Norsk stjórnvöld með milljarða stuðning við bændur
Á þessu ári hafa orðið gífurlegar hækkanir á rekstrarvörum bænda. Ekki sér fyrir endann á þessari þróun, en að öllum líkindum mun verð koma til baka þegar jafnvægi kemst á hagkerfi heimsins. Í síðustu viku tilkynntu norsk stjórnvöld að þau myndu auka stuðning við bændur um 11,3 milljarða ÍSL kr. (754 milljónir NOK kr.). Umfang stuðningsins er í fullu samræmi við þær kröfur sem norskir bændur höfðu sett fram í samningaviðræðum við stjórnvöld.
Aukinn stuðningur við norska bændur er þrískiptur. Alls fara 610 milljónir norskra króna, eða sem svarar 9.143 milljónum íslenskra króna, í bætur vegna hækkunar á tilbúnum áburði. Þá fara 136 milljónir NOK kr., eða 2.039 milljónir ÍSL kr., í stuðning vegna hækkunar á byggingarefni og 9 milljónir NOK kr., eða sem nemur 128 milljónum ÍSL kr., fara í stuðning við ávaxta- og berjarækt.
Sem dæmi um hvernig þessi stuðningur kemur við rekstur bænda, þá hækkar stuðningur fyrir hvern ha sem er í ræktun (Kulturlandskapstilskudd) um sem nemur 7.950 ÍSL kr. á hektara. Hann fer úr 24.300 í 32.250 ÍSL kr. á hektara.
Stuðningur við kornrækt (Arealtiskudd, korn) hækkar um sem nemur 4.800 ÍSL kr./ha og fer úr 32.550 í 37.350 ÍSL kr/ha. Þó er það breytilegt eftir svæðum.
Gripagreiðslur fyrir þá sem eiga 15-30 mjólkurkýr (Tilskudd husdyr – Melkekyr) hækkar um sem nemur 6.000 ÍSl kr. á hvern grip. Hækka beingreiðslurnar úr sem nemur 49.230 í 55.230 ÍSL kr. á grip.
Athygli vekur að í greinargerð sem fylgir fréttatilkynningu um aukinn stuðning við norska bændur er þess getið sérstaklega að samningsaðilar, sem eru bændur og stjórnvöld, telja að þar sem 2/3 tekna bænda koma í gegnum afurðaverð þurfi tekjuauki bænda líka að koma úr þeirri átt. Þetta er sérstaklega áhugavert með hliðsjón af því að Samkeppniseftirlitið sendi út fréttatilkynningu á dögunum þar sem „brýnt er fyrir forsvarsmönnum hvers konar hagsmunasamtaka í atvinnulífinu að taka ekki þátt í umfjöllun sem tengist verðlagningu eða annarri markaðshegðun fyrirtækja“. /USS/HKr.