Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Thomas Snellman hefur verið bóndi í 36 ár.
Thomas Snellman hefur verið bóndi í 36 ár.
Fréttir 28. febrúar 2018

Milliliðalaus viðskipti með búvörur á Facebook

Höfundur: Vilmundur Hansen

Finninn Thomas Snellman hefur verið bóndi í 36 ár. Auk búskapar starfar hann við að kynna lífræna framleiðslu. Árið 2013 setti hann upp sölusíðu á Facebook og bauð þar framleiðendum og neytendum að hafa milliliðalaus viðskipti. Hópurinn, sem kallast REKO, nýtur mikilla vinsælda í Finnlandi og margir svipaðir verið stofnaðir þar og víðar í Evrópu.

Snellman sagði í samtali við Bændablaðið að hann ræktaði holdanaut til kjötframleiðslu en að áður hafi hann rekið mjólkurbú. „Býlið er á vesturströndinni, um miðbik Finnlands, og á sænskumælandi svæði. Ég er að jafnaði með 20 holdakýr þannig að býlið er ekki stórt, enda sinni ég margs konar öðrum verkefnum samhliða búskap.“

Að sögn Snellman hefur hann lagt stund á lífræna framleiðslu í 27 ár og samhliða búskap í dag vinnur hann að kynningu á lífrænum búskap í Finnlandi. „Lífrænar landbúnaðarafurðir njóta síaukinna vinsælda í Finnlandi og eini geirinn í landbúnaði sem virðist eiga framtíð fyrir sér. Eftirspurnin eftir lífrænni framleiðslu er alltaf að aukast og í dag fæst næstum því þrisvar sinnum hærra verð fyrir lífræna hafra en þá sem eru ræktaðir á hefðbundinn hátt. Bændur eru einnig að fá um 30% hærra verð fyrir lífrænar mjólkurvörur en hefðbundna framleiðslu.“

Sífelld krafa um lægra verð

„Afkoman í því sem er kallaður hefðbundinn landbúnaður í Finnlandi er erfið í dag eins og víða annars staðar í heiminum. Vandi bænda í Finnlandi stafar meðal annars af innflutningi á ódýrum mat og kröfu verslunarinnar um ódýrari vörur. Í Finnlandi eru þrjú fyrirtæki ráðandi á matvælamarkaði, tvö finnsk og eitt þýskt. Þessar keðjur eru í mikilli samkeppni um að bjóða lægsta verðið og það kemur niður á verðinu til framleiðanda, sem eru bændur, auk þess sem aðföng og annar kostnaður við framleiðsluna fer hækkandi.

Staða verslunarinnar er sterk og samningstaða bænda slæm og þeir þurfa að sætta sig við það verð sem verslunin vill borga ef þeir vilja fá hillupláss.

Í Finnlandi hætta að meðaltali fimm bændur búskap á viku vegna þess að þeir lifa ekki á framleiðslunni og ástandið er svipað víða annars staðar  í Evrópu,“ segir Snellman.

Sölusíða á Facebook

Snellman segir að hann hafi verið orðinn leiður á því hversu lágt verð hann og aðrir bændur fengju fyrir sína framleiðslu. Hann kynntist hugmyndinni um sölu beint frá býli í Frakklandi 2011 og árið 2013 setti hann upp söluhóp á Facebook sem býður neytendum að eiga milliliðalaus viðskipti við bændur. Hópinn kallaði hann REKO, sem er skammstöfun á sænska hugtakinu Rejäl konsumtion, sem gæti útlagst sem sanngjörn neysla á íslensku.

Á síðunni bauð Snellman bændum og smáframleiðendum að setja inn upplýsingar um vörurnar sem þeir bjóða og neytendum að kaupa hana beint og milliliðalaust, hvort sem hún er lífræn eða ekki. Varan er afhent á ákveðnum stöðum þar sem kaupendur sækja og greiða fyrir.

REKO gengur út á að hver REKO-síða sinnir ákveðnu svæði, eða REKO-hring eins og það er kallað. Fyrsta afhendingin fór fram 6. júní 2013 í Jacobstad, sem er borg í nágrenni við býli Snellman.

„Salan á netinu fór hægt af stað og til að byrja með náði þjónustan til takmarkaðs svæðis í  kringum Jacobsstad en á innan við ári fóru að berast fyrirspurnir víðar að í landinu og þjónustusvæðið stækkaði.“

Góður kostur fyrir bæði framleiðendur og neytendur

„Kostir RECO-hringanna fyrir framleiðendur eru margir. Vörurnar eru pantaðar fyrirfram þannig að ekki þarf að flytja óþarfa vörur á áfangastað, auglýsingakostnaður er lítill sem enginn og hagnaður af vörunni meiri en í gegnum sölu milliliða.

Kostir fyrir neytendur er að hafa aðgang að vörum beint frá býli, lífrænni eða hefðbundinni framleiðslu eftir óskum. Að hafa bein samskipti við framleiðendur og byggja traust. Ef varan stendur undir væntingum er hægt að panta aftur ef ekki má snúa sér annað. Auk þess að vörurnar eru á lægra verði en í verslunum.

Í dag er hægt að kaupa nánast allar matvörur, fisk, brauð, egg, grænmeti, ávexti og kjöt, í gegnum REKO-kerfið nema mjólk en það er bannað samkvæmt lögum.“

Hröð uppbygging

Snellman segir að meðlimir á REKO-síðum árið 2013 hafi verið 15 framleiðendur og 400 kaupendur og veltan 80.000 evrur. 2014 voru framleiðendurnir 750 og kaupendurnir 12.000 og veltan áætluð tvær milljónir evra. Árið 2015 fór boltinn verulega að rúlla. Afhendingarstöðunum fjölgaði í hundrað, framleiðendum í 2.500, kaupendum í 150 þúsund og velta jókst í átta milljón evrur. Árið 2016 töldu framleiðendur sem seldu í gegnum REKO um 4.000, kaupendur 250 þúsund og áætluð velta 30 milljón evrur. Í dag eru afhendingarstaðir vara í Finnlandi 80 og reglulegir kaupendur um 330.000, sem er um 5% allra Finna og allur íbúafjöldi Íslands. Helmingur veltunnar kom í gegnum framleiðendur lífrænna landbúnaðarvara.

Aðgangur að síðunni er ókeypis og ekkert gjald er tekið fyrir viðskipti í gegnum hana.

Snellmann segir að virkni meðlima á REKO-síðunum sé mismikil. „Sumir selja og kaupa reglulega en aðrir sjaldnar og kannski bara einu sinni á ári.“

Snemma á síðasta ári var hleypt af stokkunum svipaðri síðu í Svíþjóð og tveimur afhendingarstöðum komið á laggirnar. Þremur mánuðum seinna voru þeir orðnir 26 og fyrsti REKO-hringurinn á Ítalíu afhenti sínar vörur fyrir nokkrum dögum.

Stórmarkaðir leita til bænda

„Aukin eftirspurn eftir lífrænum og vörum úr nærumhverfinu hefur leitt til þess að stórmarkaðir sem selja matvörur í Finnlandi eru farnir að sýna þeim meiri áhuga og leita til bænda til að fá þær. Það eitt og sér hefur snúið samningsstöðunni bændum í vil og í dag geta þeir farið fram á hærra verð fyrir framleiðsluna en áður.“

Málþing og vinnustofa í Hörpu 4. mars

Snellman heldur erindi um hugmyndina að baki REKO á vegum Matarauðs Íslands og Bændasamtaka Íslands í Björtu loftum Hörpu sunnudaginn 4. mars næstkomandi klukkan 14.00.

Auk Snellman mun Brynja Laxdal hjá Matarauði Íslands kynna reynsluna af markaðsstarfi á Facebook á Íslandi og Arnar Gísli Hinriksson markaðsfræðingur flytja erindi um Facebook sem sölutækni. Að erindunum loknum er boðið upp á vinnustofu fyrir framleiðendur, veitingamenn, neytendur og alla sem hafa áhuga á svæðisbundnum mat og afurðum. Á sama tíma er Matarmarkaður Búrsins í Hörpu. Aðgangur er ókeypis en gerð er krafa um skráningu á www.bondi.is.

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...