Mikil hætta á gróðureldum
Eftirfarandi tilkynning barst frá Ríkislögreglustjóra inn á vefsíðu Almannadeildar Ríkislögreglustjóra fimmtudaginn 6. maí: Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjóra og slökkviliðsstjóra á Vesturlandi, höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi hafa ákveðið að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum.
Svæðið sem um er að ræða nær frá Eyjafjöllum að sunnanverðu Snæfellsnesi. Þessi ákvörðun er byggð á því að lítið hefur rignt á þessu svæði undanfarið og veðurspá næstu daga sýnir heldur ekki neina úrkomu að ráði. Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila og almennings. Almenningur er hvattur til að sýna aðgát með opinn eld á þessum svæðum og öðrum þar sem gróður er þurr. Það þarf ekki mikinn neista til þess að af verði stórt bál.
Vantar aðgerðaráætlun vegna gróðurelda í flestum sveitarfélögum
„Í samtali við Morgunblaðið 6. maí sagði Bjarni K. Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri í Borgarbyggð, að brýn nauðsyn væri á að bæta búnað og þekkingu til að takast á við gróðurelda í kjölfar gróðurelda sem urðu í Heiðmörk þann 5. maí,“ sagði Bjarni.
Eðlilegt að hafa áhyggjur og menn hugsi um hvað sé að og hvað megi bæta eftir elda eins og í Heiðmörk, erfitt aðgengi, ekkert vatn í allra næsta nágrenni, ekki neinir slóðar sem hægt var að komast eftir til að vera nær eldinum og svo bilaði gömul vatnsskjóða í þyrlu Landhelgisgæslunnar eftir aðeins 17 flugferðir. Eftir stóra brunann á Mýrum 2006 hefur nánast ekkert verið gert til að bæta í búnað sem þykir nauðsynlegur við að slökkva eld í gróðri, en mestu munaði þar um aðkomu bænda á traktorum með haugsugur við að slökkva eldana á Mýrum 2006. Margir hafa tjáð sig um brunann í Heiðmörk og þar á meðal er þyrluflugmaður sem sagði að ef til væru nokkrar sambærilegar „fötur“ og Landhelgisgæslan var með og bilaði hefði það ekki tekið nema 3-4 tíma að slökkva eldinn með þyrlum. Þegar ég spurði hver kostnaðurinn við svona „fötu“ væri taldi hann það ekki vera nema á milli 2 og 3 milljónir. Mér varð á orði; „oft hefur pening verið eytt í meiri vitleysu en að henda 10 milljónum í svona græjur.“
Verið að plægja stoppbelti á jarðýtu, en stundum er þetta eina lausnin til að
stoppa útbreiðslu gróðurelda.
Fræðandi spjall við kanadískt par um gróður og skógarelda
Fyrir nokkrum árum keyrði ég hringinn í kringum landið með kanadísku pari sem bæði unnu hjá slökkviliðum í Kanada. Ég hafði tekið eftir því að hann stoppaði upp úr þurru í þrígang í vegkantinum og tók nokkrar myndir í röð af sumarbústaðabyggðum í miklu kjarrlendi. Það var á Einarsstöðum á Héraði, upp í Vaðlaheiðina gegnt Akureyri og yfir Stardal við Ísafjörð. Eftir þriðja stoppið, sem var við Ísafjörð, spurði ég hann út í þennan áhuga hans á sumarhúsabyggðum og myndatökunum. Hann sagði mér að hann hefði óvart dottið inn í vinnuna sína, en hann hafi á þessum stöðum séð þétta húsabyggð í miklu kjarrlendi. Hann spurði mig á móti hvort engar reglur væru hversu nálægt mætti byggja og hversu þétt í kjarrlendi því það sem hann sá væri bannað í Kanada. Ég gat ekki svarað honum.
Búa til eldfrí varnarsvæði
Hans vinna er að gera aðgerðaráætlun/áhættumat ef upp kemur eldur í skógum og hvernig bregðast ætti við til að verja byggingar og slökkva skógarelda. Samtalið var frekar langt og teiknaði hann margar skýringamyndir. Oftast var lausnin að fórna trjám með jarðýtum og koma svo á eftir með risa trukk sem setti „drulluleðju“ í sárið eftir jarðýturnar, en kærasta mannsins vann einmitt á einum svoleiðis bíl. Ekki ósvipaður bíll og við köllum „búkollur“ með risatank fullan af leðju (200 til 300 tonn stærstu leðjubílarnir í Kanada) sem lekur á jörðina og úr verður rofabelti sem eldurinn stoppar á. Einnig sagði hann mér að til væru kanadískar aðgerðaráætlanir í borgum og þorpum sem eru við skóglendi að í áætluninni væri að ryðja með jarðýtum ystu húsunum í bæjarfélögunum og leðja yfir rústirnar til að bjarga og verja þéttbýliskjarnann sem fyrir innan er. Mér fannst lýsingarnar margt forvitnilegar og skildi aðeins betur áhuga hans á brunavörnum og skógareldum eftir þetta spjall. Veit aðeins til þess að til sé aðgerðaráætlun um skógar- og gróðureld í Skorradal. Er ekki kominn tími á að hugsa um hvað getur í versta falli gerst í þínu nærumhverfi (lesandi góður) og hvað væri hugsanlega hægt að gera?