Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Kindur með grasbala fyrir framan sig í Grettisbæli í Vígabjargi í Forvöðum við Jökulsá á Fjöllum.
Kindur með grasbala fyrir framan sig í Grettisbæli í Vígabjargi í Forvöðum við Jökulsá á Fjöllum.
Mynd / HKr.
Fréttir 2. nóvember 2015

Nýta, njóta... og gæta

Höfundur: Ari Trausti Guðmundsson
I Að öllum líkindum hafa innan við 40 kynslóðir bænda búið á Íslandi. Nákvæm tala gæti verið 36 og fer ákvörðun hennar eftir því hve vel tekst að tímasetja landnám norræns og keltnesks fólks í eynni. Í samanburði við lönd fornra ríkja, veljum t.d. Íran, er saga íslensks landbúnaðar tiltölulega stutt. En hvað sem því líður var hann önnur helsta undirstaða mannlífsins, hér rétt eins og í mörgum strandríkjum veraldar. Lög, réttur og hefðir hafa mótast á rúmu árþúsundi. Það gerðist að mestu án aðgerða gegn hnignandi ytri skilyrðum, svo sem eyðingu trjágróðurs, og víðs fjarri samkeppni við tæknivæddar nýjar greinar eða við hlið fyrirbæris sem enginn sá fyrir, öldum saman: Fjöldaferðamennsku. Eignaréttur á landi var alla tíð öflugur en um leið var almannaréttur töluverður. Hins vegar er ekki að sjá að landaeign hafi falið í sér víðtækar skyldur eigenda.
 
II Öldum saman var landnýting höfð með þeim hætti sem grunnþarfir fólks skópu. Ytri skilyrði utan mannlegs valds, svo sem kuldar, hlýindi,  þurrkar, hafískomur, eldgos og flóð áttu gríðarstóran þátt í hvernig fólk nýtti land og afar oft hafði það ekkert val um viðbrögð. Við bættust svo sjúkdómsfaraldrar og innri átök í samfélaginu, samkeppni um ríkidæmi og útbreidd fátækt. Sókn í ríkidæmi kom líka við sögu. Loks má ekki gleyma því að margir landnámsmanna og fáeinar næstu kynslóðir notuðu misheppilegar búskaparaðferðir og lífsstíl sem færður var yfir hafið úr löndum sem eru um margt ólík Íslandi. Af öllu þessu má ráða að óraunhæft er að álasa fyrri kynslóðum fyrir ranga landbúnaðarhætti. Greining á meginþáttum þeirra og áhrifunum á landið er aftur á móti góðra gjalda verð og handa okkur að læra af.
 
III Nútíma tækni, sífellt flóknara lífsmynstur og fjór- til fimmfalt stærra samfélag en nokkru sinni fyrr hefur breytt viðhorfum til landnýtingar og jafnvel eignarréttar á landi. Landnýting er orðin fjölþættari en áður, krafa um aukinn almannarétt sterkari og umræður um eignarhald og auðlindagjald komnar á dagskrá. Nú hefur verið unnið að því að skýra hvar land er í einkaeign og hvar í opnberri eigu. Og spurt er stundum: Innifelur eignaréttur á landi umfram venjulega byggingarlóð í sér ábyrgð frammi fyrir samfélaginu og skyldur gagnvart öðrum en eigendunum?  Okkur finnst til dæmis að húseigandi í bæjarfélagi eigi að halda eign sinni við með sæmilegum skikk eða að bæjarfélagið hafi útivistarsvæði sitt í góðu lagi. Hvernig ber að líta á landlítið eða landmikið sveitabýli í þessu tilliti eða landeiganda í dreifbýli sem býr þar ekki?
 
IV Ég hef verið hallur undir þá hugmynd að líta á bændur og aðra eigendur og landnýtendur sem vörslumenn til jafns við hin hlutverkin. Nú er svo að búskapur tekur til fjölmargra greina þannig að ég vel ræktun hefðbundins nytjagróðurs sem dæmi til að skýra vörsluhugtakið. Hugsum okkur meðalstóra bújörð með blandaðri framleiðslu sauðfjárafurða og mjólkur. Þar eru ræktuð tún og skjólbelti, þar er töluvert af framræstu votlendi sem að hluta er nýtt undir tún og til heimabeitar en að hluta ónýtt, þar eru hundruð hektara af mólendi, melum og klöpp og loks beitarréttur á stórum afrétti sem er að mestu í opinberri eigu. Þegar jörðin komst í þetta ástand milli 1950 og 2000 réðst nýtingarstefnan væntanlega fyrst og fremst af þeim hugmyndum um hagkvæmni og góðan afrakstur sem tvær kynslóðir eigendanna höfðu. Hugmyndir um sjálfbærni og vistvæn, heildræn sýn á landið tók ekki að bæra á sér fyrir alvöru fyrr en síðla á síðustu öld, jafnt á þessu býli sem utan landbúnaðargeirans. Þar með urðu bændur á þessu býli smám saman að vörslumönnum í samfélagsskilningi.
 
V Bændurnir í dæminu standa nú frammi fyrir því að vinna raunhæft mat á beitarþoli síns lands og afréttarins (í samvinnu við aðra) og á heppilegri stærð og samsetningu bústofnsins. Þeir þurfa að ákvarða hvort og þá hvar skuli stækka svæði til að rækta fóður; tún og kjarnfóðursakra. Þeir þurfa að ráðast í landbætur þar sem gróður- og jarðvegseyðing lætur á sér kræla (í samvinnu við aðra), bæta við trjágróðri ef verkast vill og síðast en ekki síst meta hvort þurrka beri meira votlendi eða endurheimta ónytjað votlendi. Að sjálfu leiðir að bændurnir geta ekki unnið svona án sérfræði- og fjárhagsaðstoðar. En þeirra framlag, vinna og fé, ber um leið að líta á sem afgjald til samfélagsins fyrir mikilvæga notkun jarðvegsauðlindarinnar. Samfélagið, aftur á móti, aðstoðar í þágu heildarinnar. Þannig verða til eðlileg tengsl milli vörslumanna stórs hluta landsins og okkar hinna. Í nýlegri ályktun Alþjóðasamtaka bænda (WFO) segir:
 
„Við bændur erum vörslumenn landsins. Landbúnaður hefur mótað landslag og menningu um allan heim. Eftir sem áður er jarðvegsauðlindum okkar ógnað vegna aukinnar eyðimerkurmyndunar, uppblásturs, útþenslu byggðar og fleiri neikvæðra áhrifa. Það eru sameiginlegir hagsmunir bænda að vernda jarðveginn, berjast gegn eyðimerkurmyndun, bæta gæði og meðferð vatns, tryggja búsvæði tegunda í útrýmingarhætti og efla líffræðilega fjölbreytni á heimsvísu.“
 
Íslensk landbúnaðarstefna á að endurspegla þetta viðhorf. Er það ekki?
Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...

Skipuleggja lóðir fyrir súrefnisframleiðslu
Fréttir 29. nóvember 2024

Skipuleggja lóðir fyrir súrefnisframleiðslu

Sveitarfélagið Ölfus hefur auglýst nýtt deiliskipulag fyrir lóðina Laxabraut 31 ...

Kjúklingar aftur í Grindavík
Fréttir 29. nóvember 2024

Kjúklingar aftur í Grindavík

Reykjagarður hf. hefur endurvakið kjúklingarækt í Grindavík eftir ellefu mánaða ...