Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Jón Ingi Ólafsson sáir fyrir nípum sem er ný tegund í ræktun á Íslandi.
Jón Ingi Ólafsson sáir fyrir nípum sem er ný tegund í ræktun á Íslandi.
Mynd / Linda
Fréttir 6. júní 2024

Nípuræktun í Þurranesi

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Sauðfjár- og ferðaþjónustubændurnir Linda Guðmundsdóttir og Jón Ingi Ólafsson í Þurranesi í Dalabyggð hafa á undanförnum dögum verið að undirbúa nípuræktun á um hálfum hektara lands.

Linda Guðmundsdóttir og Jón Ingi Ólafsson í Þurranesi.

Linda segir að jarðvegurinn hafi verið mjög blautur og því hafi þau ekki komist fyrr til að sá, en þau hófu tilraunarækt á þessu rótargrænmeti á síðasta ári, ásamt gulrótaræktun. „Nípur eru orðnar vinsæl matvara en eru ekki í ræktun á Íslandi og mér þykir þetta ótrúlega gott grænmeti þannig að við ákváðum að prófa það þótt hún sé kannski ekki alveg sú auðveldasta. Það er til dæmis langur spírunartími á þeim og þær þurfa langan ræktunartíma líka, alveg fjóra mánuði. Á móti kemur að þær þola frost. Við stefnum á að selja uppskeruna meðal annars í heimabyggð í haust.“

Nípur líkjast gulrótum í útliti.
Klára að sá fyrir nípum

Að sögn Lindu hafa miklar annir verið í Þurranesi að undanförnu.

„Við fórum í framkvæmdir í tengslum við ferðaþjónustuna sem við þurftum að klára áður en fyrstu hóparnir koma nú um mánaðamótin. Svo er sauðburður, þannig að það hafa ekki verið margar lausar stundir að undanförnu. En það er gott að við erum þá að klára að sá fyrir nípunum, því þær þurfa það langan tíma.

Í tilraunaræktuninni í fyrra tókum við ekki mikið upp en fylgdumst með spírun og framganginum. Þær voru smáar þetta fyrsta sumar en við erum að vinna þær upp í stærð. Vegna þess hvað þær eru hægvaxta hér þá verða þær ekki eins stórar hér eins og þær hollensku innfluttu, en vonandi eins og stórar gulrætur þegar við verðum búin að stilla af áburðargjöf og annað í ræktuninni.

Við fengum almenna jarðræktarráðgjöf frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, en varðandi svona nýja tegund í ræktun á Íslandi er voðalega lítið til að byggja á og maður þarf bara að læra af reynslunni. Það er ákveðinn skyldleiki við gulrótaræktun, þannig að við höfum getað ráðfært okkur við gulrótabændur um ákveðin atriði.“

Heimasætan, Emma Lísa Jónsdóttir, að hjálpa við upptöku í fyrra.
Tíu tonn á hektara

Linda segir að þau stefni á að rækta gæðavöru sem keppir auðvitað ekki við innfluttar vörur í verði, en verður vonandi eftirsótt vegna gæðanna og upprunans.

„Við byrjuðum á því að sá nípum í hálfan hektara núna í þessari atrennu, sjáum svo til hvort við bætum við seinni sáningu. Við stefnum að því í framtíðinni að rækta 1 hektara og getum skalað upp í tvo, því við höfum nægt landrými. Í Evrópu er talað um að það sé hægt að búast við 20 tonna uppskeru á hektara en það er nú kannski ekki við því að búast hér. Hins vegar ættum við auðveldlega að ná tíu tonnum á hektara.

Við erum komin í samstarf við Sölufélag garðyrkjumanna sem hafa tekið vel í að taka við nípunum í sölu. Svo eru verslanir og rekstraraðilar hér á svæðinu áhugasöm líka.“

Sauðfjárbændur í garðyrkju

Þurranesbændur fara nú svipaðar leiðir og sveitungar þeirra í Ásgarði hafa gert og fjölga stoðunum undir búrekstrinum með útiræktun á grænmeti. Þar býr Eyjólfur Ingvi Bjarnason, formaður búgreinadeildar sauðfjárbænda hjá Bændasamtökum Íslands, með konu sinni, Guðbjörtu Lóu Þorgrímsdóttur, og dætrum og rækta þar blómkál, spergilkál, hvítkál og gulrófur. „Þau í Ásgarði eru ágætis vinafólk okkar og það má segja að þeirra ræktun hafi gefið okkur kraft til að taka skrefið inn í þessa grein landbúnaðarins. Ég var alveg ákveðin þegar ég flutti hingað fyrir tveimur árum að gera eitthvað í þessa veru. Staðan í sauðfjárræktinni er auðvitað þannig að bændur þurfa margir hverjir að huga að öðrum kostum líka,“ segir Linda, en þau eru með um 400 ær í Þurranesi.

„Ferðaþjónustan er góð stoð hjá okkur og við vonumst til að grænmetisræktunin geti orðið það líka,“ bætir hún við að lokum.

Skylt efni: Þurranes

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...

Fiðrildategund nefnd eftir Björk
Fréttir 15. nóvember 2024

Fiðrildategund nefnd eftir Björk

Skordýrafræðingurinn Harry Pavulaan hjá Nebraska-háskóla hefur nefnt nýja fiðril...