Nauðbeygður til að verjast
Bændur gætu verið í vanda telji þeir vindmyllur sem reisa á mögulega í nágrenni við þá rýra á einhvern hátt notagildi jarða þeirra.
Bóndi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi spyr hvort hann sé nauðbeygður til að eyða tíma sínum í að verða einhvers konar vindorkuverasérfræðingur til að verja hendur sínar fyrir áformum um vindmyllugarð á næstu jörð. Hann segi fráleitt að íbúar í dreifbýli þurfi jafnvel að ráða sér lögfræðinga til að verjast slíku.
Athygli vekur að viðkomandi bóndi komst á snoðir um áform nágranna síns fyrir tilviljun, þegar hann rakst á skýrslu verkfræðistofu um verkefnið sem fylgigagn fundargerðar sveitarstjórnar á vefnum. „Ef af þessu verður mun þetta rýra notagildi nærliggjandi jarða og hafa veruleg áhrif á umhverfið í kring. Þetta vakti mikinn óhug okkar. Er ekki það sama að gerast í Hvalfirði, Borgarfirði og Dölunum?“ spyr bóndinn og telur að ef reisa eigi vindorkuver ættu þau að vera í eigu landsmanna en ekki einkaaðila þar sem að baki standi erlend stórfyrirtæki.
Sjá nánar bls. 20–22. í nýju Bændablaði sem kom út í morgun.