Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Þuríður Lillý Sigurðardóttir, sauðfjárbóndi á Sléttu í Reyðarfirð
Þuríður Lillý Sigurðardóttir, sauðfjárbóndi á Sléttu í Reyðarfirð
Mynd / ÁL
Fréttir 6. nóvember 2023

Nýliðun nauðsynleg

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Þuríður Lillý Sigurðardóttir, sauðfjárbóndi á Sléttu í Reyðarfirði, segir undanfarin ár lítið hafa verið gert til að ýta undir nýliðun í landbúnaði.

Það sýni sig í að kynslóðaskipti í greininni séu með minnsta móti. Hún hélt erindi á baráttufundi Samtaka ungra bænda í liðinni viku.

Þuríður segir baráttufundinn hafa verið til að fá ráðamenn og almenning, sem eru ekki endilega nátengdir landbúnaði, til að sjá hversu alvarleg staðan er. Það þýði ekkert fyrir stjórnvöld að vakna upp eftir einhver ár þegar búskapur í landinu hefur hnignað varanlega, því matvælaframleiðsla byggist ekki upp á einni nóttu. Tækifærin séu enn til staðar og það eru enn til ungir bændur og blómleg bú sem hægt er að taka við. „En maður rís ekki upp úr öskunni eftir tíu ár þegar allt er í niðurníðslu. Það þarf að vera hægt að taka við búum þegar þau eru enn í blóma.“

Nær ómögulegt án fjölskyldutengsla

Samkvæmt Þuríði geta bændur nánast aldrei tekið við bújörðum nema þegar eiga sér stað ættliðaskipti innan fjölskyldu. Í þeim tilfellum sé þó engin leið góð því þær séu allar þannig að einhver tapi á þeim. „Annaðhvort þarf sá sem selur að selja svo ódýrt að hann hefur ekkert upp úr sínu ævistarfi – eða þá að ungi bóndinn þarf að skuldsetja sig svo hátt að hann getur ekki lifað af búskap, heldur þarf hann að vinna utan bús.“ Þetta geri það oft að verkum að þótt yngri kynslóðin taki til starfa á bænum þá dragist þau hreinu skipti á búrekstrinum sem eru nauðsynleg til að unga fólkið geti hafið sína uppbyggingu.

„Maður veltir fyrir sér af hverju ungt fólk sé að fara í þessar aðstæður þar sem er mikil vinna fyrir nánast engin laun.“
Þetta þurfi að verða eftirsóknarverð starfsgrein og segir Þuríður ekki aðlaðandi fyrir ungt fólk að vinna úti og koma svo heim í lok dags og þurfa að sinna bæði búskap og heimili.

„Ungir bændur standa ekki undir því í mörg ár að vinna hundrað og fimmtíu til tvö hundruð prósent vinnu. Á meðan allar stéttir eru að fara í styttri vinnuviku og lengri sumarfrí eru bændur að horfa á það að reyna að ná endum saman.“ Hún bætir við að næga atvinnu sé að hafa og hætta sé á að fólk sem annars færi í búskap leiti í önnur störf.

Í raun starfsmaður búsins

Þuríður segist heppin að taka við góðu búi hjá föður sínum, en samt þurfi hún og eiginmaður hennar að vinna utan bús – Þuríður í sextíu prósent starfi og maki hennar í fullu starfi. Móðir hennar er jafnframt í fullri vinnu.

Faðir Þuríðar, sem er kominn yfir sjötugt, sótti lengst af vinnu utan bús en í seinni tíð hefur hann verið ungu hjónunum innan handar, enda kominn á eftirlaun.

Þau hafa stofnað einkahlutafélag í kringum búreksturinn og þótt Þuríður sjái um allan daglegan rekstur þá er faðir hennar enn eigandi búsins. „Við höfum ekki enn fundið þá leið sem er best til þess að ég geti keypt af honum. Þó ég vildi óska þess að ég gæti sagt að ég ætti bæði reksturinn og jörðina, þá er ég í rauninni bara starfsmaður.“ Ungu hjónin eiga hluta bústofnsins og hafa byggt sér einbýlishús á jörðinni. Þuríður segir að eftir að hafa reist sér heimili þá sé ekki mikið sem standi eftir til að kaupa fyrirtæki og jörð.

Þuríður þakkar fyrir að hún hafi ekki verið búin að skuldsetja sig mikið í ljósi þeirra vaxtahækkana sem hafa verið undanfarið. Hún veit til þess að þetta sé mjög erfitt fyrir þá bændur sem tóku skrefið til fulls og að margir geti ekki staðið undir afborgunum. Fyrir vaxtahækkanirnar þurftu bændur að vinna með búskap og nú sé umhverfið orðið mun verra. „Tekjurnar hafa ekki hækkað í neinum takti við útgjöldin.“

Gæðingafeður og mæður
Fréttir 19. júlí 2024

Gæðingafeður og mæður

Skýr frá Skálakoti átti flest afkvæmi á Landsmóti hestamanna í ár, 31 talsins.

Kúakaup fyrir dómi
Fréttir 19. júlí 2024

Kúakaup fyrir dómi

Kúakaup milli tveggja bænda rötuðu til héraðsdóms á dögunum.

Úthlutun aflamarks
Fréttir 18. júlí 2024

Úthlutun aflamarks

Nýverið fundaði stjórn Byggðastofnunar vegna fyrirhugaðrar úthlutunar sértæks by...

Lóga þarf hrúti
Fréttir 18. júlí 2024

Lóga þarf hrúti

Bóndi þarf að afhenda Matvælastofnun ákveðinn hrút til að kanna útbreiðslu á rið...

Árangurinn kom á óvart
Fréttir 18. júlí 2024

Árangurinn kom á óvart

Fjölskyldan í Strandarhjáleigu í Rangárþingi eystra átti góðu gengi að fagna á n...

Mögulegur milliliður í kjötinnflutningi
Fréttir 17. júlí 2024

Mögulegur milliliður í kjötinnflutningi

Ýmislegt bendir til þess að fyrirtækið Háihólmi sé milliliður í innflutningi Kau...

Hestamennska gefur lífinu lit
Fréttir 17. júlí 2024

Hestamennska gefur lífinu lit

Það gustaði um hross kennd við Vöðla í Rangárþingi ytra á Landsmóti hestamanna.

Skrifað undir landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu
Fréttir 17. júlí 2024

Skrifað undir landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu

Skrifað var undir nýja landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu í Hörpu á mánudag...