Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Músabrúin var reist yfir Svendborg-hraðbrautina vegna kröfu dýraverndunarsinna árið 2008 og kostaði sem nam um 360 milljónum íslenskra króna.  Var henni ætlað að opna leið fyrir heslimýs yfir þjóðveginn, en fram á sumarið  2021 er einungis vitað um eina mús sem sést hafði í myndavél á vappi við brúna.
Músabrúin var reist yfir Svendborg-hraðbrautina vegna kröfu dýraverndunarsinna árið 2008 og kostaði sem nam um 360 milljónum íslenskra króna. Var henni ætlað að opna leið fyrir heslimýs yfir þjóðveginn, en fram á sumarið 2021 er einungis vitað um eina mús sem sést hafði í myndavél á vappi við brúna.
Mynd / HKr.
Fréttir 3. maí 2022

Músabrúin við Svendborg á Fjóni sem mýsnar vilja ekki nota

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Umhverfissjónarmið hafa haft undarleg áhrif á vegagerð í fleiri löndum en Íslandi. Þrátt fyrir mikla uppfinningasemi í þeim efnum hér á landi, má telja nokkuð víst að frændur okkar Danir slái okkur rækilega við í frumleika.

Hér á landi þekkja flestir dæmin um deilur vegna vegagerðar um Teigskóg, vegar yfir Gilsfjörð, uppbyggingu vegar við Þingvelli og um Gjábakkahraun, sem átti m.a. að leggja lífríkið í Þingvallavatni í rúst. Frændur okkar Danir hafa ekki heldur farið varhluta af slíkum deilum, en þar upphófust fyrir mörgum árum harðar deilur um búsvæði „hasselmúsa“ eða heslimúsa (hazel dormouse) við vegagerð á Fjóni.

Danir hafa alla tíð lagt áherslu á að góðar samgöngur um landið væru lykillinn að afkomumöguleikum byggða. Þá er landið líka þannig staðsett að í gegnum það liggur vegtenging Noregs og Svíþjóðar við meginland Evrópu. Langt er síðan hraðbraut var lögð frá Kaupmannahöfn vestur fyrir Sjáland og Fjón og niður Jótland til Þýskalands.

Nauðsynlegt þótti að tengja þessa hraðbraut með öðrum hraðbrautum við lykilborgir eins og Esbjerg á Jótlandi og Óðinsvé á Fjóni. Þá kom auðvitað líka upp krafa um sams konar tengingu við hafnarborgina Svendborg á Suðaustur-Fjóni við Óðinsvé. Var því ráðist í gerð 35 km hraðbrautar til norðurs frá Svendborg og fyrsta skóflustunga tekin 2. október 2002. Fyrstu 19 km þessarar hraðbrautar voru opnaðir fyrir umferð 16. september árið 2006 en ekki var lokið við þessa vegagerð fyrr en í júní 2009.

Byggðu rándýra músabrú yfir hraðbrautina

Fljótlega eftir að lokið var við fyrsta áfanga vöknuðu áhyggjur af velferð heslimúsanna á svæðinu rétt norðan við Svendborg. Þessum músum svipar aðeins til okkar litlu hagamúsar, en eru þó með mikið og loðið skott. Þær vega um 17–20 grömm að vorlagi en þyngjast hressilega yfir sumarið, eða í 30–40 grömm. Búsvæði þeirra er einkum í laufskógum víða í Evrópu og allt suður til Tyrklands.

Músabrúin yfir Svendborg- hraðbrautina á Fjóni er viðamikið mannvirki og mikil vinna var lögð í að reyna að koma upp gróðri á brúnni og runnum svo mýsnar gætu ferðast yfir brautina. Þær virðast þó lítt kunna að meta þessa fyrirhöfn og kostnað mannfólksins og halda sig víðs fjarri.

Þótti músavinum ljóst að hraðbrautin skæri búsvæði músanna í tvennt. Ferðalög músanna á milli ættingja þvert yfir slíka umferðarmikla hraðbraut myndi því augljóslega geta valdið miklum skakkaföllum í músastofninum.

Eftir margra ára japl, jaml og fuður var ákveðið að ráðast í gerð 20 metra breiðrar músabrúar yfir þessa fjögurra akreina hraðbraut til að tryggja samgönguleið fyrir heslimýsnar. Var brúarsmíðinni lokið 2008 og kostaði hún litlar 18 milljónir danskra króna, eða sem svarar um 360 milljónum íslenskra króna.

Engin músaumferð staðfest um brúna í 13 ár

Þegar brúarsmíðinni var lokið var fylgst af spenningi með ferðalögum músanna yfir brúna. Gallinn var bara að enginn varð var við að mýsnar nýttu sér að ferðast yfir sérhönnuðu músabrúna.

Var þá gripið til þess ráðs að koma fyrir margs konar gróðri á brúnni með ærnum kostnaði og með miklum erfiðleikum, til að gera hana vistlegri fyrir mýs, en allt kom fyrir ekki. Danska blaðið BT ræddi við yfirrannsakanda í ferðalögum músanna í september 2015. Hann heitir Thomas Bjørneboe Berg og starfaði þá hjá Naturama Svendborg. Sagði Thomas að erfitt væri að finna áþreifanlegar sannanir fyrir hreyfingum heslumúsarinnar í og við dýrabrúna.

Kostnaður aukinn og ráðist í runna- og trjárækt á brúnni

Frá vígslu árið 2008 höfðu verið vandamál með að halda lífi í gróðrinum á brúnni. Kom í ljós að heslimýs ferðast helst ekki á jörðinni eða um graslendi heldur ferðast þær mest í trjám frá grein til greinar eða frá runna til runna. Því þótti mikilvægt að gróðursetningin á brúnni tæki mið af því. Á árinu 2012 var ráðist í aukna gróðursetningu á brúnni og þar sett niður 600 tré og runnar fyrir heslimýsnar. Þrátt fyrir þessar aðgerðir sást ekki ein einasta mús fara yfir þetta rándýra sérhannaða mannvirki. Tilraunir til merkinga á músum svo fylgjast mætti með þeirra ferðalögum yfir brúna virðast heldur engan árangur hafa borið.

Taldi sérfræðingurinn því ljóst að leggja þyrfti aukna vinnu og fé í rannsóknir á ferðalögum músanna yfir hraðbrautina sem enginn gat staðfest. Það var svo loks í ágúst 2021 sem ein mús sást í fyrsta sinn í myndavél gera sig líklega til að nota brúna sem þá var orðin 13 ára gömul.

Skylt efni: Danmörk | Vegagerð

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...