finna framtíðarniðurstöðu þar sem stærð verndaðra svæða utan jökla yrði tvöfaldað og að við værum að vernda öll okkar helstu náttúrusvæði? Á sama tíma að auka orkuvinnslu umtalsvert? – Ég held að þetta sé mögulegt ef vilji er fyrir hendi. Endurvinnanleg orkuvinnsla og náttúruvernd þurfa ekki að vera andstæður og eru í eðli sínu ekki andstæður og hafa ekki verið það sögulega.“

Áskrift að Bændablaðinu 2025
Fréttir 27. desember 2024

Áskrift að Bændablaðinu 2025

Gefin eru út 23 tölublöð af Bændablaðinu ár hvert. Upplagi þess er dreift um all...

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...