Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Lífrænt vottuð landnámshænsn á Sólheimum.
Lífrænt vottuð landnámshænsn á Sólheimum.
Mynd / smh
Fréttir 9. janúar 2015

Mikil eftirspurn eftir takmörkuðum afurðum

Höfundur: smh
Málþing var haldið í Bændahöllinni á dögunum um stöðu og horfur í lífrænt vottuðum búskap.
 
Guðfinnur Jakobsson, bóndi í Skaftholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, flutti erindi á málþinginu um starfsumhverfi bænda í lífrænum búskap á Íslandi og tengsl þeirra við neytendur. Hann má teljast með reynslumestu bændum sem hafa lagt fyrir sig lífrænt vottaðan búskap hér á landi. 
 
Guðfinnur Jakobsson
„Við kaupum jörðina Skaftholt árið 1980 og byrjum strax á því að breyta búskap þar og hefja lífræna ræktun. Um leið bjuggum við til heimili sem gerði ráð fyrir því að við gætum tekið á móti fólki með þroskahömlun – og við höfum í raun haldið því fyrirkomulagi á bú- og heimilisrekstrinum allar götur síðan,“ segir Guðfinnur um upphafið á hans lífræna búskap. 
 
Kynntist lífefldum landbúnaði í Svíþjóð
 
„Ég hafði áður unnið í átta ár sem garðyrkjumaður á heilsuhælinu í Hveragerði þar sem lífræn ræktun var stunduð. Jafnhliða þeim störfum kláraði ég garðyrkjuskólann. Þaðan flutti ég til Svíþjóðar þar sem ég lærði lífefldan landbúnað (e. biodynamic), sem segja má að sé undirgrein lífræns landbúnaðar en þar er gengið enn lengra með andlegri, siðrænni og vistlægri nálgun. Það var einmitt í Svíþjóð sem ég kynntist því hvað þetta tvennt gæti fallið vel saman; lífrænn búskapur og heimilisrekstur fyrir þroskahamlað fólk. Það er óhætt að segja að ástæðan fyrir því að ég byrja lífrænan búskap sé hugsjónalegs eðlis – því það hefur alltaf verið meginmarkmið framleiðslunnar í Skaftholti að eiga góð matvæli fyrir heimilisfólkið. Við leggjum þannig ekki mikla áherslu á framleiðslumagn, heldur fjölbreytni framleiðslunnar með þarfir heimilisins í huga. Við seljum samt alltaf eitthvað frá okkur. Til dæmis fer alltaf um helmingur mjólkurframleiðslunnar frá okkur – til lífrænnar framleiðslu annars staðar. Hinn helmingurinn fer í eigin framleiðslu, til að mynda á skyri, rjóma, smjöri og ostum. 
 
Ostarnir frá Skaftholti njóta mikilla vinsælda þegar þeir eru í boði – en lítið magn af þeim fer í sölu í tilteknar verslanir, eins og í Brauðhúsið og í Græna hlekkinn. Guðfinnur segir að mikið sé spurt að því hvers vegna ekki sé hægt að framleiða meira af ostum og eins öðrum afurðum. „Það er samt ekkert inni í myndinni að við förum að stækka við okkur. Við leggjum upp úr því að framleiða fjölbreytt matvæli fyrir heimilið og svo skiptir miklu máli að Skaftholt sé góður vinnustaður fyrir skjólstæðinga okkar – og til þess að svo sé getum við ekki aukið framleiðsluna að ráði. 
 
En fyrir aðra markaðsþenkjandi framleiðendur er ég alveg klár á því að það eru góð sóknartækifæri fyrir lífrænt vottaðar vörur. Það verður ekki horft framhjá því að það hefur verið ákveðin tregða í kerfinu gagnvart lífrænt vottuðum búskap; bæði hjá hinu opinbera og eins hjá Bændasamtökunum. Til þess að menn geti lagt út á þá braut að söðla um og taka upp lífrænt vottaðan búskap, þarf að vera til staðar ákveðinn hvati. Ég hef fylgst ágætlega með því hvernig nágrannaþjóðir okkar hafa staðið að málum og þar eru aðlögunarstyrkir til að mynda góðir víðast hvar. Þar hafa menn sett sér metnaðarfull markmið og fylgt þeim eftir. 
 
Það er alveg ljóst að þegar bændur ákveða að sækjast eftir lífrænni vottun – og verða þar með til dæmis að hætta notkun á tilbúnum áburði – þá minnkar framleiðslan á ákveðnu tímabili á aðlögunartímanum. Frjósemi jarðvegsins minnkar þegar venjubundinni áburðarnotkun er hætt og byggja þarf jarðveginn upp að nýju. Þetta bil þarf þá að brúa. Ég hef heyrt í bændum sem eru áhugasamir um að skipta yfir í lífræna ræktun, en leggja ekki í það þar sem þeir sjá ekki fram á að komast yfir þetta tímabil sem tekur yfirleitt nokkur ár. 
 
Enginn skortur á hráefni til áburðargerðar
 
Á síðasta ári voru reglur hertar um notkun á áburðargjöfum í lífrænt vottaðri ræktun. Þá var bann lagt við notkun á svokölluðum sveppamassa; sem bændur fengu frá Flúðasveppum. Þar var sveppamassinn notaður sem jarðvegur fyrir svepparæktunina – en hann er samsettur meðal annars úr hænsnaskít frá kjúklingabúi þar sem þrengsli eru talin vera of mikil, að mati Vottunarstofunnar Túns. Sveppamassinn var mikilvægur áburðargjafi og jarðvegsbætir fyrir nokkra framleiðendur og kom bannið illa við suma þeirra. Heyrðust raddir um að skortur væri á hráefni til áburðargerðar. „Ég held að það sé nægt hráefni til á Íslandi,“ segir Guðfinnur. „Við vitum til dæmis að það er heilmikið til af úrgangi frá sjávarútvegi og fiskvinnslu sem vitað er að ekki er nýtt. Ég get alveg séð fyrir mér að það væri hægt að koma upp einföldum búnaði sem þurrkaði og malaði eitthvað af þessum úrgangi – því slíkt fiskimjöl væri alveg fyrirtaks áburður. Það hágæða fiskimjöl sem hér er framleitt til útflutnings er alltof dýrt til að það sé raunhæfur valkostur í einhverjum mæli í lífrænt vottaðan búskap hér á landi. 
 
Svo má nefna að það fellur heilmikið til frá alls kyns matvælatengdri starfsemi sem ekki er nýtt sem skyldi; frá matvælaframleiðslufyrirtækjum, veitingastöðum og heimilum til dæmis. Sum staðar er farið að nýta þetta hráefni að einhverju leyti og jarðgera – en það er ekki nærri nóg. Við töluðum við sveitarfélagið okkar og gerðum samkomulag um að við tækjum við lífrænu hráefni frá heimilum – ég kalla það hráefni en ekki sorp. Við jarðgerum það svo og það hefur komið ágætlega út. Við fáum út úr þessu áburð, að vísu ekkert mikið magn en það hjálpar til hjá okkur að ná því magni af áburði sem við þurfum og svo sparar þetta líka sveitarfélaginu fjármuni við að flytja þetta á Selfoss – eins og áður var. Það getur ekki verið hagkvæmt – hvernig sem á það er litið. Svo fáum við líka garðaúrgang frá sveitarfélaginu og sumarbústaðaeigendum hér á sumrin. Við höfum lengi jarðgert allt lífrænt hráefni frá heimilinu hér á staðnum og erum auk þess með búfjáráburð frá kúabúinu okkar – sem telur nú mest – en þetta hjálpast allt að. Það er hins vegar ekkert auðvelt að eiga við þetta fyrir þá sem ekki eru með búfé. Það verður verkefni félagsskapar okkar, VOR – félags framleiðenda í lífrænum búskap – og fagráðs í lífrænni ræktun – á næstu misserum að finna einhvern hagnýtan farveg fyrir það hráefni sem er til taks.“
 
Fagráð í lífrænni ræktun endurvakið
 
Eitt af því sem Guðfinnur telur að geti orðið til að styrkja lífrænt vottaða framleiðslu í landinu er að efla rannsókna- og fræðaþátt greinarinnar. Liður í því er endurreisn fagráðs í lífrænni ræktun. „Það er hafin vinna við endurreisn fagráðsins með aðkomu nokkurra aðila, en ekki er búið að formgera það enn að fullu.
 
Svo er gleðilegt að Landbúnaðarháskóli Íslands býður nú upp á nám í lífrænni matjurtarræktun. Það hefur verið stöðnun á síðustu árum að ýmsu leyti í þessari grein. Það vantar tilfinnanlega fleiri mjólkurframleiðendur til að mynda og eins í útiræktuðu grænmeti. Mér finnst það í meira lagi undarlegt að við skulum þurfa að flytja inn svo mikið magn af lífrænt ræktuðu útigrænmeti sem raun ber vitni um; grænmeti sem auðvelt er að rækta hér.“
 
Hægt að færa allan landbúnað yfir í lífrænan á næstu tíu árum
 
Guðfinnur staðhæfir að ef stuðningskerfi okkar væri eins og best væri á kosið gæti hann séð það fyrir sér að það yrði vandalaust að breyta öllum íslenskum landbúnaði yfir í lífrænan á aðeins tíu árum. „Að mörgu leyti búa Íslendingar við kjöraðstæður. Við erum hér með ómengað loft, vatn og jarðveg að mestu leyti – og efnanotkun í landbúnaði er hér mun minni en víðast hvar annars staðar. Til að einhver alvöru gróska verði í lífrænum landbúnaði þurfa stjórnvöld að taka frumkvæði með festu; marka stefnu og fylgja henni eftir. Það verður að setja sér háleit markmið í þessum málum svo einhver árangur náist.“ 
 

2 myndir:

Skylt efni: lífrænt vottað | lífefld

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...